18.03.1985
Neðri deild: 48. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3632 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

329. mál, lausafjárkaup

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 39 frá 19. júní 1922, um lausafjárkaup, og hef framsögu um þetta mál fyrir hönd 1. flm., hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem vikið hefur af þingi, en var hér varamaður þegar málið var lagt fram. Frv. er flutt af Sighvati Björgvinssyni, hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, þeim sem hér stendur, Guðmundi Einarssyni, Ólafi Þ. Þórðarsyni og Kristínu Halldórsdóttur.

Efnislega er hér um að ræða breytingu á 54. gr. laganna. Þar bætist við ný málsgr. er verði 2. málsgr. og orðist svo, með leyfi forseta:

„Nú koma í ljós innan eðlilegs endingartíma söluhlutar gallar sem kaupanda var ekki kunnugt um, en rýra verulega verðgildi hlutarins eða krefjast kostnaðarsamra úrbóta, og rekja má til ásetnings eða vanrækslu seljanda eða ætla má að honum hafi verið kunnugt um en leynt kaupanda, og eiga þá ákvæði 1. málsgr. um takmörkun á ábyrgð seljanda ekki við. Kaupandi skal þó innan árs frá því að slíkur galli kom sannanlega í ljós gera seljanda viðvart og gefa honum kost á að bæta úr eða krefja hann skaðabóta.“

Tilefni þessa frumvarpsflutnings er dómur Hæstaréttar frá 27. júní 1983. Sá dómur byggðist á úreltum ákvæðum kaupalaga og sætir furðu leikara og lærðra.

Málsatvik voru þau að árið 1963 hóf maður nokkur byggingu íbúðarhúss í Garðabæ og keypti m. a. til húsbyggingarinnar steinsteypu sem uppfylla átti tiltekin skilyrði staðla sem fram voru tekin m. a. á afgreiðslu- og sölunótum. Nokkrum árum síðar fór múrhúðin að detta af húsinu og ógerningur var að gera við hana. Steinsteypa í hluta hússins reyndist vera orðin morkin og ónýt á aðeins örfáum árum. Eftir ítarlegar rannsóknir, m. a. vegna þess að húseigandinn hafði allan tímann geymt afgreiðslu- og sölunótur, reyndist unnt að sanna að steypan hefði verið gölluð. Íblöndunarefnin, sem húsbyggjandinn hafði greitt fyrir höfðu ekki verið sett í steypuna með þeim afleiðingum að hún ónýttist á skömmum tíma.

Í undirrétti voru húseigandanum dæmdar skaðabætur, en í Hæstarétti var þeim dómi hrundið og húseiganda engar bætur dæmdar með vísan til þess að samkvæmt ákvæðum kaupalaga hefði húseigandi átt að bera gallann fyrir sig innan árs frá því salan á steypunni fór fram. Sá frestur var löngu liðinn áður en mögulegt var að gallar gætu komið í ljós eins og síðar varð. Því virðast ákvæði kaupalaga heimila seljendum varanlegrar fjárfestingarvöru eins og steinsteypu að selja stórgallaða vöru svo fremi að kaupandi verði þess ekki var á fyrsta ári eftir að sala fór fram. Nægir þá ekki kaupanda til varnar að geta sannað að hann hafi verið svikinn um það efni og þau vörugæði sem hann greiddi fullt verð fyrir. Svo virðist sem kaupendur steinsteypu og annars áþekks varnings þurfi að eiga aðgang að efnarannsóknarstofu til þess að tryggja hag sinn. Þessi niðurstaða Hæstaréttar stangast á við almenna réttlætiskennd.

Brýn nauðsyn er til að taka kaupalögin í heild til endurskoðunar og gera á þeim verulegar breytingar til samræmis við breytta tíma og breytta viðskiptahætti, eins og tillaga var gerð um á seinasta þingi, á þskj. 661, en flm. þeirrar þáltill. voru hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson og sá sem hér stendur. Allt of miklir hagsmunir eru hér í húfi til þess að jafneinföld og augljós breyting og hér er gerð tillaga um sé dregin eða látin bíða heildarendurskoðunar laganna sem vafalaust mun taka verulegan tíma.