19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

345. mál, greiðslukvittanir lánastofnana

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt eru gjaldfallnar verðbætur frádráttarbærar til skatts svo og vextir í sambandi við skattaframtöl skv. nánari ákvæðum í skattalögum. Hins vegar er það svo, að af þeim kvittunum, sem menn fá vegna greiðslu afborgana vaxta og verðbóta af þeim lánum sem þeir taka, þó að reitirnir séu margir og sundurliðunin margvísleg, þá er yfirleitt ekki nokkur vegur að ráða það beint hver sú upphæð sé sem í rauninni sé frádráttarbær til skatts. Þetta veldur áreiðanlega mörgum í þjóðfélaginu miklum baga og verður að teljast eðlilegt og sanngjarnt að almenningur í landinu eigi aðgang að upplýsingum sem þessum, að greiðslukvittanir frá lánastofnunum séu þannig úr garði gerðar að menn geti séð það í hendi sér hver sé sú upphæð sem er frádráttarbær til skatts í raun og sannleika að því er varðar verðbætur og vexti af lánum. Af þessum sökum og vegna þess að menn verða þess oft varir að menn eiga í erfiðleikum af þessum sökum er þessi fsp. fram borin af okkur Sighvati Björgvinssyni, en hún er þannig:

„Er viðskrh. reiðubúinn til þess að setja reglur um gerð greiðslukvittana frá bönkum, lífeyrissjóðum og öðrum lánastofnunum sem tryggi að ávallt séu gefnar við greiðslu sundurliðaðar upplýsingar um afborgun láns annars vegar og upphæð vaxta, verðbóta og kostnaðar hins vegar svo að greiðendur fái fullnægjandi upplýsingar um þær fjárhæðir sem þeim er heimilt að færa til frádráttar á skattaframtali skv. gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt?“

Eins og af þessum orðum má ráða er það síðari hluti upptalningarinnar, þ. e. vextir, verðbætur og kostnaður, sem er frádráttarbær á skattframtali skv. gildandi lögum. Spurningin varðar hvort viðskrh. vilji beita sér fyrir þeim úrbótum sem greinilega eru nauðsynlegar í þessu efni til þess að almenningur á Íslandi geti áttað sig á rétti sínum í þessum efnum.