19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3643 í B-deild Alþingistíðinda. (2992)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa hér þörfu og brýnu máli. Það er ljóst af svörum hæstv. ráðh. að hægt miðar í þessum efnum. Okkur ætti í raun og veru að vera það ljóst, m. a. okkur sem vinnum hér í þessu húsi, eins og hv. fyrirspyrjandi kom réttilega inn á.

Erfiðleikar hreyfihamlaðra við að njóta menntunar, tómstundaiðkunar, daglegra starfa og eðlilegs lífs felast ekki hvað síst í aðgengi þeirra að opinberum byggingum, svo og öðrum þeim byggingum sem hreyfihamlaðir sækja í auknum mæli, m. a. til tómstundaiðkunar og skemmtana. Blessunarlega hafa þar sem í öðru orðið á breytingar til hins betra. Þátttaka hreyfihamlaðra í hverju einu hefur orðið æ meiri og til þess þarf að taka tillit og auðvelda þeim aðgengi enn frekar en orðið er. Íþróttaiðkun þeirra nefni ég alveg sérstaklega sem dæmi um það hvað best og gleðilegast hefur verið að gerast í málefnum þessa hóps.

Ég legg áherslu á það með hv. fyrirspyrjanda í síðari lið fsp. að fyllsta ástæða er til að tryggja fjármagn í þessu skyni svo ekki þurfi sífellt að bera því við að fjár sé vant til nauðsynlegustu úrbóta og það fjármagn sé þá, eins og lög kveða á um, skýrt afmarkaður tekjustofn sem eingöngu er varið í þessu skyni.

En spurningin er ekki síður í mínum huga um vilja og áhuga viðkomandi aðila til að auðvelda og tryggja hreyfihömluðum aðgengi að stofnunum sínum og byggingum. Ég óttast það sem sé að þeir fjármunir sem viðkomandi stofnanir fá til ráðstöfunar til ýmissa framkvæmda hjá sér séu máske í flest annað frekar notaðir en að sinna þessu þarfa verkefni fyrir þennan tiltekna hóp sem hér á vissulega sinn ríkulega rétt. Ég skal reyna að víkja síðar að þessu ef till. hv. fyrirspyrjanda um tiltekið málefni kemur hér til umr. Ég vil aðeins ítreka það að þó að eflaust skorti oft fjármagn þá mun hér oft — og oftar en ekki — gilda hið alkunna, að vilji er allt sem þarf.