18.03.1985
Efri deild: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3618 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég vildi með örfáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Eins og kom fram hjá hv. frsm. heilbr.- og trn. voru aðilar vinnumarkaðarins alls ekki sammála um þetta mál. Fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands komu á fund nefndarinnar og gerðu þar munnlega —og skriflega reyndar — grein fyrir afstöðu sinni og fyrir þeim breytingum sem þeir hefðu viljað sjá á þessu framlagða frv. Enn fremur bentu þeir á það, sem ég mun víkja að síðar að forsrh. hefði skrifað Alþýðusambandi Íslands bréf þann 6. nóvember s. l. og í því bréfi kæmu reyndar fram önnur loforð og nokkuð aðrar viðmiðanir en í frv.

Í þessu frv. liggur nú fyrir að bætur og iðgjöld hækka út frá allt öðrum forsendum eins og áður sagði og það svarar til miklu meiri launahækkana en þeirrar hækkunar sem varð á launum í almennum kjarasamningum, eins og segir í bréfi hæstv. forsrh. Það er raunar út af fyrir sig umhugsunarefni hvort túlkunin á þessu bréfi er á þann veg að menn geti búist við að túlkun á því samráði sem nú er mjög auglýst að boðið sé, samráð eigi nú að taka sérstaklega tillit til aðila vinnumarkaðarins, hvort það verður á þá lund að menn túlki þar orðalag eftir sínu höfði þegar kemur að framkvæmdinni. Þegar atvinnuleysisbætur eru hækkaðar svona þá fer það svo að mörg störf verða lægra launuð en atvinnuleysisbætur segja til um. Í rauninni er þjóðfélagið þá að meta láglaunastörf minna en iðjuleysi. Þetta gæti skapað allmikla ólgu á vinnumarkaðnum.

Út af því sem hv. formaður heilbr.- og trn. sagði hér áðan um laun í almennri fiskvinnu og að ef þau mundu hækka yrði að sjálfsögðu tekið tillit til þess við viðmiðun atvinnuleysisbóta vil ég taka fram að þetta getur að mínu viti verkað sem hemill á að tekið verði upp t. d. það kerfi að bónus verði reiknaður inn í dagvinnulaun í almennri fiskvinnslu. Þá sé verið að festa fiskvinnslufólk endanlega í sessi sem láglaunahóp í þjóðfélaginu með því að miða aðrar greiðslur við þessa vinnu.

Ég skil það fullkomlega að þetta frv. byggist á loforði sem gefið var. Það þarf að afgreiða þetta mál. Ég mun að sjálfsögðu ekki leggjast gegn því. En ég vildi að þessi sjónarmið kæmu hér fram og sérstaklega það að þeir aðilar vinnumarkaðarins sem til voru kvaddir voru alls ekki sammála um afgreiðslu málsins.