19.03.1985
Sameinað þing: 60. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3646 í B-deild Alþingistíðinda. (2996)

352. mál, breytingar á húsnæði fyrir hreyfihamlaða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Vegna þessara orða vil ég aðeins segja þetta: Ég hef að sjálfsögðu talað við nm., herra formaður nefndarinnar og hv. þm., og mér er fullljóst að í nefndinni er enginn áhugi á þessu máli. Þetta er svo sjálfsagt mál að það ætti fyrir löngu að vera komið úr nefndinni. Það er ekkert lögmál að hér sé sullað út úr nefndum á síðustu dögum þings einhverjum málum til að friða einhverja þm. Mál á að taka fyrir, eins og formaðurinn sagði, í réttri röð. Þetta mál sem ég gerði hér að umræðuefni var eitt af fyrstu framlögðum málum þingsins. Og það var ekki eftir neinu að bíða. Hvort umsagnir eru neikvæðar frá Vinnuveitendasambandinu og öðrum slíkum geri ég ekkert með. Ef þm. vilja hafa áhrif á mál eins og þetta þá eiga þeir að taka sína ákvörðun alveg burtséð frá hvað Vinnuveitendasambandinu sýnist og finnst. (Gripið fram í: Er ekki annað mál á dagskrá?) Þetta er nátengt, hr. þm.