10.10.1984
Sameinað þing: 1. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Ingólfur Jónsson

Aldursforseti (Stefán Valgeirsson):

Ég býð hv. alþingismenn og starfsfólk Alþingis velkomið til starfa. Þá verður minnst látins fyrrv. alþingismanns.

Ingólfur Jónsson, fyrrv. alþm. og ráðh., andaðist í sjúkrahúsi hér í Reykjavík 18. júlí s.l. Ingólfur Jónsson var fæddur 15. maí 1909 í Bjóluhjáleigu í Djúpárhreppi í Rangárvallasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Jón bóndi þar, áður bóndi í Þjóðólfshaga og síðan á Hrafntóftum og Anna Guðmundsdóttir frá Miðhúsum í Hvolhreppi. Ingólfur ólst upp við sveitastörf, nam tvo vetur, 1927 og 1929, í Hvítárbakkaskóla, fór næsta haust í nokkurra mánaða dvöl til Noregs að kynna sér landbúnaðarstörf þar, sótti síðan sjó tvær vertíðir í Vestmannaeyjum, var barnakennari tvo vetur og vann um tíma í kaupfélaginu á Rauðalæk og Kaupfélagi Eyfirðinga á Akureyri.

Snemma árs 1935 stofnuðu bændur í Rangárvallasýslu kaupfélagið Þór með aðsetri á Heilu og réðu Ingólf, þá hálfþrítugan, kaupfélagsstjóra þar. Því starfi gegndi hann síðan til 1959 að undanskildum þremur árum er hann var ráðh. Eftir það átti hann sæti í stjórn kaupfélagsins og var stjórnarformaður frá 1974. Árið 1942 var hann kjörinn til setu á Alþingi, varð landskjörinn um sumarið en frá hausti 1942 til 1959 þm. Rangæinga og loks þm. Suðurlandskjördæmis til 1978. Alls sat hann á 40 þingum. Hann átti sæti í ríkisstjórn 1953–1956, var viðskrh. og iðnmrh. og fór einnig með heilbrigðis- og flugmál. Í ríkisstjórn var hann öðru sinni á árunum 1959–1971 og var þá landbrh. og samgrh. og fór einnig með orkumál til ársloka 1969.

Ingólfur Jónsson var skipaður í kjötverðlagsnefnd 1942 og var formaður hennar. Sama ár var hann kosinn í raforkumálanefnd. Hann var í stjórn landshafnar Keflavíkur/Njarðvíkur 1946–1949, í stjórn Áburðarverksmiðjunnar 1952–1957, í viðræðunefnd um orkufrekan iðnað 1971–1978, í stjórnarskrárnefnd 1972–1976, var kosinn 1973 í neyðarráðstafananefnd vegna eldgossins í Vestmannaeyjum og var stjórnarformaður Framkvæmdastofnunar ríkisins 1975–1978.

Af þeim störfum Ingólfs Jónssonar, sem hér hafa verið talin, má ráða hvaða þætti landsmála og atvinnumála bar hæst í ævistarfi hans. Hann var löngum kenndur við Hellu þar sem hann settist að árið 1935. Þar stýrði hann kaupfélaginu Þór árum saman með árvekni og atorku svo að umsvif þess jukust jafnt og þétt og umhverfis það reis með árunum fjölmennt kauptún.

Á Alþingi og í ríkisstjórn voru honum jafnan ofarlega í hug málefni íslensks landbúnaðar. Á því sviði beitti hann sér fyrir og kom í framkvæmd ýmsum nýmælum sem að vísu voru umdeild en höfðu varanleg áhrif. Á þeim rúma áratug sem hann var samgrh. var hafin að verulegu marki lagning bundins slitlags á vegi utan þéttbýlis og naut þar forgöngu hans og harðfylgis. Í þingmennsku var hann ótrauður baráttumaður í virkjunarmálum og hafði um þau efni forustu í ráðherradómi. Efling íslensks iðnaðar var honum í mun og síðustu æviárin var hann í forustusveit félags sem hafði á stefnuskrá sinni nýtingu og úrvinnslu sunnlenskra jarðefna.

Ingólfur Jónsson var alla tíð viðurkenndur atorkumaður. Hann skorti hvorki kappsemi né viljaþrek til að koma fram málum. Í stjórnmálum greinir menn tíðum á um leiðir að settu marki og Ingólfur Jónsson fór ekki varhluta af hörðum deilum á þeim vettvangi, en hann naut mikils trausts innan þess stjórnmálaflokks sem hann skipaði sér í og vann fyrir áratugum saman. Um sjötugsaldur dró hann sig í nokkurt hlé og varði síðustu æviárunum til þess að koma á prent frásögn af umhverfi sínu og ævistarfi.

Ég vil biðja þingheim að minnast Ingólfs Jónssonar með því að rísa úr sætum. — [Þm. risu úr sætum.]