19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3661 í B-deild Alþingistíðinda. (3010)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég tel rétt þegar við fyrri hluta umr. um þessa þáltill. um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum að segja nokkur orð.

Hugmyndin um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd er gömul og raunar nokkuð eldri en 1. flm. nefndi. Ég hygg að það hafi verið á 6. áratugnum sem Kekkonen Finnlandsforseti vakti máls á þessari hugmynd og síðan hefur hún verið við og við á dagskrá og til umr. á Norðurlöndum sér í lagi. Ég ætla mér nú ekki að rekja sögu þessara umr. en aðeins að velta upp þeirri spurningu hvort Norðurlöndin eigi að þessu leyti samleið nú og þá með hvaða skilyrðum. Það er ástæða til þess að spyrja hvort Norðurlöndin eigi að þessu leyti samleið nú vegna þess að Norðurlöndin hafa ekki átt samleið í öryggismálum. Það var t. d. kannað áður en Atlantshafsbandalagið var stofnað hvort skilyrði væru fyrir norrænu varnarbandalagi en svo reyndist ekki vera.

Svíar töldu hlutleysið hafa reynst sér vel og álitu sig hafa mátt til að verja það. Finnar völdu og hlutleysið, voru auk þess í kjölfar friðarsamninga við Sovétríkin bundnir ákveðnum skuldbindingum skv. sérstökum vináttusamningi við Sovétríkin. Íslendingar, Norðmenn og Danir höfðu aftur á móti þá reynslu að hlutleysi þeirra var í engu virt og í því engin vörn í annarri heimsstyrjöldinni.

Þannig fóru Norðurlöndin mismunandi leiðir til að tryggja öryggi sitt og sjálfstæði eftir aðra heimsstyrjöld. Hingað til hefur það gefist þeim öllum vel og jafnvel svo að jafnvægi hefur skapast sem kallað hefur verið hið norræna jafnvægi, „den nordiske balance,“ sem áhrifamenn á öllum Norðurlöndum hafa talið rétt að varðveita og jafnframt varað við að breytingar á stefnu eins Norðurlandanna í öryggismálum gæti haft áhrif til hins verra fyrir hin Norðurlöndin. Það er því ekki alveg að ástæðulausu að þeirri spurningu er varpað fram hvort Norðurlöndin eigi nú að þessu leyti, hvað snertir yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd, samleið og þá með hvaða skilyrðum.

Við gerum okkur öll grein fyrir ógn kjarnavopna og nauðsyn þess að koma í veg fyrir að þeim verði beitt, að ráðstafanir verði gerðar til að fækka og helst útrýma þeim. En kjarnavopn eru til staðar. Við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Vissulega kann svo að vera að ógn kjarnavopna hafi komið í veg fyrir átök og stríð og þannig átt þátt í að vernda friðinn. En við getum verið sammála um að friðinn verðum við að treysta til lengdar með öðrum og betri hætti en ógnarjafnvægi. Er yfirlýsing um kjarnavopnalaus Norðurlönd þáttur í því?

Ég vil taka það skýrt fram, að ávallt þegar rætt hefur verið um hugmyndina „kjarnavopnalaus Norðurlönd“ hef ég talið eðlilegt og sjálfsagt að við Íslendingar tækjum þátt í umr. og athugunum til þess að gera okkur grein fyrir hvað þjónaði öryggishagsmunum okkar sjálfra og friðargæslu í heiminum almennt best. En umræðan um kjarnavopnalaus Norðurlönd má ekki verða til þess að gefa í skyn að kjarnavopn séu nú á Norðurlöndum. Menn skulu hafa hugfast að Norðurlöndin eru nú kjarnavopnalaus. Veruleikinn er mun meira virði en allar yfirlýsingar. Hvorki Ísland né önnur Norðurlönd hafa eigin kjarnavopn eða geyma slík vopn innan síns svæðis og öll Norðurlöndin eru aðilar að hinum alþjóðlega samningi gegn dreifingu kjarnavopna og hafa undirgengist skv. þeim samningi að eiga ekki þátt í dreifingu kjarnavopna. Þessi staðreynd er mikilvægur þáttur í því norræna jafnvægi í öryggismálum sem ríkt hefur allt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins.

Ég fæ ekki séð á þessu stigi að sérstök yfirlýsing, einhliða yfirlýsing, um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum varðandi svæði sem þegar er kjarnavopnalaust efli öryggi Íslands eða annarra Norðurlanda eða auki friðargæslu í heiminum nema meira komi til. Ástæða væri frekar til að beina athyglinni að umr. um útrýmingu kjarnavopna þar sem kjarnavopn eru nú til staðar en dreifa ekki þeirri athygli með vangaveltum um svæði sem eru kjarnavopnalaus.

En þótt Norðurlöndin séu kjarnavopnalaus er ekki þar með sagt að kjarnavopn ógni þeim ekki. Þá á ég t. d. við víghreiðrin á Kola-skaga og við Eystrasalt. Kjarnavopnakafbáturinn, sem rak á fjörur Svía um árið, minnti okkur óþyrmilega á nálægð þessara ógnarvopna. Skilyrði þess að ný yfirlýsing um kjarnavopnalaus Norðurlönd hafi eitthvert gildi er að slík vopn, sem beina má til Norðurlanda, séu fjarlægð.

Sovétmenn hafa nokkrum sinnum gefið í skyn að hugsanlega megi ræða um tilslakanir af þeirra hálfu varðandi kjarnavopnalaus svæði en ítrekaðar beiðnir norrænna ráðamanna um að Sovétmenn geri nánari grein fyrir þessum hugmyndum hafa engan árangur borið. Á auka allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1978 um afvopnun var m. a. fjallað um hugmyndina að kjarnavopnalausum svæðum. Í álitsgerð um það efni voru m. a. taldar forsendur að viðkomandi ríki væru sammála um slík samningsbundin svæði, hvernig grundvöllur væri að þeim lagður og hvernig tryggja mætti með raunhæfu eftirliti að svæðin héldust kjarnavopnalaus.

Það sem ég nú hef rakið leiðir hugann að því að yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði hefur ekkert gildi nema sem þáttur í samningum tveggja helstu kjarnavopnaveldanna sem bæru ábyrgðina að slíkt samkomulag yrði virt. Við hljótum einnig að gera okkur grein fyrir því að við erum í varnarbandalagi og viljum njóta góðs af því. Því er eðlilegt og sjálfsagt að hafa samráð við bandamenn okkar. Það er hornsteinn í stefnu vestrænna þjóða og öryggisviðbúnaði að líta á bandalagssvæðið sem eina heild, eitt og sama varnarsvæðið, sbr. 5. gr. Atlantshafssáttmálans sem segir að árás á eitt ríkið sé árás á þau öll.

Allar umr. um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum hljóta því að fara fram í samráði við samherja okkar í Atlantshafsbandalaginu. Okkur ber innan og utan Atlantshafsbandalagsins að stuðla að öllu því sem kemur í veg fyrir beitingu kjarnavopna. Yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði kann því miður að hafa minni áhrif en vonir standa til og þá á ég við einhliða yfirlýsingu. Ég nefni tvennt: Fyrst það að lítill ávinningur er í því að ákveðin svæði eru lýst kjarnavopnalaus ef kjarnavopnum fækkar ekki en eru ýmist flutt þéttar saman eða á haf út. Við Íslendingar viljum ekki kjarnavopn á eða í höfum úti þar sem slys á friðartímum getur eytt auðlindum okkar og lifibrauði af fiskimiðum hvað þá heldur ef hugsað er til þess sem ætti sér stað í styrjöld.

Annað er það að kjarnavopnum er vandalaust að skjóta langa vegalengd og yfirlýsing um kjarnavopnalaus svæði tryggir ekki að þau svæði verði ekki fyrir kjarnavopnaárás ef til átaka kemur. Allt frá því á árinu 1981 og lengur hafa utanrrh. Norðurlandanna haft með sér reglubundin samráð um hugmyndina um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum, nú síðast á fundi utanrrh. í Reykjavík í september s. l.

Í umr. í norska stórþinginu í maí á s. l. ári kom fram að bæði stjórnarflokkarnir sem og Verkamannaflokkurinn í stjórnarandstöðu telja að samningsbundið einangrað kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum sé óraunhæft.

Í nýrri skýrslu um dönsk öryggismál á níunda áratugnum, svo kallaðri Dyvik-skýrslu, segir að ráðunautar dönsku ríkisstj. í afvopnunarmálum hafi eftir heimsóknir til höfuðborga Norðurlandanna komist að þeirri niðurstöðu að Norðurlöndin séu nú ósammála í afstöðunni til hugmyndarinnar um kjarnavopnalaust svæði á Norðurlöndum. Sagt er þar að þau líti ekki öll á það sem nauðsyn að samningur um slíkt svæði verði hluti af umfangsmeiri aðgerðum á sviði afvopnunar í Evrópu.

Hér mun átt við Finnland og Svíþjóð sem telja að samningsbundið einangrað svæði á Norðurlöndum án kjarnavopna mundi verða aðgerð til að skapa traust og að önnur ríki mundu líkja eftir. En getum við byggt öryggi okkar á slíkri trú? Þær forsendur, sem auka allsherjarþingið kvað nauðsynlegar fyrir kjarnavopnalausum svæðum, vantar nú á Norðurlöndum.

Í skýrslu norska utanrrh. til stórþingsins í desember s. l. sagði hann m. a.: „Allir samningar varðandi takmarkanir á kjarnavopnum verða fyrst og fremst að vera á vegum stærstu kjarnaveldanna tveggja. Ekkert samkomulag um þess háttar vopn í okkar heimshluta er mögulegt án samþykkis Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Noregur er kjarnavopnalaust ríki. Það er hins vegar engin ástæða fyrir okkur að ganga til samninga varðandi það atriði nema þá sem hluta af umfangsmiklu afvopnunarsamkomulagi milli austurs og vesturs. Slíkt samkomulag verður að hafa að geyma eftirgjöf Sovétríkjanna sem hægt er að sannreyna, orð ein sér nægja ekki.“

Það er rétt að nefna það þegar þessi mál ber á góma að ýmsir herfræðingar og jafnvel áhrifamenn í stjórnmálum hafa varpað fram þeim hugmyndum að mögulegt væri að heyja takmarkað kjarnavopnastríð. Slíkum hugleiðingum hefur verið mætt með skelfingu og bent á að áhrif fyrstu kjarnavopnaárásar muni leiða fimbulvetur yfir allt mannkyn. Er ekki skiljanleg óskhyggja um vernd íbúa kjarnavopnalausra svæða álíka óraunsæ og ímyndunin um takmarkað kjarnorkuvopnastríð. Ef kjarnavopnum verður beitt er öll heimsbyggðin ofurseld þeim án tillits til landamæra. Ef til slíkrar heimsstyrjaldar kemur verða orð og eiðar sennilega lítils virði.

Meginmarkmiðið hlýtur því að vera það, sem vakir fyrir þjóðum Atlantshafsbandalagsins, að koma í veg fyrir að stríð brjótist út, hvort heldur er stríð hefðbundinna vopna hvað þá heldur kjarnorkuvopnastríð. Samningur um kjarnavopnalaus svæði á Norðurlöndum yrði að vera þáttur í þeirri viðleitni, hluti umfangsmikilla gagnkvæmra aðgerða austurs og vesturs á afvopnunarsviðinu í Evrópu sem miðuðu að kjarnorkuvopnalausri álfu. Norrænt kjarnavopnalaust svæði yrði að vera liður í afvopnunarviðræðum stórveldanna, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, sem bæru ábyrgð á að samkomulag um svæðið yrði virt. Í því fælist jafnframt raunhæft og óhindrað eftirlit með því að samkomulag verði haldið í framkvæmd.

Af því hér var vitnað til þess fyrr í umr. að yfirlýsingar mínar eða skoðanir að þessu leyti væru frábrugðnar skoðunum forvera míns þykir mér vel fara á því að vitna til ummæla Ólafs heitins Jóhannessonar þegar hann sagði í skýrslu sinni um utanríkismál til Alþingis 1982 eftirfarandi:

„Formlegur milliríkjasamningur varðandi þau málefni, kjarnavopnalaus Norðurlönd, hlýtur því eingöngu að koma til greina í víðara samhengi þar sem fjallað er um raunverulega tryggingu þjóða Evrópu fyrir auknu öryggi. “

Herra forseti. Ég vildi láta þessi orð falla þegar við fyrri hluta umr. um þessa þáltill. Ég hef áður lýst því yfir að ég teldi það svo skýra stefnumótun af hálfu íslenskra stjórnvalda, margra ríkisstj. án tillits til þeirra flokka sem að þeim hafa staðið, að á Íslandi væru ekki staðsett kjarnorkuvopn að ég hef talið óþarft að ítreka þá yfirlýsingu. Það er aðeins þörf á því að gefa yfirlýsingu í þessum efnum ef við ætluðum að breyta um stefnu að þessu leyti sem enginn heldur fram. Í því felst sú skoðun sem ég hef hér flutt og raunar endranær þegar þessi mál hafa borið á góma.

Ég vil svo mæla með því eins og flm.þáltill. þessari verði vísað til utanrmn. og ég vonast til þess að utanrmn. geti verið sammála um að kanna þessi mál, þ. á m. aðild okkar að kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum og með hvaða skilyrðum sú aðild yrði bundin, eins og aðrar leiðir hvað snertir þátt okkar Íslendinga til þess að stuðla að afvopnun í heiminum og friðvænlegri horfum.