18.03.1985
Efri deild: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3623 í B-deild Alþingistíðinda. (2947)

363. mál, lagmetisiðnaður

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Það er víst og rétt að mér er þetta ekkert sérstaklega skapfellt að bera fram frv. til l. um einokun, eins og þetta frv. er í eðli sínu. Ég tek það fram að þótt hér sé lagt til, að beiðni sölusamtakanna, að lögin verði framlengd um fimm ár, þá er mér það ekki fast í hendi. Vil ég biðja um að því verði skilað til hv. nefndar sem þetta frv. fær til meðferðar. Mér er það ekkert fast í hendi og líka vegna þess að ég hafði ekkert athugað þá staðreynd augljósu að það eru þeim mun minni líkur fyrir að ég þurfi að bera þessi ósköp fram á nýjan leik, að lögin gildi í lengri tíma. En ég hafði ekki afhugað þann kost sem því fylgir. En ég, eins og ég segi, hafði þetta áður í huga, að mér er þessi tímalengd ekki föst í hendi. Hins vegar geri ég mér kannske ekki vonir um að ástæður muni breytast innan fimm ára austur þar að þessu leyti. Maður þarf samt að vera viðbúinn því e. t. v. og hafa þess vegna gildistíma laganna þeim mun styttri.

Um skipan stjórnarinnar er það að segja að ég taldi þetta einfaldara í sniðum. Ef menn lesa ákvæði núgildandi laga þá sjá þeir að þar eru jafnvel Samtök grásleppuhrognaframleiðenda aðilar máls, en það er nú þann veg komið fyrir þeim að ég held að þau séu ekki tilnefningarhæf. Ég taldi enda ástæðulaust að sjútvrh. þyrfti að seilast um hurð til lokunnar til að tilnefna einn mann í þessa stjórn. Ég læt það þó í vald hins háa Alþingis að kveða upp úr um þetta atriði svo sem að líkum lætur.

Ég get ekki svarað því með neinni vissu hvort breytt hafi til hins verra vegna nýskipunar eða nýrra haga, nýrrar skipunar á högum Þróunarsjóðsins. Mér er nær að halda að svo hafi ekki orðið.