14.03.1985
Sameinað þing: 59. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3611 í B-deild Alþingistíðinda. (2931)

300. mál, þóknun til banka

Svar viðskiptaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Jónsdóttur um þóknun til banka fyrir að hafa milligöngu um erlendar lántökur og breytingar á óhagstæðum erlendum lánum, á þskj. 481, afhent þm. 13. mars. Fyrirspurnin hljóðar svo:

1. Hversu mikla þóknun hafa bankar tekið fyrir að hafa milligöngu um erlendar lántökur s.l. 3 ár?

2. Um hversu miklar upphæðir er að ræða í útgerðinni? Svar óskast sundurliðað á hvert fiskiskip sem tekið hefur erlent lán eða greitt af erlendu láni s.l. 3 ár.

3. Hvaða reglur gilda um slíka þóknun og hver er ábyrgð bankastofnana ef til vanskila kemur?

4. Hefur verið reynt að breyta óhagstæðum erlendum lánum í hagstæðari lán bæði hvað varðar gjaldmiðil og vexti?

Svar:

Viðskiptaráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Seðlabankanum til að svara fyrirspurninni. Svör bankans eru þau sem hér segir:

1. Hérlendur banki reiknar 1% vexti á ári ofan á erlenda vexti endurlánaðs fjár til fiskiskipakaupa.

2. Svör liggja ekki fyrir um fjárhæðir í krónum. Erlend lán vegna fiskiskipa skipta hundruðum en bönkunum er ekki heimilt að birta upplýsingar um viðskipti einstakra viðskiptamanna. Lán þessi eru flestöll með breytilegum vöxtum og gjalddögum tvisvar á ári.

3. Þóknanir þessar eru ákveðnar í gjaldskrá bankanna um erlend viðskipti er Seðlabankinn gefur út. Skal vakin athygli á því að vaxtamunur samkvæmt 1. lið er 0,25% lægri af fiskiskipalánum en almennt gerist. Hefur það verið ákveðið í samráði við stjórn Fiskveiðasjóðs.

Að sjálfsögðu greiðir banki hinum erlenda aðila á gjalddaga hvort sem hérlendur skuldari hefur staðið í skilum eða ekki. Bankaábyrgð er almennt óskilyrt sjálfskuldarábyrgð.

4. Svar við þessum lið er jákvætt. Umsóknir um þetta efni fara fyrir lánanefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins og bankarnir leita þá annaðhvort eftir samþykki skuldareiganda um endurskoðun lánskjara eða leita eftir nýju láni til endurlána með uppsögn hins fyrra láns.