13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3539 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

347. mál, aðgerðir til að bæta hag sjómanna

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. þm. Garðar Sigurðsson er genginn úr salnum svo að það er kannske til lítils að svara spurningum hans sem reyndar voru ekki margar. Hv. þm. taldi að litlar fréttir af þessum samningum hefðu gefið til kynna að sjávarútvegurinn væri talinn minna virði en aðrar atvinnugreinar. Það er náttúrlega mikill misskilningur. Öllum er fullkomlega ljóst að sjávarútvegurinn er sú grundvallaratvinnugrein sem við Íslendingar byggjum á.

Hv. þm. taldi að tekjur sjómanna hefðu skerst meira en tekjur annarra stétta. Það sem ég hef fyrir mér í því, sem ég sagði áðan, er sá samanburður sem Þjóðhagsstofnun hefur gert lengi um hlutfall tekna sjómanna annars vegar og verkamanna og iðnaðarmanna hins vegar. Það hafa vissulega verið mismunandi mögur ár á milli eins og ég hygg að ég hafi sagt áðan. En að mati Þjóðhagsstofnunar, sem byggt er á þessum sama samanburði, standa sjómenn fyllilega verkamönnum og iðnaðarmönnum á sporði að þessu leyti. Það vil ég hins vegar taka skýrt fram að ég er mjög sammála hv. þm. í því að tekjur sjómanna þurfa að vera góðar með tilliti til þeirrar vinnu sem þeir sinna og vinnuaðstöðu, fjarveru að heiman, óreglulegs vinnutíma o.s.frv.

Einnig er vert að spyrja sjálfan sig þeirrar spurningar hvort launaskrið, sem hjá vissum stéttum er töluvert, nái til sjómanna. Ég hygg að það sé að vísu ákaflega breytilegt, en t.d. iðnaðarmenn í landi njóta miklu fremur launaskriðs en sjómenn. Að þessu leyti hygg ég því að hv. þm. hafi rétt fyrir sér. En það er á þessum samanburði sem ég byggði og lagði áherslu á að sú hækkun á tekjum sjómanna, sem felst í þessu og er nokkur, er m.a. af þessum ástæðum ekki grundvöllur til raunverulegs samanburðar fyrir aðrar stéttir.

Það er vitanlega sjálfsagt að skoða erfiðleika sjávarútvegsins. Allir þeir sem hafa farið með, eins og hv. þm. sagði. hroðalega stjórn hans á undanförnum árum, hafa verið að gera það og það hefur verið gert af fjölmörgum nefndum og hópum sem fulltrúar sjútvrn. hafa tekið þátt í. Þegar liggja fyrir mjög miklar upplýsingar.

Eins og allir vita og komið hefur mjög glöggt fram í endurskipulagningu á fjármálum sjávarútvegsins, skuldbreytingum sem hafa verið tíðar í gegnum árin m.a., hefur hann orðið ákaflega mikið fyrir barðinu á dýrri fjárfestingu alveg sérstaklega og mikilli hækkun dollarans þar sem ákaflega mikið af skuldum sjávarútvegsins er í dollurum. Varla þarf nokkur að spyrja að því að sjávarútvegurinn hafi orðið fyrir barðinu á aflabresti þeim sem varð fyrst á loðnunni 1981–1982 og síðan á þorskinum 1982 og eflaust er líka hroðalegri stjórn sjávarútvegsmála að kenna. Að vísu segja vísindamenn að hitastig sjávar hafi lækkað um tvö stig. en það er alveg eins hægt að taka á sig þá sök eins og hverja aðra. Reyndustu sjómenn segja manni að þeir hafi aldrei séð sjóinn eins glæran og 1982–1983. Það segir kannske meira um átumagn og lífsskilyrði í sjónum en flest annað.

Þessu hefur verið mætt með ýmsum aðgerðum sem vissulega hafa ekki leyst allan vanda, það er algerlega ljóst, en trú mín er sú að ekki vegna stjórnar á sjávarútvegi fyrst og fremst heldur vegna breyttra náttúruskilyrða vegna hlýnandi sjávar muni afkoma sjávarútvegsins fara ört batnandi á næstu árum eins og hún hefur gert í öllum þeim sveiflum sem orðið hafa hér með u.þ.b. 14–15 ára bili.

Hv. þm. Guðmundur Einarsson spurði hvort einhver breyting væri í samningagerð eða afstöðu ríkisstj. til samninga. Þessir stjórnarflokkar, eins og allir aðrir. leggja áherslu á frjálsa samninga við deiluaðila. Það er engin breyting að því leyti. Hins vegar höfum við opinberlega lagt á það áherslu að við erum reiðubúnir að taka þátt í þeim viðræðum sé þess óskað. Það hefur kannske verið undirstrikað meira núna en fyrr. m.a. vegna þess að við teljum að ríkisstj. beri skylda til þess í því mjög viðkvæma ástandi sem íslensk efnahagsmál eru.

Ég hygg að ég hafi nefnt í framsöguræðu minni að deiluaðilar fóru fram á afskipti ríkisvaldsins. Fulltrúar sjómanna og farmanna gengu bæði á minn fund og sjútvrh. rétt áður en verkfall var að skella á og lögðu á það áherslu að þeir teldu algerlega vonlaust að samkomulag næðist milli deiluaðila án afskipta ríkisvaldsins og óskuðu eftir því mjög eindregið að ríkisstj. kæmi inn í þessi mál. Þeir lögðu jafnframt fyrir okkur ýmsar hugmyndir þar að lútandi.

Við ræddum að sjálfsögðu einnig við fulltrúa útvegsmanna sem staðfestu það að litlar líkur virtust til þess að samkomulag næðist. Það varð því niðurstaða ríkisstj. að í þessari mikilvægu deilu yrði ríkisvaldið að taka töluverðan þátt. Þrír ráðh., forsrh., fjmrh. og sjútvrh., áttu síðustu dagana mjög ítarlegar viðræður við samningsaðila. Sömuleiðis var fulltrúi ríkisstj. beðinn að vera á fundum hjá sáttasemjara að ósk sáttasemjara og deiluaðila. Sem sagt, þetta var gert að ósk þeirra aðila sem í þessari deilu stóðu.

Ég hef sagt, eins og hv. þm. sagði, að þetta hafi tekist vel. Og ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi tekist mjög vel, ekki vegna þess að filmurnar séu ekki nógu hraðar — þær eru nú komnar upp í meira en þúsundasta brot af sekúndu og það er náttúrlega bara gamanyrði hjá hv. þm. — heldur vegna þess að það tókst að gera þetta m.a. í kyrrþey og það er ekkert lítið mál. Það tókst að gera það í kyrrþey án þess að hlutirnir, eins og því miður oft vill vera þegar þeir eru á samningsstigi á milli aðila, væru rangfærðir. Ég er ekki að segja viljandi heldur af alls konar misskilningi. Þetta tel ég að eigi að vera regla í svona viðkvæmum málum.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði um tekjutap sveitarfélaga á þessu ári. Mér mun hafa láðst að geta þess að að mati fjmrn. er talið að tekjur af söluskatti verði töluvert miklu meiri en áætlað var í fjárlögum og því muni tekjur Jöfnunarsjóðs ekki skerðast á þessu ári af þessum sökum. Það muni sem sagt renna í Jöfnunarsjóð meira en gert var ráð fyrir í fjárlögum.