18.03.1985
Efri deild: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3619 í B-deild Alþingistíðinda. (2941)

309. mál, atvinnuleysistryggingar

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er verið að afgreiða var samkomulagsatriði í síðustu kjarasamningum milli verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstj. Síðustu kjarasamningar voru gerðir í fyrra og það er fyrst nú sem þetta frv. kemur til afgreiðslu og er langtum seinna á ferðinni en menn höfðu átt von á. Þar af leiðandi hafa bætur til fólks, sem á við atvinnuleysi að stríða, verið lægri til þessa dags.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni að aðilar vinnumarkaðarins hefðu ekki verið sammála um þetta loforð eða bréf sem ráðh. hefði látið frá sér. Ég veit að svo var. En ég veit líka að Vinnuveitendasamband Íslands hafði á röngu að standa. Það var með viðmiðanir sem voru alveg út í hött og voru ekki skv. þeim vilja sem ríkti í samningagerðinni. Að vísu var þetta ekki beinn samningur heldur yfirlýsing frá forsrh. um að hliðstæðar hækkanir kæmu til og að miðað yrði við fiskvinnslustörfin, en áður höfðu atvinnuleysisbætur farið mjög niður á við krónulega vegna þess að viðmiðunin var ekki nógu skýr. Það var aftur meining Vinnuveitendasambandsins að það mætti gjarnan gerast að atvinnuleysisbætur yrðu stöðugt lægri og lægri.

Ég veit ekki hvort menn gera sér grein fyrir því hverjar atvinnuleysisbætur eru í dag. Hjá einstaklingi sem hefur verið í 100% atvinnu eru bæturnar 2800 kr. á viku. Hafi þessi einstaklingur fyrir tveimur börnum að sjá hefur hann 3066 kr. á viku. Greiðslur á dag eru 597,55 kr. fyrir 100% vinnu og fyrir hvert barn 23,90 kr. Ekki eru þetta háar tölur, a. m. k. getur það varla verið í augum alþm. Mér þótti miður að hlusta á það hér áðan að því var haldið fram að atvinnuleysisbætur gætu orðið hærri en ýmsir taxtar sem samið væri um. Svo mun ekki vera. Og ég óska eftir því að fá að vita hvaða taxtar það eru sem um er að ræða. Mér þótti líka miður að heyra það sett fram á þann hátt að menn gætu haft meira upp úr iðjuleysi en að vinna einhver störf. Ég vil halda því fram að þeir sem atvinnulausir eru séu það ekki vegna þess að þeir liggi í leti heima hjá sér. Það er vegna þess að þeir hafa ekki atvinnu til að ganga að. Finnst mér miður ef notað er orðið „iðjuleysi“ um það fólk sem er atvinnulaust.

Því miður er atvinnuleysi víða og sums staðar er það mjög alvarlegt, t. d. norður á Akureyri og á Suðurnesjum þar sem 320 manns voru í síðustu viku greiddar atvinnuleysisbætur. Ég minni líka á það að Atvinnuleysistryggingasjóður er myndaður af verkafólki sjálfu. Það var samið um það á sínum tíma að mynda þennan sjóð og slegið af kaupkröfum í því skyni. Það kostaði erfiða baráttu og tók langan tíma en það náðist fram og við í verkalýðshreyfingunni teljum að það sé verkafólkið sjálft sem á þessa sjóði. Þetta sama verkafólk er að fá úr sínum sjóðum framlag sem það annars hefði fengið greitt í launum.

Það er samkomulag í nefndinni um að afgreiða þetta frv. Það var gerð á því ein breyting, sem reyndar er vegna mistaka í upphaflegri gerð frv., það voru ekki nægilega skýr ákvæði um það við hvað ætti að miða. Það kom til greina að skilja þetta á þann hátt að miðað yrði við 15 ára taxta, en ég vil upplýsa að verkalýðssamtökin sýndu fram á það að það var ekki hugsunin, heldur að miðað yrði við 7 ára taxta sem er hæsta starfsaldursþrep viðmiðunartaxta.

Ég vænti þess að frv. verði samþykkt hið fyrsta því að fjölmargir bíða eftir hækkuðum greiðslum af því að það hefur dregist úr hömlu að afgreiða þetta frv. Ekki hefur staðið á viðkomandi nefnd eða Alþingi heldur hefur staðið á því að leggja frv. fram eins og lofað var.