19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3675 í B-deild Alþingistíðinda. (3022)

Umræður utan dagskrár

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir það að mál þetta er komið hér til framhaldsumræðu utan dagskrár því að svo ríkt sem tilefnið var til að taka á þessu máli á fimmtudaginn var, þeim mun brýnna er það í raun að ræða það hér á hv. Alþingi í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á þeim dögum sem liðnir eru. Ég vænti þess að hæstv. forseti hafi tryggt það að hæstv. menntmrh. sé viðstaddur þessa umr. þar sem til ráðh. var beint fsp. og mál það sem hér er til umr. á fundinum er á hans starfssviði. (Forseti: Það skal tekið fram að hæstv. menntmrh. er hér í húsinu og ráðh. var gert viðvart rétt áðan. Við skulum hinkra við og sjá hvort hæstv. menntmrh. kemur ekki í salinn. Ég geri alveg ráð fyrir að það hljóti að verða á hverju augnabliki.) Já, virðulegi forseti, það eru góðar upplýsingar og ég get haldið máli mínu áfram þrátt fyrir stundarfjarveru hæstv. ráðh. Það er ánægjuefni einnig við þessa umr. að sjá að hæstv. fjmrh. er viðstaddur. Honum var mjög tregt tungu að hræra hér á fimmtudaginn var, en nokkuð hefur ræst úr því síðan, að vísu ekki á Alþingi Íslendinga heldur í dagblöðum, þar sem ráðh. hefur svarað fsp. sem til hans var beint og fyrirhugað var að beina til hans og óskað var eftir að hann tæki efnislega afstöðu til hér í umr. á fimmtudaginn var. Ég geri fastlega ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. fallist á að tjá hug sinn til þeirrar deilu sem enn stendur yfir og hefur raunar magnast frá því málin voru rædd hér s. l. fimmtudag. Ég mun því beina til hans fsp. um viðhorf hans til stöðu málsins eins og hún er nú.

Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að því að ræða þau svör sem hæstv. ráðh. gáfu hér við umr. s. l. fimmtudag. Hæstv. forsrh. svaraði minni fsp. á þann veg að nú væri það Kjaradómur sem hefði þetta mál með höndum og hann vakti engar vonir um það að málið yrði tekið til meðferðar utan Kjaradóms. Hann hefði hins vegar vænst þess að kennarar hefðu unað yfirlýsingu ríkisstj. og þeirri málsferð að af hálfu ríkisstj. væri málinu vísað til Kjaradóms, en hefði orðið fyrir vonbrigðum með það til þessa.

Hæstv. menntmrh. svaraði einnig á svipaðan hátt fsp. minni um það hvort og þá hvað menntmrn. hygðist gera til þess að fá lausn á yfirstandandi deilu. Ráðh. vísaði einnig til Kjaradóms og fsp. minni um það hvort ráðuneyti hæstv. menntmrh. ætlaði ekkert að hlutast til um málin til að leita lausnar á deilunni utan Kjaradóms var svarað með því að mér mundi ekki takast hér í umr. á Alþingi að reka fleyga á milli hæstv. ráðh. í ríkisstj.

Hæstv. menntmrh. ræddi það nokkuð í sínu máli um daginn að vonir væru bundnar við það af ráðh. hálfu að kennarar mundu á næstu dögum sjá að sér, eins og ráðh. orðaði það efnislega, og snúa aftur til vinnu. Hæstv. ráðh. taldi raunar að þess sæjust þegar merki s. l. fimmtudag að það mundi gerast. En reyndin hefur önnur orðið. Ég rifja það svo aðeins hér upp, til að tengja þessa umr. saman, að varðandi fsp. mína um úrræði af hálfu menntmrn. vísaði hæstv. ráðh. menntamála á það að ráðuneyti hans mundi íhuga ráðningu forfallakennara. Kennurum yrði gefinn ákveðinn frestur til að átta sig og menntmrn. mundi auglýsa eftir forfallakennslu að einhverjum ótilgreindum fresti liðnum.

Í öðru lagi orðaði ráðh. það að lengja þurfi kennslutíma nokkuð, lengja þyrfti skólaárið, og það færi eftir því hversu margir kennarar sneru til starfa á næstu dögum hve mikið þyrfti að gera í þeim efnum.

Í þriðja lagi nefndi ráðh. það sem hugsanlega úrlausn á því neyðarástandi sem ríkir í skólum landsins að draga mætti úr umfangi prófa að vori. Ráðh. taldi að ríkisstj. hefði gert allt í málinu sem hún hefði megnað, og það var ekki að sjá neitt ljós við endann á þeim myrku göngum sem hæstv. ráðh. vísaði inn í í svari sínu. Ríkisstj. kynni þá lausn eina að láta Kjaradóm kveða upp sinn úrskurð og ásaka jafnframt kennara, sem hætt hafa störfum frá 1. mars s. l., um lögbrot á lögbrot ofan og núa þeim því um nasir að þeir væru að grafa undan virðingu kennarastéttarinnar og möguleikum kennara til þess að halda uppi aga í skólum, svo ég nefni efnislega nokkur af fleygum ummælum hæstv. ráðh. úr þessari umr.

Síðan hefur það gerst í þessari deilu að ríkisstj. hefur ekki, svo vitað sé, aðhafst neitt til þess að fá lausn á deilunni. Hins vegar hafa kennarar setið við sinn keip, þeir fjölmörgu kennarar, líklega á þriðja hundrað, sem hættu störfum 1. mars s. l. og hafa ekki snúið til starfa. Aðstandendur nemenda og margir fleiri, sem skólastarfi unna í landinu og hafa stórfelldar áhyggjur af þróun mála, hafa beint tilmælum til ríkisstj. um það að taka þegar upp samninga við kennara til að leysa þessa deilu, þannig að ljúka megi yfirstandandi neyðarástandi í framhaldsskólum landsins.

Þeir skiptu þúsundum, ég hef ekki töluna en hef heyrt nefnt allt að 14000 manns, sem undirritað hafa gögn sem afhent voru hæstv. forsrh. í morgun með áskorun um þetta efni. Á útifundi, sem Kennarasamband Íslands boðaði til og haldinn var hér utan við Alþingishúsið fyrr í dag, á fundartíma Alþingis, mættu þúsundir kennara sem tóku þar undir kröfur og báru fram kröfur og eðlilegar ásakanir í garð hæstv. ríkisstj. Lesa mátti á kröfuspjöldunum hér utan við húsið á fjórða tímanum í dag orð eins og þessi: „Getuleysi ríkisstj. er sannað.“ „Ragnhildur, þú ert fallin á prófinu.“ „Albert, þú ert fallinn með 4,9.“ „Ekki er skóli án kennara.“ „Heyrðum við rétt?“ stóð einnig þar. „Átti árið 1985 ekki að vera alþjóðaár æskunnar?“ „Skóla nú, ekki í vor.“ „Við viljum ekki styttra páskafrí eða kennslu fram á sumar.“

Þetta voru kröfur fram bornar af kennurum og nemendum sem fylktu sér á fund hér á Austurvelli utan við Alþingishúsið í dag, nokkrar þeirra sem ég skrifaði niður og við mér blöstu.

Svo vitnað sé nú til hæstv. fjmrh., þeirra orða sem fram hafa komið í fjölmiðlum eftir honum höfð og frá hans rn., þá lesum við m. a. í fréttatilkynningu frá fjmrn., sem birt er í Morgunblaðinu í dag, orðrétt, með leyfi forseta:

„Hefur ríkið í því sambandi boðið u. þ. b. 10% hækkun umfram aðra en HÍK krafist alli að 50% hækkunar umfram aðra í formi launaflokkabreytinga eða lækkunar kennsluskyldu úr 26 stundum á viku í rúmlega 18 stundir á viku.“ Og í framhaldi af þessu segir í fréttatilkynningu ráðuneytisins: „Allir hljóta að sjá að lengra er ekki hægt að ganga í þessu efni gagnvart öðrum opinberum starfsmönnum og hinum almenna vinnumarkaði.“ Og í lokin segir í fréttatilkynningu fjmrn.: „Rétt er að taka fram að í ríkisstj. hefur ekki verið ágreiningur um meðferð málsins.“

Ég hlýt í þessu sambandi að beina máli mínu til hæstv. forsrh. sem hefur haft afskipti af þessari deilu. Er það virkilega svo að ríkisstj. í heild sinni hafi skrifað upp á þá málsmeðferð sem fjmrh. hefur viðhaft og öll er á ábyrgð fjmrh. í þessu máli? Ég vænti þess að skýr svör fáist frá hæstv. forsrh. Hefur hann í hyggju að gera um það tillögur í ríkisstj. að skorið verði úr um þann vafa sem er á þeirri yfirlýsingu sem ríkisstj. gaf þann 12. mars s. l. og sem kallað hefur verið eftir af kennarasamtökunum, Hinu íslenska kennarafélagi, og talið er að stuðlað gæti að lausn þessarar deilu? Sem kunnugt er hefur fjmrn. og talsmaður þess í samninganefnd sent frá sér allt aðrar túlkanir á þeim grundvelli, sem lagður er fyrir Kjaradóm af hinu íslenska kennarafélagi og talið er af þeim að studdur sé af sérstakri nefnd og könnun sem gerð var á vegum þeirrar nefndar á samanburði á vinnutíma kennara og tekjum aðila utan skólanna á hinum almenna markaði, þ. á m. á skilgreiningunni á dagvinnu og samanburði í því sambandi.

En aðalatriðið gagnvart ríkisstj. í heild og þar með gagnvart hæstv. forsrh. hlýtur að vera það: Er hann reiðubúinn til þess að stuðla að samningum um þetta mál nú og á næstu dögum án þess að á mál þetta reyni í Kjaradómi eða a. m. k. að leitað verði skjótrar lausnar með bráðabirgðasamkomulagi og yfirlýsingum af hálfu ríkisstj. þannig að Hið íslenska kennarafélag og félagar þess, sem hætt hafa störfum, taki þær gildar og treysti því, jafnframt samkomulagi, að tekið verði tillit til þess af Kjaradómi og sá málflutningur hafður uppi í samræmi við það af ríkisins hálfu í Kjaradómi?

Í fjölmiðlum í dag má lesa yfirlýsingar frá talsmönnum Hins íslenska kennarafélags í þá veru að ríkisstj. hafi lykla til lausnar þessari deilu. En á sama tíma lesum við frá þeim ráðh. sem fara með þessi mál faglega, hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. alveg sérstaklega, að ríkisstj. sé komin á leiðarenda í viðleitni sinni til að leysa þessa deilu og muni í málflutningi fyrir Kjaradómi halda til streitu þeim kröfum sem hæstv. fjmrh. lýsir og sendir frá sér í fréttatilkynningu rn. í dag.

Ég rakti hér í máli mínu um daginn með örfáum tölum hvað fælist í því tilboði sem fjmrn. setti fram áður en ríkisstj. vísaði þessari deilu til Kjaradóms, hvað það væri í krónum talið sem fælist í tilboði fjmrn. til kennara, þeirra sem eru að byrja starf sitt. Hvað skyldi það vera metið í krónum? Ætli það skipti tugþúsundum, þessar háu tölur sem fjmrn. er að útmála að fælust í kröfum kennara? Varðandi byrjunarlaunin voru það milli 1700 og 1800 krónur sem átti að bæta kennurum í launum á mánuði. Það var nú allt og sumt sem þar var boðið áður en ríkisstj. vísaði málinu til Kjaradóms.

Menn ræða þessi mál vissulega með tilliti til þeirra launa sem kennarar hér hafa með tilliti til starfsábyrgðar þeirra, með tilliti til aukinna krafna sem til þeirra eru gerðar og með tilliti til launa á hinum almenna markaði. En það er líka eðlilegt að litið sé til þess hvað kennurum er boðið í nágrannalöndum okkar. Ég ætla ekki að fara með margar tölur í því sambandi en læt nægja að nefna hér tölur sem varða samanburð á Íslandi og Danmörku í þessum efnum. Þar kemur fram í upplýsingum, sem Hið íslenska kennarafélag hefur tekið saman og ég hygg að ekki séu vefengdar, að á sama tíma og lægstu laun kennara, byrjunarlaun framhaldsskólakennara hér eru 20 813 kr. þá eru þau í Danmörku u. þ. b. 46 þús. kr. Og á sama tíma og hæstu laun kennara hérlendis fyrir fast samningsbundið starf eru um 29 þús. kr. þá eru þau um 66 þús. kr. í Danmörku.

Vissulega geta fleiri þættir gengið inn í þetta mat en brúttólaunin ein. En þessar tölur segja sína sögu og ég hygg að það breytti ekki miklu þó að tekið væri tillit til vinnutíma í reynd í þessum löndum, né heldur til skattgreiðslna, þó að einhverju kunni það að breyta í samanburðinum.

Litið til næstu nágranna okkar, Færeyinga, þá er þessi munur í raun enn þá meiri en ég hef hér nefnt varðandi Danmörku. En það er ekki von að undirtektirnar við sanngjarnar kröfur kennara séu góðar þegar litið er til þess hvernig upp var lagt í upphafi þings, hvernig umr. fór hér fram í upphafi þings um mat á störfum kennara. Fór þar fyrir hæstv. fjmrh., sá hinn sami og telur að hann hafi nú boðið þeim fyllilega nóg í sínu síðasta tilboði.

Eins og menn muna þá kom það fram í máli hæstv. ráðh. hér í Sþ. þann 11. október s. l. að kennarar á Íslandi ynnu ekki nema u. þ. b. helminginn af árinu. Hann taldi að kennarar væru orðin forréttindastétt í landinu. Og í annarri ræðu, sem hann flutti um þetta mál, taldi hann sig færa rök fyrir því að í raun hefði vinnuskylda þeirra minnkað á undanförnum árum og væri í framhaldsskólum um 26 tímar á viku og í menntaskólum og hliðstæðum skólum 27 kennslustundir, 45 mín. hver. Nú vill svo til að fram hefur farið, á þeim tíma sem liðinn er síðan, sérstök könnun á vinnutíma kennara, unnin að ég hygg með vitund menntmrn. á vegum Bandalags kennarafélaga. Forustu fyrir þeirri vinnu hafði félagsvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Þórólfur Þórlindsson. Meginniðurstaða úr þeirri könnun á vinnuframlagi kennara í framhaldsskólum landsins, þar sem til mats komu 158 kennarar og vinnutími þeirra á grundvelli skýrslna sem þeir skiluðu inn þar að lútandi, var að kennarar í framhaldsskólum landsins vinni að jafnaði um 50 klst. á viku að störfum sínum.

Ég vil í framhaldi af þeim athugasemdum, sem ég hér hef komið á framfæri við það mál sem flutt var af hæstv. ráðh. á fimmtudaginn var, ítreka fsp. mínar. Í fyrsta lagi til hæstv. forsrh: Hvað hyggst ríkisstj. gera í núverandi stöðu til að leysa með skjótum hætti deiluna við Hið íslenska kennarafélag og þann hóp kennara sem sagt hefur starfi sínu lausu? Hvað áformar ríkisstj. að gera í því efni? Hvaða undirtektir fá þær þúsundir sem skiluðu áskorun til forsrn. í morgun um lausn á þessari deilu?

Ég spyr hæstv. menntmrh: Hvert er mat hæstv. ráðh. á þeirri þróun sem orðið hefur síðustu daga frá því að hæstv. ráðh. stóð hér í ræðustóli? Hvað felst í yfirlýsingum hæstv. ráðh., sem lesa má á forsíðu NT í dag, um það að menntmrn. og hæstv. ráðh. hyggist senn veita þeim kennurum, sem ekki hafa sinnt kennslustörfum í marsmánuði, lausn frá störfum. Hvað felst í þeirri yfirlýsingu ráðh.?

Hyggst ráðh. beita slíkum aðgerðum nú og á næstu dögum?

Og ég spyr hæstv. fjmrh.: Er það niðurstaða hans enn í dag eftir ríkisstjórnarfund í morgun, eftir hinn fjölmenna fund á Austurvelli í dag, að taka ekki upp viðræður við Hið íslenska kennarafélag um lausn á yfirstandandi deilu til þess að aflétta því neyðarástandi sem enn ríkir í skólum landsins og raunar fer vaxandi dag frá degi? Og hæstv. forsrh. spyr ég einnig að því: Er það rétt, sem fram kemur í fréttatilkynningu fjmrn. sem birt er í Morgunblaðinu í dag, að ríkisstj. sé einhuga um þá stefnu sem fram kemur í fréttatilkynningu fjmrn. og þá meðferð á þessu máli sem fram kemur í aðgerðarleysi hæstv. menntmrh. og hæstv. fjmrh. varðandi lausn þessa máls?