13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3548 í B-deild Alþingistíðinda. (2896)

283. mál, eftirlit með matvælum

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, með áorðnum breytingum. Þetta frv. er komið frá Ed. og fékk þar ítarlega meðferð. Á fund heilbr.- og trn. Ed. kom Örn Bjarnason forstöðumaður Hollustuverndar ríkisins og gaf upplýsingar um það af hverju hæstv. heilbr.- og trmrh. taldi þörf á því að flytja þetta frv. Að þessu er vikið í grg. sem fylgir frv. En aðdragandi þess er sá að heilbrigðiseftirlitið á Reykjavíkursvæði kærði fyrir nokkru til ríkissaksóknara dreifingaraðila sem taldi ákveðna vöru ekki til sölu á dreifingarstað og hélt því fram að það væri heilbrigðiseftirlitsins að sanna að hún væri til sölu. Ríkissaksóknari taldi ekki lagalega forsendu til aðgerða þar sem áðurnefnd reglugerðarákvæði ættu sér ekki lagastoð og þegar sönnunarbyrði væri snúið við á þennan hátt þyrfti til ótvíræða lagaheimild. Hún var ekki til staðar því að fyrsta reglugerðin um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum kom í kjölfar laga sem voru sett 1936.

Nú eru sem sagt tekin af tvímæli með þessu frv. og ég tek það fram að við í heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar vorum öll sammála um að mæla með samþykkt frv. óbreytts eins og það kom frá Ed.