24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

6. mál, orka fallvatna

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og hv. deild er kunnugt er hér alls ekki um nýtt mál að ræða. Þetta mál hefur verið flutt allmörgum sinnum eða ýmsar greinar þess. Það hefur lengi verið á stefnuskrá míns flokks, Alþfl., að vinna að því að landið yrði sameign þjóðarinnar.

Í fyrstu voru um það fluttar þáltill. af ýmsu tagi, en hin síðari ár höfum við flutt lagafrv. um ýmsa þætti málsins. Við höfum flutt lagafrv. um sameign þjóðarinnar á hálendinu, þess hluta þess sem ekki finnast ótvíræðar lagaheimildir eða skrifaður bókstafur fyrir að aðrir eigi. Við höfum sömuleiðis flutt frv. til laga — það er ekki heldur nýtt og hafði verið margflutt hér áður í ýmsum myndum af fulltrúum úr fleiri flokkum — um nýtingu jarðvarmans og þá í því formi nú síðast að háhiti yrði sameign þjóðarinnar allrar.

Hér hefur hv. 5. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, flutt frv. ásamt ýmsum öðrum, þ. á m. mér, um orku fallvatna og nýtingu hennar og breytingu á vatnalögum, sem lýtur að því að þau auðæfi sem fólgin eru í orku fallvatnanna verði sameign þjóðarinnar. Hvorki í þessu frv. né í öðrum þeim sem flutt hafa verið hin síðari ár, t.d. um jarðvarmann og sameign þjóðarinnar á honum, geta talist mjög harkaleg. Í þeim er aðlögun, ef ég má orða það svo, eins og t.d. í því frv. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson er 1. flm. að og er nú hér til umr.

Það merkilega er að þessi frv. hafa yfirleitt hlotið góðar undirtektir meginþorra þm., þ. á m. oft hlotið góðar undirtektir ráðh. T.d. þegar þessi mál voru hér til umfjöllunar s.l. ár, þá hafði hæstv. iðnrh. ákaflega svipuð orð um þau og hann gerði núna. Ég minnist þess að hann lýsti stuðningi við þær hugmyndir sem fram kæmu í ýmsum þessara frv., a.m.k. þeim sem lutu að hans ráðuneyti, svo ég minnist á jarðvarmann, og hann hefur með vissum hætti líka lýst stuðningi hér í dag við það frv. sem hér er til umr. Þetta sama sjónarmið hefur komið fram, eins og ég segi, hjá meginþorra þm. En það gerist líka alltaf að hæstv. ráðh., hvort sem þeir heita A eða B, bæta því við, eins og hæstv. ráðh. gerði í dag, að vitaskuld sé þetta til ítarlegrar athugunar í þeirra eigin ráðuneyti og gefa því svona undir fótinn að vitsmunirnir í ráðuneytinu muni auðvitað vega langtum þyngra en þeir vitsmunir sem fram eru bornir á Alþingi.

Hæstv. núv. ráðh. tók það að vísu fram að hann vildi með engum hætti tefja störf þingnefnda. En það hefur verið eins konar verklag hér að ætlast til þess að mál færu á ís ef þau væru til athugunar í ráðuneytum. Nú var hæstv. ráðh. ekki að gera það beinlínis hér, en það hefur legið í því sem sagt hefur verið á undanförnum árum. Það sem er merkilegast í þessu öllu er þó það, að þegar greinilega er mikill meiri hluti á þinginu fyrir málum eins og þessu, þá er afstaða ekki tekin. Það gildir líka um jarðhitafrv. Ég er sannfærður um að það gildir líka um sameign á þeim hluta öræfanna sem er ekki ótvíræð eign einhverra annarra. Hæstiréttur hefur beðið um að sett yrðu lög um það. En samt er afstaða ekki tekin. Það eru óþolandi vinnubrögð hjá þessu þingi, og hefur orðið til þess að tefja framfarir á ýmsum sviðum hjá okkur, að ef einhverjir fáeinir menn, einhver minni hluti er á móti málinu, þá skuli ekki vera nokkur vegur að fá fram afstöðu í þinginu og meiri hlutinn geti ekki komið fram vilja sínum. Við höfum að vísu haft dæmi um það að bundið væri í stjórnarsáttmála að minni hlutinn ætti að ráða, en það er vonandi ekki svo bölvað í því tilviki sem hér er núna.

Ég vil að vísu spyrja hæstv. ráðh. hvort verið geti að það sé bundið í stjórnarsáttmála að ekki sé leyfilegt að taka hér skynsamlegar ákvarðanir sem mikill meiri hluti er fyrir. (Iðnrh.: Nei.) Gott. Þá stendur það ekki í veginum. Nú skora ég á hæstv. ráðh., sem hefur þó sýnt þessum málum verulegan skilning bæði hér nú og í fyrra, að leggjast á sveif með þingdeildum og hjálpa til að koma þessum málum í höfn, koma þeim út úr nefndum og fá afstöðu í þinginu um þau, en að þetta liggi ekki svona á reki árum og áratugum saman til stórtjóns fyrir þjóðina og til skammar fyrir ríkið.