19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3672 í B-deild Alþingistíðinda. (3015)

203. mál, kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Það er fleirum en mér auðheyrilega sem blöskrar þrætubókarlist hv. 3. þm. Reykv. Hann gerði lítið annað í sínum ræðuflutningi hér en að drepa málum á dreif og gera orð manna upp eins og þegar hann var að vitna til yfirlýsinga minna í sambandi við geymslu kjarnorkuvopna á Íslandi. Það var þetta „nema“ sem hann hengdi hatt sinn á í yfirlýsingum mínum.

Ég vil taka það fram að ég var þá að tala um þá staðhæfingu að hingað hefðu verið flutt kjarnavopn eða heimild gefin til þess að flytja hingað kjarnavopn. Ég sagði að það hefði ekki verið gert og mundi ekki vera gert nema með leyfi íslenskra stjórnvalda vegna þess að Bandaríkjamenn væru samningslega skuldbundnir að leita leyfis íslenskra stjórnvalda og því yrðu ekki geymd kjarnavopn á Íslandi nema með leyfi íslenskra stjórnvalda. Það breytir ekki því að það er stefna íslenskra stjórnvalda að geyma hér ekki kjarnavopn og það er áreiðanlega stefna meginhluta þjóðarinnar og Alþingis. En bæði Alþingi, ríkisstj. eða það stjórnvald, sem á hverjum tíma tekur ákvarðanir fyrir landsins hönd, eru til þess bær að taka þær ákvarðanir sem stjórnarskráin heimilar og breyta þeim.

Þá hengdi hv. 3. þm. Reykv. hatt sinn á það að ég væri á móti einhliða yfirlýsingu um kjarnavopnalaus Norðurlönd en vildi afhenda forræði þessara mála til Sovétríkjanna og Bandaríkjanna. Hvílík fjarstæða. Það sem ber á milli okkar er annars vegar það að ég segi að einhliða yfirlýsing um kjarnavopnalaus Norðurlönd breyti engu frá ríkjandi ástandi og sé engin bót eða betrun í afvopnunarmálum heimsins eða friðarhorfum almennt. Það sem ég vil fá fram í umræðunni um kjarnavopnalaus Norðurlönd er einhvers konar skuldbinding um að önnur aðliggjandi landsvæði séu einnig gerð kjarnavopnalaus, að kjarnavopnum verði fækkað í heiminum, að kjarnavopn verði ekki flutt á haf út. Þessa skuldbindingu fáum við ekki með einhliða yfirlýsingu sem bætir ekkert við ríkjandi ástand eða bætir það að engu leyti. Þessa skuldbindingu og þessa þróun í afvopnunarmálum fáum við eingöngu með því að kjarnorkuveldin sjálf séu aðilar f afvopnun heimsins. Og hver er sá græningi hér í þessum sal að álíta það að það hafi nokkurn hlut að segja að lýsa Norðurlönd kjarnavopnalaus ef því fylgir ekki samsvarandi skuldbindingar af hálfu þeirra stórvelda sem ráða yfir aðliggjandi svæðum? Hver ætlar að blekkja sjálfan sig og þjóðina í heild að henni stafi ekki ógn af kjarnavopnum með þvílíkri einhliða yfirlýsingu? Nei, annað og meira verður að koma til og það er þetta sem skilur á milli skoðana okkar hv. 3. þm. Reykv.