13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3546 í B-deild Alþingistíðinda. (2892)

341. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég er auðvitað samþykkur þessu frv. sem hæstv. forsrh. var að mæla fyrir. En vegna orða hæstv. ráðh. um skipakaup og greiðslubyrði þá er það ljóst að þeir sem keyptu skipin sín á „réttum tíma“ geta auðvitað borgað sínar skuldir. Þær eru óverðtryggðar. Og þeir útgerðaraðilar eru ekki búnir að borga niður sín skip vegna þess að þeir hafi fiskað svo mikið og verið duglegir, heldur vegna þess að skuldin hækkar ekkert með verðbólgunni og það er verið að. greiða skuldina með langtum verðminni krónum.

Ég man eftir því að fyrstu vertíðina sem ég reri var ég á nýjum, glæsilegum bát, nýsmíðuðum úr Þýskalandi, afar vandað skip. Það skip kostaði 1.2 millj. kr. (Gripið fram í: Þú ert orðinn gamall maður.) Já. Það eru bráðum 30 ár síðan, 29 ár síðan. — Það kostaði 1.2 milljónir. Hvað er það mikið í okkar krónum núna, hinum þungu krónum? 12 000 kr., er það ekki? Ef menn fá að borga skipin sín í, slíkum krónum þá er auðvitað lítill vandi. En sem betur fer gengur mönnum misjafnlega. Aðalatriðið er það að þeir sem fara út í dýr skipakaup eða skipasmíðar, sem eru afar dýrar módelsmíðar hér innanlands, ráða þeir auðvitað ekkert við þetta. Það er algjörlega vonlaust, sama hvað menn afla mikið, nema rétt í einstökum undantekningartilfellum.

Það dugar ekki að fela þennan vanda fyrir sér með því að benda á skip sem standa eitthvað skár eða þau skip sem smíðuð voru langtum fyrr, fyrir verðtryggingu.