13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (2899)

5. mál, útvarpslög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Erindi mitt hér í ræðustól er að þakka meiri hl. menntmn. fyrir ágætt starf. Hann hefur breytt frv. og breytt því til mikilla bóta að mínum dómi. Ég setti fram gagnrýni á frv. þegar það var til 1. umr. Sumt af henni var tekið til greina af meiri hl. nefndarinnar. Ég viðurkenni að ég gæti hugsað mér þetta frv. öðruvísi ef ég mætti einn ráða, en þetta er niðurstaða af samkomulagi stjórnarflokkanna. Fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. í menntmn. Nd. hafa unnið gott starf, teygt sig langt til samkomulags. Þannig hlýtur að vera farsælast að vinna.

Þetta frv., eins og það kom frá nefndinni, var byggt á því að við framsóknarmenn töldum að Sjálfstfl. stæði einnig að þessu frv., að mestu leyti a.m.k., og stæði að frv. eins og meiri hl. gekk frá því. Þess vegna kom mér á óvart brtt. Friðriks Sophussonar sem lögð var hér fram á þskj. 514. Ég tel að þarna hafi verið staðið að málum með þeim hætti sem ekki sé æskilegur. Ég get lýst því yfir að ég mun ekki styðja málið ef sú brtt. yrði samþykki. Ég hef ekki trú á því að þm. Framsfl. greiði þeirri till. atkv. Það liggur ljóst fyrir að einn þm. Framsfl. er á móti málinu, Stefán Valgeirsson, og það hefur komið hér fram í umr. Aðrir þm. Framsfl. munu það ég best veit greiða málinu atkvæði eins og meiri hl. menntmn. Nd. gekk frá því. En ég tel að við séum óbundnir af þeirri samþykki ef farið yrði að samþykkja brtt. á þskj. 514 eða einhverjar aðrar en þær sem meiri hl. stendur að.