19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3635 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

278. mál, tannsmíðanám

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hér er um mál að ræða, eins og fyrirspyrjandi sagði, sem fyrir löngu hafa komið fram hugmyndir um að breyta þyrfti.

Árið 1972 var tannsmíði felld undir lög um iðnfræðslu og starfið gert að löggiltri iðngrein og hefur því lotið núgildandi iðnaðarlögum sem eru frá 1978. Í framhaldi af þeirri ákvörðun að löggilda tannsmíðina sem iðngrein voru gefin úf iðnbréf, sveinsbréf og meistarabréf, til manna sem rétt áttu á þeim. Þá voru teknar upp viðræður við Háskóla Íslands um að tannlæknadeild tæki að sér kennslu tannsmíðanema. Viðræður þessar hafa leitt til þess að nú eru tilbúin drög að samningi milli menntmrn. og Háskólans um að hann taki að sér að reka tannsmíðaskóla, þ. e. að hann sjái um að kenna tannsmíðanemum bóklegar og verklegar greinar sem falla undir skólanámið.

Á s. l. ári var sótt um fjárveitingu til Alþingis til þess að kennsla gæti hafist á þessu ári, en synjað var um þá fjárveitingu og harmar rn. það. Háskólinn hefur því ekki talið sig geta tekið nemana til kennslu núna. Hins vegar eru tæki til kennslunnar komin og liggja ónotuð í tannlæknadeild.

Núna eru ellefu nemar á námssamningi og átta þeirra eru svo langt komnir með námssamningstíma sinn að þeir verða að fá kennslu á þessu ári. Einn þeirra er raunar kominn með verknámstímann. Rn. hefur farið fram á það við Iðnskólann í Reykjavík að hann taki að sér að leysa vanda þessara átta nema í samstarfi við tannlæknadeild Háskóla Íslands og væntir rn. þess að það verði unnt.

Rn. er þeirrar skoðunar að kennsla verði best komin í tengslum við tannlæknadeild Háskólans. Þar er, eins og menn vita, komið allgott húsnæði og rúmgott og ætti því að vera rými til þess að veita þessa kennslu og tækjabúnaðurinn er kominn. Það er þó eins og oftar að það vantar kannske dálítið meira af afli þeirra hluta sem gera skal. Við vinnum að því að það verði leyst á hausti komanda eða fyrr á árinu, a. m. k. svo að unnt verði að leysa mál þessara átta nema, sem ég nefndi áðan, að sinni og síðan verði haldið áfram á þeirri braut.

Ég held að með því að málin fari í þennan farveg ætti að vera mögulegt að veita tannsmiðum góða menntun og þar með að fullnægja því skilyrði sem tannlækningarnar hljóta að gera nú á dögum um að sem allra best þjónusta verði veitt.