18.03.1985
Neðri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3630 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

351. mál, lífeyrisréttindi húsmæðra

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir þessu frv. í fjarveru 1. flm. Sighvats Björgvinssonar, en auk okkar eru flm. að þessu frv. Ólafur G. Einarsson, Guðmundur J. Guðmundsson og Guðmundur Einarsson, hv. þm.

Efni frv. er það, að á eftir 5. gr. laganna um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda komi ný grein er orðist svo:

„Nú ákveður félagi í lífeyrissjóði, sem á rétt til töku fæðingarorlofs samkv. lögum nr. 97/1980, að hverfa úr fyrra starfi að hluta eða öllu leyti og til heimilisstarfa vegna barnsburðar, og er þá þeim lífeyrissjóði, sem viðkomandi er félagsmaður í, skylt að veita félagsmanninum heimild til áframhaldandi aðildar að sjóðnum á óbreyttum grundvelli í allt að sjö ár, enda taki félagsmaður þá að sér að greiða iðgjaldahlut atvinnurekanda ásamt sínum eigin. Slíkur félagsmaður nýtur allra sömu réttinda í lífeyrissjóðnum og aðrir félagsmann, þ. á m. lánsréttinda.“

Síðan er um gildistökuákvæði.

Heimavinnandi húsmæður eru eina atvinnustéttin í landinu sem ekki nýtur lífeyrisréttinda og hafa verið ýmsar tillögur á ferli til að reyna að bæta þar úr, þ. á m. ein sem ég leyfði mér að flytja fyrr á þessu þingi. Þær till. hafa þó ekki náð fram að ganga. Hér er bryddað upp á nýrri leið sem ég tel að sé mikilvægt að reyna að fara. Húsmæður eru eina starfsstéttin sem ekki nýtur lífeyrisréttinda og það er óþolandi réttleysi fyrir húsmæður og vanvirða hve samfélagið metur störf þeirra lítils.

Hér er einungis um áfanga að markinu að ræða, eitt skref af mörgum sem taka þarf, en skref sem ekki er mjög flókið og ekki er mjög erfitt að sameinast um að taka og þetta verður hluta af heimavinnandi húsmæðrum til hjálpar, þ. e. þeim sem eru nú á leiðinni inn á heimilin af vinnumarkaðinum tímabundið.

Í langflestum tilvikum hafa konur hafið störf og eru orðnar aðilar að lífeyrissjóðum þegar þær ganga í hjónaband og fara að stofna heimili. Þegar fjölgar í fjölskyldunni og móðirin stendur frammi fyrir því vali hvort hún kýs að starfa áfram utan heimilis og koma barni sínu í fóstur eða hverfa af vinnumarkaðinum til heimilisstarfa að hluta eða öllu leyti, þá eru að sjálfsögðu mörg áhorfsmál og þ. á m. lífeyrismál. Kjósi konan að hverfa af vinnumarkaðinum og til heimilis- og uppeldisstarfa missir hún ekki aðeins atvinnutekjur, sem heimilið má e. t. v. illa án vera, heldur fellur líka niður réttur hennar til lífeyris. Sé um að ræða konu sem ekki hefur t. d. greitt nógu lengi í lífeyrissjóð til að tryggja sér lánsréttindi fellur einnig sá möguleiki hennar niður er hún hverfur til heimilisstarfa og sennilega einnig réttur hennar til lántöku, jafnvel þó hún uppfylli skilyrði sjóðsins um lágmarkstíma varðandi aðild að sjóðnum. Fyrir ungt fólk, sem er að afla sér íbúðarhúsnæðis, er þetta að sjálfsögðu mjög óæskilegt og hlýtur að vega þungt og getur e. t. v. orðið þess valdandi að kona sjái sér ekki fært að annast uppeldisstörf og heimilishald sjálf. Það hygg ég hins vegar að sé æskilegt að kona sé ekki neydd af samfélaginu til að vinna úti. Það á að reyna að skapa konum þau skilyrði að þær geti verið heima ef þær það kjósa og að því ber okkur að sjálfsögðu að reyna að stefna.

Tilgangur þessa frv. er að koma til móts við fólk sem á við þennan vanda að etja. Með því að samþykkja þetta frv. yrðu lögin um skyldutryggingu lífeyrisréttinda þannig að konu væri gert kleift að hverfa úr starfi utan heimilis og til heimilisstarfa vegna barnsburðar, en halda áfram sem félagsmaður í lífeyrissjóði allt að sjö ár. Með orðalaginu „á óbreyttum grundvelli“ er átt við að iðgjöld til sjóðsins verði þá metin hverju sinni á grundvelli þeirra launa sem greidd eru fyrir sambærilegt starf og það sem konan stundaði áður en hún hvarf til heimilisstarfa. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir því að slíkur sjóðfélagi njóti allra sömu réttinda í lífeyrissjóðnum og aðrir sjóðfélagar njóta.

Þá er ósvarað spurningunni um hlut atvinnurekenda í lífeyrissjóðsiðgjaldinu, sem er 6%, eftir að hætt er störfum úti á vinnumarkaðinum. Till. hafa áður verið gerðar um að ríkissjóður taki að sér að greiða slíkan iðgjaldahlut, en þær hafa ekki náð samþykki. Það er farin í frv. millileið. Skv. frvgr. er gert ráð fyrir því að konan eða öllu heldur heimilið taki að sér greiðslu þessa iðgjaldshluta og greiði þannig samtals 10% lífeyrissjóðsiðgjald, en sagan er ekki öll sögð með því.

Í 30. gr. laga nr. 75 frá 1981, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum, eru ákvæði um frádrátt manna frá tekjum utan atvinnurekstrar. Í staflið D í þessari grein segir m. a. um hvað draga megi frá skattskyldum tekjum:

„Iðgjöld af lífeyri, enda sé lífeyristryggingin keypt hjá lífeyrissjóði, vátryggingarfélagi eða stofnun sem starfar eftir reglum sem fjmrh. samþykkir og séu þar m. a. fyrirmæli um vörslu og ávöxtun tryggingarfjárins og eftirlit með starfseminni. Frádráttur þessi skal þó ekki vera hærri en 11% af þeim launum sem almennt eru til viðmiðunar slíkum greiðslum. Hafi afvinnurekandi greitt hluta iðgjaldsins skerðist réttur launþega til frádráttar sem því nemur.

Fjmrh. getur veitt heimild til að víkja frá framangreindu hámarki iðgjaldsfrádráttar þegar sérstaklega stendur á.“

Samkv. orðalagi greinarinnar er ljóst að allt iðgjaldið (10% af viðmiðunarlaununum eða jafnvel meira) er frádráttarbært við skattlagningu með sama hætti og iðgjaldshluti lífeyrissjóðsfélaga þar sem atvinnurekandi greiðir mótframlag. Nú má ætla að heimavinnandi húsmæður hafi úr litlum eigin tekjum að spila og nýtist því skattfrádrátturinn illa. En þá kemur til ákvæði 2. málsgr. 63. gr. laganna þar sem ónýttur frádráttur hennar kemur til góða sem frádráttur hjá maka. Þannig nýttist iðgjaldið til fulls sem skattfrádráttur hjá hjónum undir öllum kringumstæðum. Slíkt jafngildir að sjálfsögðu ekki því að ríkissjóður greiði „atvinnurekendahlut“ lífeyrisiðgjalds á móti húsmóðurinni, en þessi frádráttur tekjuskattslaganna, sem hafa alls ekki verið notuð með þeim hætti sem hér er bent á, opna þó leið til að greiða eitthvað fyrir lífeyristryggingu húsmæðra þótt vissulega sé aðeins um að ræða, eins og ég sagði áðan, áfanga að endanlegu takmarki. Það skal lögð á það áhersla að hér er einungis um að ræða heimild handa húsmæðrum og þær eru sjálfráðar að því hvort þær nýta sér þessa heimild eða ekki.

Það er rétt að taka fram að lokum að þó að í þessu frv. sé talað um húsmæður er ekkert sem kemur í veg fyrir að karlmaður, sem uppfyllir skilyrði laga nr. 97/1980 um rétt til töku fæðingarorlofs, geti horfið til heimilisstarfa í tengslum við barnsfæðingu konu sinnar og haldið lífeyrissjóðsaðild sinni óskertri. Þetta frv. nær að sjálfsögðu jafnt til karla og kvenna að þessu leyti.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að þetta mál verði sent til athugunar í hv. fjh.- og viðskn.