14.03.1985
Sameinað þing: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3586 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. lauk næstum máli sínu með því að segja að ríkisstj. væri búin að gera allt sem hún gæti gert í þessum málum. Þetta eru rosaleg átök. Þetta er næstum því eins og í húsnæðismálunum hjá hæstv. félmrh. Ríkisstj. gerir rosaleg átök, er með allt í vinnslu og fólk flykkist, hvort sem það er húsnæðislaust fólk eða kennarar, þúsundum saman út á göturnar. Ríkisstj. er að gera rosalegt átak, hún er að gera allt sem hún getur í málinu. Og nú eru kennararnir búnir að fá það óþvegið.

Ræðan sem hæstv. fjmrh. hélt í haust yfir kennurum var barnaleikur í raun á við þetta. Kennarar eru að svíkja skóla, kennarar eru að svíkja nemendur. Ég veit ekki hvað Þorgeir 1bsen segir núna. Ætli hann skrifi ekki aðra grein í Moggann. Og það verður fróðlegt að lesa hana. Það er af tryggð við skóla og það er af tryggð við nemendur sem kennarar eru ekki löngu staðnir upp úr stólum sínum, fyrir mörgum misserum, jafnvel fyrir mörgum árum. Þessi brigsl um ábyrgðarleysi og agaleysi eru ekki samboðin ráðh. að mínu mati.

Raunar hefðu ókunnugir menn ekki mátt geta upp á því að áðan hafi talað oddvitar ríkisstj. í þessum málum, þ.e. forsrh. sjálfur og menntmrh. Ríkisstj. er með mestallt skólakerfið í rústum og reyndar húsnæðiskerfið líka. Í þessu tilfelli vill hún firra sig allri ábyrgð. Hún ætlar að víkja málinu frá sér til Kjaradóms. Síðan munu ráðh. standa upp og þvo hendur sínar. Þeir skjóta sér undan vandanum og vísa síðan til samvisku kennaranna. Menn gætu spurt: Hver er samviska ríkisstj.? Hver er ábyrgð ríkisstj. varðandi það sama og ríkisstj. kennir nú kennurum? Hver er ábyrgð ríkisstj. á andrúmslofti í skólum og hver er ábyrgð ríkisstj. á því ef virðing kennara skyldi nú þverra? Hver er ábyrgð ríkisstj. og hver er skylda hennar gagnvart nemendum?

Ég held að ríkisstj. geti ekki skotið sér undan þeirri sök sem hún hefur. Það hefur verið miklu meira en nógur tími til þess að vinna að þessu máli. Menn áttu að geta séð hvert stefndi. Það er ekki nóg að hæstv. menntmrh. standi hér upp og segi að það hafi verið mikið unnið í rn. Ástandið sýnir einfaldlega að ekki hefur verið unnið nóg.

Þetta minnir á nemanda sem les eins og vitlaus maður síðustu dagana fyrir próf. Það er ekki nóg ef hann fellur. Ríkisstj. hefur einfaldlega fallið á þessu prófi. Hún hefur ekki sinnt þessu verkefni eins og hún hefði átt að gera. Hún hefur fallið á þessu prófi nákvæmlega eins og hún féll á húsnæðismálaprófinu. Þessi sífelldu föll ríkisstj. fara að verða þjóðinni nokkuð dýrkeypt. Kannske væri best að ríkisstj. félli almennilega næst og við þyrftum ekki að sitja uppi með hana öllu lengur.

Báðir hæstv. ráðh. vísuðu til að skrifuð hefðu verið bréf. Kjaradeilur leysast ekki með því að menn skrifi „eitt lítið letter's bréf“ og lýsi í því almennum óskum, að þeir telji hitt og þetta. Menn borga ekki matinn sinn með tilvísun á bréf ríkisstj. og menn borga ekki húsnæðislánin sín með tilvísun í bréf ríkisstj., en það er nú svo komið að þess gerist næstum þörf.

Það hefur verið miklu meira en nægur tími til að leysa þetta mál og það er óþarfi að skjóta sér bak við það sem ráðh. hafa reynt að skjótast á bak við. Þeir reyna líka að skjóta sér á bak við það að hér sé þörf að fara með löndum vegna þess að taka verði tillit til almenns vinnumarkaðar. Það er pólitískt viðfangsefni þessarar ríkisstj. að skapa þannig andrúmsloft að hækkuðum launum kennara sé þá beinlínis fagnað af þjóðinni frekar en hitt. Það er hið pólitíska verkefni sem nota hefði átt mánuðina til.

Menn geta velt fyrir sér hvers vegna laun kennara eru svo lág sem raun ber vitni. Til þess eru, held ég, margar ástæður. Ein er sú að kennurum hefur fjölgað. Þeim hefur fjölgað vegna þess að þjóðin hefur stækkað. Hérna hafa bæst við stórar kynslóðir. Það hefur líka verið vilji samfélagsins að efla menntakerfið í þessu landi og til þess þarf fleiri kennara. Og það hefur verið vilji Alþingis að útvíkka þetta kerfi og stækka, veita með því betri þjónustu. Kennurum hefur því fjölgað. Ýmsir hafa kvartað undan því. Svo hefur farið þannig fyrir kennurum, þegar þeir eru orðnir fjölmenn stétt og fyrirferðarmikil í launabúskap ríkisstj., og ekki bara þessarar heldur annarra ríkisstj., að laun þeirra rýrna eins og hjá fleiri fjölmennum stéttum.

Þetta er líka dæmisaga um að stétt sem er seinþreytt til vandræða, sem er seinþreytt til mótmæla. verkfalla eða annarra aðgerða, geldur þess í launum. Um þetta höfum við dæmi eins og hjúkrunarfólk og kennara. Ég held líka að atvinnuhættir á Íslandi hafi verið með þeim hætti að skólastarf hafi verið í afar óljósu sambandi við pyngjuna. Það hefur ekki verið okkur ljóst í dagsins önn hvernig menntun skiptir máli fyrir lífsafkomu fólks. Þetta sama sjáum við t.d. á aðbúnaði við rannsóknir í landinu, svo dæmi séu nefnd. Kannske skipta máli í þessu líka atkvæðaveiðar pólitíkusa. Það er líklegra til velgengni að byggja skóla sem eru áþreifanlegir og sjást en að stuðla að því að hæft fólk og gott fólk fáist til þess að vinna í þeim. Menn velta ekki fyrir sér hvað fer fram innan skólanna. Menn hugsa mest um hvernig þeir eru í laginu og hvað þeir eru margir fermetrar. En skólar eru ekki bara hús. Skólar eru starf. Og til þess að framfylgja því starfi þarf gott fólk.

Menn geta líka spurt: Hvers vegna sýður upp úr núna? Ég held að það sjóði upp úr núna vegna þess að hér er komin enn ein afleiðing fauta- og fantaskapar fyrstu aðgerða þessarar ríkisstj. frá sumrinu 1983, þegar bæði lýðréttindi og lífskjör í þessu landi voru fótum troðin. Nú rekur hvern hópinn af öðrum upp á ströndina. Menn missa móðinn. Það gera húsbyggjendur og það gera kennarar. Og menn geta spurt: Hver verður næstur? Kennarar eru langþreyttir og hafa sýnt gegnum árin að þeir eru seinþreyttir til vandræða. Þvert við það sem hæstv. menntmrh. sagði eru þeir tryggir starfinu, tryggir þeim stofnunum sem þeir vinna hjá og tryggir nemendum sínum og foreldrum þeirra. Það er kannske þess vegna sem þeir eru komnir í þá kröm sem þeir þola núna. — En ég held að það gæti orðið okkur dýrt að bíða eftir því að sjá hvaða hópur flosnar upp næst.

Ég hef vikið að því hérna áður, og ætli það verði ekki meðal lokaorða minna, að það er býsna þreytandi orðið að verða á þessu þingi og hinu síðasta vitni að sífelldum tvískinnungi. Annars vegar gapir ríkisstj. um hátækni og — þekkingu, það á að hefja hérna til vegs nýja atvinnuhætti, hátækni, háþekkingu og há- allt mögulegt. Hins vegar hefur beinlínis verið unnið að því að fæla hæft fólk frá störfum í þessum sömu stofnunum og eiga að bera þetta uppi.

Framsóknarflokkurinn hélt landsfund á Akureyri í fyrra og þóttist uppgötva þar framtíðina, lofaði 500 milljónum í þróunarstofnun eða þróunarfélag. Þetta kveikti vissar vonir. Það virtist að á þessum þrem dögum færðist flokkurinn fram um ein 300 ár í hugsunarhætti og stefnu. Hins vegar er óðum að slokkna á þessum vonarneistum. Það hefur sýnt sig að ekkert bólar á öllu þróunarstarfinu og þróunarstofnununum og þróunarfyrirtækjunum og núna brestur sá þáttur þessarar uppbyggingar sem ekki má verða út undan, en það er að búa þannig um hnútana að besta fáanlega fólkið fáist í að vinna að þessum sömu verkefnum.

Raunverulegur vilji til þess að breyta íslenskum atvinnuháttum með tilliti til þessarar þekkingar og þessara breyttu lífshátta felst ekki síst í því að hafa ákveðna stefnu í launamálum þeirra sem eiga að vinna þarna. Það er ekki nóg að stefna að því að setja á laggirnar þróunarfélög, það er ekki nóg að stefna að því að styðja hátækni eða útflutning á þekkingu og það er ekki nóg að byggja skóla. Stjórn sem ætlar að hafa svona stefnu þarf líka að hafa stefnu í launamálum kennara. Hún á ekki að framselja þá stefnu til Kjaradóms. Það er uppgjöf.

Við höfum heyrt talsvert af því núna að hæstv. menntmrh. hyggur gott til glóðarinnar varðandi breytingu á lögum um Háskóla Íslands. Sú breyting á að gera Háskólanum kleift að stofna þróunarmiðstöð sem á að örva samskipti við atvinnulífið og veita þekkingu út í atvinnulífið. Það er m.a.s. ráðstefna um þetta sama efni eftir held ég eina tíu daga, annan laugardag. En til hvers? Hver á að vinna í þessu? Hver á að vinna í háskólanum sem ætlar að reka þessa þróunarstofnun? Hann verður tómur eftir nokkur misseri. Það þarf ákveðna stefnu í launamálum þar líka.

Það var talað um að málið væri núna hjá Kjaradómi, það væri hjá óháðri stofnun, það væri hjá stofnun sem þyrfti starfsfrið og óeðlilegt væri að reyna að hafa óeðlileg áhrif á starfsemi þeirrar stofnunar. Það er alveg rétt, en með því að láta þetta mál fara í Kjaradóm er ríkisstj. að færast undan því að móta stefnu í mennta- og atvinnumálum. Hún er að fela óháðri stofnun úti í bæ að móta stefnu sína í mennta- og atvinnumálum. Það verður aldrei byggt upp neitt kerfi sem vísar veginn inn í framtíðina, eins og Framsfl. var að tala um í fyrra. nema við það vinni gott fólk. Kennarastörf eiga að vera eftirsótt.

Það er reyndar staðreynd að skólamenn eiga víðar í baráttu en hér. T.d. má sjá í erlendum blöðum að breskir kennarar eiga í deilu. Samt virðast þeir vera miklu betur launaðir en þeir íslensku. Við hæstv. fjmrh. uppgötvuðum á kvöldfundi í gær, þegar við vorum að lesa breska blaðið Guardian, að skólastjóri í Bretlandi fengi 20 þús. pund á ári. (Fjmrh.: Nei. nei.) 20 þús. pund, Albert. (Fjmrh.: Það var forstjóri fyrirtækis.) Nei, það var skólastjóri. 20 þús. pund eru 800 þús. kr. íslenskar eða 65 þús. kr. á mánuði. Mér til mikillar armæðu var ekki auglýst eftir fjmrh.

Ég ætla að ljúka orðum mínum með dæmisögu sem ég er oft búinn að segja, en ég veit ekki hve oft þarf að segja hana til þess að ríkisstj. átti sig á því sem um er að ræða.

Það skóla- og rannsóknarkerfi sem stendur fremst í heiminum í dag er það bandaríska. Grunninn að því starfi var byrjað að leggja fyrir áratugum og líklega hefur aldrei verið meira í hann lagt en á árunum þegar John F. Kennedy setti þjóð sinni það takmark að senda mann til tunglsins. Ég held, ég segi það enn einu sinni, að þetta hafi verið slungið pólitískt bragð til þess að fá þing og þjóð til að samþykkja að jafngífurlegum fjármunum og raun bar vitni yrði eytt í skóla og rannsóknir. Það var langtímafjárfesting, 25 ár. Nú er hún að bera árangur. Ég sagði þessa sögu uppi í Hamrahlíðarskóla um daginn og stakk þá upp á því að kannske væri það besta sem við gætum gert í íslenskri pólitík að kaupa miða og senda ríkisstj. til tunglsins. Þá heyrðist rödd úr salnum: „Bara aðra leið!“