19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3671 í B-deild Alþingistíðinda. (3014)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal verða við því að stytta mál mitt mjög, enda hafði ég ekki haft í hyggju að taka hér til máls. Ég tel að ég hafi þegar gert það í þessu máli. En ég er öldungis tilneydd að vekja hér athygli á að þessar umr. voru með öllu óþarfar. Þeim, sem ekki hafa setið hér á þingi og ekki vita en hafa gefið í skyn að flm. þessarar till. hafi ekki gert sér ljósa vankanta hennar, skal þetta sagt:

Allir þeir — og þ. á m. sá sem hér stendur — vissu fullvel hvernig till. sú, sem hér var talað fyrir áðan, var orðuð. Þetta er samkomulagstill. allra stjórnmálaflokkanna. Þetta er ekki till. Alþb. Þessi till., sem hv. þm. Páll Pétursson er 1. flm. að, er um tvennt: að ekki verði staðsett kjarnorkuvopn eða eldflaugar, sem slík vopn geta borið, hér á landi og að kosin verði sjö manna nefnd er kanni hugsanlega þátttöku Íslands í umr. um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Undir slíka till. skrifa ég með glöðu geði og ég vissi mjög vel um hvað hún var. Það geri ég venjulega þegar ég skrifa undir mál. Allar aðdróttanir um að okkur hafi ekki verið sjálfrátt, m. a. þm. Alþb., eru því algerar getgátur og ósannindi.

Hins vegar flutti þm. Alþb., einnig sá er hér stendur, aðra till. og um hana fór fram hér fyrr í vetur umr. sú sem nú var haldið áfram hér út af allt annarri till.till. er till. Alþb., Framsfl., BJ og SK. Á henni eru ekki fulltrúar Alþfl. né heldur fulltrúar Sjálfstfl. og þarf engum á óvart að koma. Ég held að ég hljóti til upplýsingar, m. a. fyrir ræðumenn og þm. Alþb., að fá að lesa hana hér, með leyfi forseta, ef menn hafa gleymt um hvað hún snýst. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að hefja nú þegar undirbúning að löggjöf um bann við geymslu og notkun á hvers konar kjarnorkuvopnum hér á landi, jafnt á fimum friðar sem ófriðar. Bannið nái einnig til siglinga með kjarnorkuvopn, flutninga í lofti eða á annan hátt um eða yfir íslenskt yfirráðasvæði: Í samræmi við ófrávíkjanlega yfirlýsingu Alþingis um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á Íslandi verða aldrei staðsettar í landinu hersveitir sem sérþjálfaðar eru í meðferð kjarnorkuvopna né heldur neinum þeim búnaði fyrir komið sem nauðsynlegur er fyrir notkun þeirra. Kveðið verði sérstaklega á um að eftirlit af Íslands hálfu með framkvæmd laganna verði tryggt.“ Þetta hlýt ég að upplýsa vegna þess að það var auglýst eftir öllum þessum atriðum áðan. Þau eru hér í þessari till. sem liggur fyrir hv. utanrmn. sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson situr í og hefur alla aðstöðu til að styðja. Jafnframt vil ég biðja hann að styðja einnig till. þá sem hv. þm. Páll Pétursson stendur að þó að okkur Alþb.-mönnum þyki hún að sjálfsögðu ganga of skammt. Hins vegar ber að fagna henni því að samþykkt hennar, nái hin ekki fram að ganga, væri stórkostlegur áfangi í íslenskum stjórnmálum. Við hæstv. utanrrh. áttum hér mikið málþing um till. sem ég mælti fyrir og það er því alger óþarfi að tefja hér umr. um málefni kennara með endurtekningu á þeirri umr. Hins vegar minnist ég þess ekki að flokksbræður mínir, utan e. t. v. hv. þm. Steingrímur Sigfússon, hafi verið í salnum þegar það málþing fór fram. En því er lokið og málið er nú í hv. utanrmn. Við skulum snúa okkur að því að fagna þeirri till. sem hér hefur verið talað fyrir. Hún er um sama málið þótt hún gangi skemmra. Ruglingur og ruglandaháttur hefur verið orðaður hér. Ég veit ekki hver er að rugla hér.