14.03.1985
Sameinað þing: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3578 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Hera forseti. Ekki er undarlegt þó að hér á Alþingi komi fram fyrirspurn um svonefnda kennaradeilu. Mjög alvarlegt ástand hefur skapast í framhaldsskólum landsins sem þm. sem aðrir hljóta að hafa áhyggjur af. Sömuleiðis eru áreiðanlega ýmsir sem hafa áhyggjur af því að kennarar völdu þann kostinn að hætta störfum 1. mars þrátt fyrir lagafyrirmæli um annað.

Ég mun leiða hjá mér ýmsar skýringar hv. fyrirspyrjanda á aðdraganda þess ástands sem skapast hefur. Auðheyrt var að þar talaði maður sem ekki er lengur í ríkisstj. Ég vil þó nefna að ég hygg að meginástæðan sé sú að við bjuggum lengi við verðbólgu sem fór upp í 130% og eftirfylgja þess ástands er jafnvægisleysi í okkar efnahagsmálum. Er það mín skoðun að á þessi mál sem og ýmis önnur fáist aldrei sæmilegt lag fyrr en jafnvægi er orðið í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Ég vil einnig taka það fram strax að mér finnst ákaflega eðlilegt og reyndar rétt að fjmrh. hefur kosið að svara ekki fyrirspurnum nú um þær viðræður sem launanefnd fjmrn. á í við kennara og aðra opinbera starfsmenn. Þar er um ákaflega viðkvæm mál að ræða, þau eru á viðkvæmu stigi. Ég held að þm. hljóti að vera ljóst að slík mál leysast ekki í deilum hér á hinu háa Alþingi. (GHelg: Eru þau á einhverju stigi?) Þau eru vissulega á einhverju stigi, það hélt ég að hefði ekki farið fram hjá hv. þm. Hvar hefur hún verið? (GHelg: Ég hélt það.) Ég hélt að einmitt hefði verið deilt um það í fjölmiðlum hvort tilboð launanefndar væru réttmæt og eðlileg o.s.frv. Ég mun því snúa mér að því sem að ríkisstj. í heild snýr í þessu máli.

Ég hef að sjálfsögðu fylgst vandlega með framgangi málsins ásamt menntmrh. og við höfum átt ýmsa fundi með fjmrh. um málið. Ég hef einnig átt fundi með formanni Hins íslenska kennarafélags. Við vorum sammála um það fyrir skömmu að lítil von væri til þess að samkomulag næðist um meginatriði í þessari deilu. Meginatriðin í deilunni eru í fyrsta lagi hve mikla hækkun kennarar þurfi að fá til þess að leiðréttur verði sá munur sem orðinn er með kennurum og öðrum opinberum starfsmönnum. Í öðru lagi hvernig meta beri aukna ábyrgð og kröfur sem gerðar eru til kennara eins og fram kemur í skýrslu sem gerð var á vegum hæstv. menntmrh. Og í þriðja lagi hvernig meta ætti þann kjaramun, sem talinn er vera á milli opinberra starfsmanna og manna á hinum almenna vinnumarkaði, eins og venjulega er sagt.

Það var því skoðun okkar að eðlilegast væri að vísa málinu sem allra fyrst aftur til Kjaradóms svo að hann fengi betra ráðrúm til að leysa úr þessum málum. Það er rétt að taka það fram að í forsendum Kjaradóms 16. febrúar s.l. kemur fram að Kjaradómur telur að á þessum málum þurfi að taka, þótt ekki sé það mjög ákveðið sett þar fram. Ætla má og segir reyndar í forsendum að Kjaradómur telji að í þeim launaflokkaramma, sem dómurinn ákvað með úrskurði sínum 16. febrúar, eigi að vera svigrúm til að leiðrétta slíkt. Ég lagði því fram á ríkisstjórnarfundi s.l. þriðjudag tillögu að samþykki ríkisstj. í þeirri von að þar kæmi fram viljayfirlýsing sem gæti stuðlað að því að kennarar hyrfu aftur til starfa og málið kæmist strax til Kjaradóms. Á þeim fundi var mér ásamt hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. falið að ganga endanlega frá þeirri samþykkt og það gerðum við seinna þann dag.

Hv. fyrirspyrjandi hefur tekið af mér ómakið að lesa þessar samþykktir og skal ég sleppa því. En til þess að málið liggi að öllu leyti fyrir vil ég þó geta þess að fljótlega eftir þennan fund átti ég samtal við formann Hins íslenska kennarafélags og sendi síðan þessar ályktanir næsta morgun, þ.e. í gærmorgun, til hans ásamt bréfi sem mér þykir rétt að lesa, með leyfi forseta:

„Með tilvísun til viðtals sendi ég hér með samþykki ríkisstj. um kjaramál kennara og opinberra starfsmanna almennt. Eftir umræður í ríkisstj. í gærmorgun var á grundvelli tillögu, sem þar lá fyrir, forsrh., fjmrh. og menntmrh. falið að ganga frá samþykkt ríkisstj. í máli þessu.

Eins og fram kemur lýsir ríkisstj. þeirri skoðun sinni að leiðrétta beri kjör kennara til samræmis við aðra háskólamenntaða menn í þjónustu hins opinbera og jafnframt sé rétt að taka til greina þær auknu kröfur sem gerðar eru til kennarastarfsins. Einnig lýsir ríkisstj. vilja sínum til þess að samræma kjör opinberra starfsmanna almennt kjörum á hinum almenna vinnumarkaði.

Kjaradeilan mun væntanlega fá hið fyrsta lögbundna meðferð hjá Kjaradómi. Með tilvísun til þess er það einlæg von mín að kennarar ákveði að hverfa aftur til starfa. Það eru fyrst og fremst nemendur framhaldsskólanna sem að ósekju hafa mikil vandræði og tjón af því ástandi sem nú ríkir. Því verður að ljúka.“

Hv. þm. spurði sérstaklega að því hvers vegna ekki væri leiðréttur sá munur sem er með mönnum, ekki bara kennurum heldur opinberum starfsmönnum, í þessu tilfelli háskólamenntuðum mönnum, í þjónustu hins opinbera og á hinum almenna markaði. Það er rétt að samanburðarkönnun fer nú fram hjá sérstakri nefnd. Þessi nefnd hefur ekki lokið störfum. Nefndin hefur skilað áfangaskýrslu en hún hefur ekki sjálf unnið til hlítar úr þeim upplýsingum sem fengist hafa fyrir milligöngu Hagstofu Íslands. Og ég hygg að það fari ekki fram hjá neinum að það eru um það vissar dellur, þær hafa komið fram í dagblöðum, hvernig skilja eigi þær upplýsingar.

Í yfirlýsingu ríkisstj. er tekið fram að ríkisstj. telji rétt að opinberir starfsmenn hafi sömu kjör og menn á hinum almenna markaði. Ég tel þetta vera mjög mikilvæga yfirlýsingu og ég tel hana sjálfsagða. Ég tel eðlilegt og aldrei annað fært en að opinberir starfsmenn njóti sömu kjara. Hins vegar kann að vera einhverjum vandkvæðum bundið að bera slíkt saman, eins og komið hefur fram í þeirri vinnu sem nú er verið að inna af hendi. Ég trúi að vísu ekki öðru en að vel athuguðu máli sé hægt að fá óumdeilanlegan samanburð á við skulum segja dagvinnutekjum manna hjá hinu opinbera og utan opinbera geirans. En stundum kann að vera erfiðleikum bundið að ákveða hvað er sambærileg vinna. A.m.k. er það svo að með sumar stéttir, suma hópa háskólamenntaðra manna, er það auðveldara en með aðra. Ég hygg að alveg sérstaklega sé erfitt að meta þau hlunnindi, sem menn hafa kannske fyrst og fremst hjá hinu opinbera, en þó hygg ég í mörgum tilfellum einnig á hinum almenna vinnumarkaði. Mér þykir því ákaflega líklegt að mat á slíku, sérstaklega hlunnindum, hljóti að koma til ákvörðunar Kjaradóms. En málið er bara því miður ekki svo langt komið að unnt væri að afgreiða það á örfáum dögum í viðræðum á milli launanefndar fjmrn. og Bandalags háskólamanna. Ég endurtek hins vegar að mér virðist að þessi yfirlýsing ríkisstj. hljóti að verða tekin sem verulega stefnumarkandi að þessu leyti.

Ég vil einnig vekja athygli á því að í þessum samningum er ekki um opinbera starfsmenn háskólamenntaða eina að ræða. Í raun og veru er allur vinnumarkaðurinn undirlagður. Og vitanlega verður að vinna þetta starf þannig að m.a. þeir sem í lægri launum eru á hinum almenna vinnumarkaði séu sannfærðir um að af heilindum sé að því staðið, samanburðurinn sé réttur og verði ekki vefengdur. Ég hef iðulega í umræðum um þetta mál vísað til Kjararannsóknarnefndar sem starfar, eins og menn vita, á vegum VSÍ og ASÍ. Mér hefur virst að niðurstöður þeirrar nefndar séu ekki almennt vefengdar. Ég hygg að það sé mjög til athugunar hvort ekki á að víkka út það starf og láta það ná til samanburðar á opinberum starfsmönnum og mönnum sem utan ríkisgeirans starfa, eða a.m.k. að koma á fót svipuðum samanburði og þá nefnd, eða hvað menn vilja kalla það, sem annast hann og ekki verður vefengd.

Ég vil að lokum lýsa þeirri eindregnu von minni enn að kennarar komi aftur til starfa. Hv. þm. sem hóf umræðuna spurði: Hvert er framhaldið? Málið fer til Kjaradóms. Í raun og veru eru tímamörk þegar sett Kjaradómi með lögum. Málið á að vera komið þangað 16. þ.m. og er að fara þangað og ég lýsi þeirri von minni að kennarar sætti sig við þá niðurstöðu sem þar fæst. Ríkið verður að gera það og ríkið mun að sjálfsögðu gera það. Það kann vel að fara svo að hún verði ekki þægileg fyrir ríkisvaldið gagnvart öðrum launþegum í landinu, en ríkið mun að sjálfsögðu sætta sig við hana. Aðrar aðgerðir hefur ríkisstj. ekki ákveðið í þessu máli.