19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3665 í B-deild Alþingistíðinda. (3011)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú till. sem hér er til umr. um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum er vissulega afar mikilvæg, málið sem þar er um fjallað, en ég tek undir það, sem hér hefur komið fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að ákveðnir þættir sem snerta þessa till., orðalag hennar og túlkun eins og hún kom fram hjá 1. flm., hv. þm. Páli Péturssyni, þarfnast ítarlegri skýringa. Ég vænti þess að þær komi fram af hálfu 1. flm. áður en þessari umr. lýkur, hvort einhver tvímæli eru um að markmiðið með þessari till. sé að lýsa yfir þeirri stefnu ákveðið og afdráttarlaust að á Íslandi skuli ekki staðsetja kjarnorkuvopn, hvorki á friðar- né ófriðartímum.

Við tókum eftir því þegar við hlýddum á hæstv. utanrrh. að hann vék sér undan því að svara því sem til hans var beint í sambandi við þessi efni, taka af tvímælin varðandi yfirlýsingar íslenskra stjórnvalda í þessum efnum, misvísandi yfirlýsingar sem fram hafa komið um þessi atriði, m. a. í hans máli og hins vegar hjá hæstv. forsrh. í sambandi við staðsetningu kjarnorkuvopna á íslenskri grund eða á íslensku yfirráðasvæði. Það hlýtur að vera meginmarkmið í sambandi við umr. um þessi efni hér á hv. Alþingi að fá úr því skorið hver sé vilji þingsins til slíkrar staðsetningar kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði. Markmiðið með þessum tillöguflutningi er það væntanlega, þar sem svo margir hv. alþm. úr öllum stjórnmálaflokkum hafa sameinast um tillögugerð, að fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hver sé vilji þingsins í þessum efnum. Það atriði sem ber á milli, að ég hygg, tillögumanna og hæstv. utanrrh., eins og hann hefur flutt sitt mál í þessum efnum á undanförnum mánuðum, er m. a. spurningin um það hvort opinn skuli standa sá möguleiki að hingað verði flutt kjarnorkuvopn á óvissutímum, neyðartímum eða ófriðartímum, hvernig svo sem menn vilja skilgreina slíkar aðstæður. Það er úr þessum vafa sem Alþingi þarf að skera með þál.

Ég skildi hv. 6. þm. Reykv., Ellert B. Schram, sem er einn af flm. þessarar till., á þann hátt áðan að hann væri þeirrar skoðunar að taka þyrfti af tvímæli um þetta efni og hann vildi leggja þá merkingu í þessa till. að hún fæli í sér að hér á Íslandi skuli ótvírætt ekki staðsetja kjarnorkuvopn, ekki heldur á óvissu- eða ófriðartímum skv. mati Atlantshafsbandalagsins eða annarra aðila.

Ég þarf ekki að fara um þetta efni fleiri orðum í rauninni. Menn eru minnugir þeirra upplýsinga sem fram hafa komið á síðustu mánuðum og birst hafa á síðum bandarískra stórblaða, upplýsinga og umræðna sem fram hafa farið einnig í Kanada, um það atriði að áætlanir hafa verið uppi um langt árabil hjá hernaðaryfirvöldum í Bandaríkjunum og bandarískum stjórnvöldum þess efnis að flytja til Íslands kjarnorkuvopn á ófriðartímum. Það er m. a. í ljósi þessara upplýsinga sem það er knýjandi nauðsyn fyrir Alþingi Íslendinga að taka af tvímæli um þessi efni. Hér er um slíkt stórmál að ræða að ekkert getur verið brýnna en að taka af tvímæli um alla óvissu sem vera kann í þessum efnum. Ég er í raun ekki í vafa um að meiri hluti alþm. og kannske yfirgnæfandi meiri hluti er því andvígur að til greina komi að staðsetja kjarnorkuvopn á Íslandi, flytja kjarnorkuvopn til landsins, hvort sem er á friðar- eða ófriðartímum.

Ég vænti þess að þessi till. fái, eins og hér var nefnt af hv. 1. flm., skjóta meðferð í utanrmn. og síðan skeri þingið úr um vilja okkar í þessum efnum og þar með þeim hætti að enginn vafi leiki á einnig varðandi orðalag og túlkun, hver sé vilji þingsins.