14.03.1985
Sameinað þing: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3592 í B-deild Alþingistíðinda. (2927)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það hefur þegar komið fram margt af því sem ég vildi sagt hafa. En ég vil þó lýsa yfir miklum áhyggjum mínum vegna þess ófremdarástands sem nú ríkir í framhaldsskólum landsins. Nokkur fjöldi nemenda hefur þegar flosnað frá námi og fleiri munu gera það ef ekkert verður að gert. Það verða þá líklega fyrst og fremst þeir sem annaðhvort eiga í einhverjum erfiðleikum með nám eða standa illa fjárhagslega. Síðan munu fleiri fylgja á eftir. Ekki er útséð um fjölda þeirra nemenda sem þannig mun hætta námi. Þetta er óviðunandi ástand og við höfum ekki efni á því.

Þegar ég var barn sá ég söngleik hér úti í Iðnó sem kallaður var Ævintýri á gönguför. Í honum voru að mig minnir tveir eða kannske þrír stúdentar og þóttu sjaldgæfir og merkilegir fuglar, stúdentar með stóru essi. Ég vil vekja athygli stjórnvalda á því að þetta er liðin tíð. Það hugvit sem við bindum framtíðarvonir okkar við og hefur verið mikið um rætt hér í þingsölum, eins og úti í þjóðfélaginu, verður að vera á færi allrar þjóðarinnar. Það er sú lágmarks þekkingarþéttni, sem hver þjóð hefur yfir að ráða, sem mun verða afgerandi til að ákveða stöðu hennar í samfélagi þjóðar framtíðarinnar. Og þar duga ekki bara nokkrir menntaðir og skapandi einstaklingar heldur verður ekki síst mikilvæg geta þjóðar til að nýta sér þekkingu. Og til þess þarf menntun. Hún er fjárfesting fyrir framtíðina. Þetta virðast núverandi stjórnvöld ekki skilja, ekki í reynd og nú blasir við námsvetur í molum. En það eru ekki bara nemendur sem flosna upp úr námi. Kennarar hafa líka þegar leitað sér annarrar vinnu þar sem þeir telja sig ekki lengur geta lifað af þeim lágu launum sem þeim bjóðast. Margir kennarar hafa þegar lýst yfir miklum áhyggjum vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur. Eru það ekki síst áhyggjur af velferð skólastarfsins og nemenda. Mig langar í þessu sambandi að lesa upp nokkrar tilvitnanir í orð kennara, því að á þeim brennur eldurinn heitast.

Sá sem á undan mér talaði, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, vitnaði í grein í Morgunblaðinu eftir Ólaf Oddsson. Ég vil enn fremur vitna í þá grein þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Við vildum líklega flest heldur vera kennarar við góðan skóla en allt annað og við höfum hingað til talið það sóma vorn og heiður að kenna ungum Íslendingum.

En því miður eru nú alvarlegar blikur á lofti. Framtíð skólahalds á framhaldsskólastigi er í hættu. Þetta er mál sem einkum snertir ungmenni hér á landi, foreldra þeirra og aðra vandamenn. Það er þjóðarnauðsyn að þessari hættu verði bægt frá. Ráðamenn þjóðarinnar verða að hafa afskipti af þessu máli.“

Og enn segir í grein í Morgunblaðinu 8. mars eftir Sigurlaugu Bjarnadóttur: „Með engum rétti verður skuldinni skellt einhliða á kennara, sem hér eru einfaldlega að berjast fyrir tilverurétti sínum, skólanna og nemenda í senn. Sökin er þyngri hjá ríkinu, fulltrúum fjármálavaldsins sem skortir þekkingu og skilning á eðli og mikilvægi menntunar og skólastarfs.“ Og áfram segir: „Kennararnir, sem „gengu út“, gerðu það ekki að vanhugsuðu máli, í einhverju æðiskasti. Þeir voru margir hikandi fram á síðustu stund en stigu loks skrefið eftir að hafa árangurslaust beðið eftir einhverjum vísbendingum frá viðsemjendum sínum, sem gæfu þeim vonir um kjarabætur, en gerðu þeim kleift að halda áfram kennslustarfi. Og nú er skaðinn skeður. Hætta er á að margir hæfir og reyndir kennarar muni ekki snúa aftur til skólanna en taka upp önnur störf, betur launuð og meira metin. Þeir eru farnir. Spurningin á þessari stundu snýst því ekki aðeins um 1. mars og hvað verður um lok þessa skólaárs, heldur um framhaldið — næsta haust og á ókomnum árum. ef fram fer sem horfir nú. að kennarar verði — eina ferðina enn — sendir bónleiðir til búðar.“

Enn í Morgunblaðinu þriðjudaginn 11. mars skrifar Þorsteinn Gunnarsson í niðurstöðum og lokaorðum sínum: „Fyrir ráðamenn þjóðarinnar er hollt að gera sér grein fyrir að útganga kennara úr skólunum 1. mars s.l. er fyrst og fremst afleiðing af eftirfarandi:

1. Þeirri einsýni ráðamanna að efnahagsvandamál þjóðarinnar stafi nær eingöngu af of háum launum launþega á taxtakaupi.

2. Algjöru vanmati ráðamanna á störfum kennara og gildi menntunar fyrir velferð og hagsæld þjóðarinnar.

3. Algjöru öngþveiti í húsnæðismálum þar sem tugir ef ekki hundruð húsbyggjenda eru gerðir gjaldþrota og þúsundir eru gerðir að vanskilamönnum vegna fáránlegrar vaxtastefnu.

4. Ótrúlegu sinnuleysi ráðamanna um að aðlaga íslenskt atvinnulíf að nútíma atvinnuháttum og þekkingu.“

Enn er grein í Morgunblaðinu 13. mars eftir Jönu Pind þar sem hún lýsir eigin dæmi og segir: „Ef ég tek dæmi af sjálfri mér þá lauk ég stúdentsprófi árið 1974 og BA-prófi árið 1979. Eftir það fór ég í framhaldsnám til Danmerkur og hef nýlokið cand. mag.-prófi í dönsku. Sem menntaskólakennari voru föst mánaðarlaun mín í marsmánuði 22 988 kr. Á námstíma mínum hafði ég framfæri af námslánum og um s.l. áramót skuldaði ég Lánasjóði ísl. námsmanna 859 414 kr.“ Hún endar grein sína með því að segja: „Ungt fólk, sem nú er að hugleiða framtíð sína, hlýtur að eiga rétt á að vita hver menntastefna íslenskra stjórnvalda er.“

Ljóst er af framansögðu að menntamenn, a.m.k. þeir sem starfa hjá ríkinu, eru að verða hin nýja öreigastétt landsins. Á sama tíma heyrast raddir um það að efla beri menntun þjóðarinnar og hugvit til nýsköpunar í atvinnulífinu. Hvernig er unnt að stefna að þessu þegar aðbúnaður þeirra sem ætlað er að vekja áhuga ungs fólks á menntun og gildi hennar er svo slæmur sem raun ber vitni?

Ég vil leyfa mér að vitna í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, en þar leyndist í lokaorðum lítil félagsmálamús á bls. 12. Hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á velferð, jafnræði. öryggi. menntun,“ — ég endurtek: menntun. „félagslegar umbætur og góða heilbrigðisþjónustu. Ríkisstjórnin mun á starfstíma sínum vinna að þessum og öðrum framfaramálum.“

Þarna var létt og lítið loforð, að leggja áherslu á menntun. En það þarf meira til. Ég trúi því bara alls ekki að ríkisstj. sé búin að gera allt sem hún getur í þessum efnum. Því skora ég á stjórnvöld að hyggja nú enn myndarlegar að menntamálum en gert var í byrjun og sýna ábyrga afstöðu gagnvart framtíð íslenskrar þjóðar. Til þess þarf m.a. að launa kennarastarfið í samræmi við mikilvægi þess.