24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

6. mál, orka fallvatna

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka þann skilning, sem fram kom hjá hæstv. iðnrh. á nauðsyn þess að sett verði löggjöf um þessi atriði, enda hlýtur honum að vera sú nauðsyn ljós þar sem hann er starfandi á vettvangi þar sem eignarrétturinn á þessum auðlindum, jarðvarmanum og orku fallvatnanna, skiptir gífurlega miklu máli. Hér er ekki verið að fjalla um einhvern lagabókstaf bókstafsins vegna heldur er hér um að ræða m.a. spurninguna um það, hvernig okkur tekst til um og hvaða möguleika við höfum á hagnýtingu náttúruauðlinda okkar, í þessu tilviki orkulindanna. Ég vænti þess, þar sem þetta mál er nú komið fram í upphafi þessa þings, að við megum bera gæfu til þess, gjarnan í samvinnu við hæstv. iðnrh., að taka á þessu máli í þingnefndum og leitast við að vinna okkur fram úr því, þannig að við fáum hér löggjöf um þessi þýðingarmiklu atriði.

Vel getur komið til þess að finna þurfi málamiðlun af eitthvað öðru tagi en lagt er til í þessu frv. og þá ber að líta á það. En eins og hv. 3. þm. Reykn. gat hér um áðan, þá er það orðið gífurlega brýnt af efnahagslegum ástæðum að marka hér skýra stefnu.