19.03.1985
Sameinað þing: 61. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3679 í B-deild Alþingistíðinda. (3023)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vil taka það skýrt fram að ríkisstj. hefur lagt sig, bæði sem heild og einstakir ráðh., mjög fram um að reyna að leysa þessa deilu. Það er hárrétt, sem segir í fréttatilkynningu fjmrn., að fullkomin samstaða er í ríkisstj. um það sem gert hefur verið og hún hefur samþykkt. Til að leysa deilu sem slíka þarf vitanlega að vera vilji beggja deiluaðila. Yfirlýsingar eins og sú sem greint var frá á fundi á Hótel Sögu s. l. sunnudag auðvelda satt að segja ekki lausn. Með leyfi forseta vil ég lesa 1. mgr. Þar segir:

„Kennarar hafa gengið út úr skólunum og tekið sér samningsrétt. Kjaradómur hefur því ekki lengur með mál þeirra að gera.“

Það þarf að fara í gegnum tvær deildir Alþingis eða þrjár umr. í hvorri til að breyta þeim lögum sem gilda um samningsrétt háskólamenntaðra manna.

Ég boðaði í dag fund með fjmrh. o menntmrh. ásamt fulltrúum bæði kennara og BHM. Ég held að sá fundur hafi verið gagnlegur og málin hafi þar kannske eitthvað skýrst. En það verð ég að segja að það vakti athygli mína þegar einn kennari staðfesti að hann hefði í ræðu lýst þessari skoðun. Þá vaknar sú spurning: Hvað er sá maður að gera í samninganefnd við ríkið? Skýrt er tekið fram í lögum að í samninganefnd skuli eingöngu sitja starfsmenn ríkisins, en maðurinn lýsti því yfir að hann sé ekki lengur starfsmaður ríkisins, hann sé genginn út og sé ekki lengur ríkisstarfsmaður. Við erum kannske á villigötum. Við erum að semja við menn sem eru ekki lengur starfsmenn ríkisins að eigin dómi. Það er að vakna sú spurning hvort við erum ekki að gera hreina lögleysu með því að semja við þessa menn.

Ríkisstj. hefur satt að segja séð gegnum fingur um allt slíkt í 18 daga. Það er engin furða þótt hún liggi undir verulegu ámæli fyrir það hjá mörgum löghlýðnum borgara þessa lands og það er umhugsunarefni.

Hvað gera aðrar stéttir ef beitt verður ákvæðum laga og frestað uppsögn? Má ætla að þær fari eftir því?

Ég tel að sú samþykkt sem gerð var í ríkisstj. 12. þ. m. hafi verið mjög mikilvæg og eitt merkasta úfspilið í slíkum málum. Menn verða að greina á milli tveggja þátta þessarar dellu, annars vegar þeirrar deilu sem stendur yfir og verið er að reyna að leysa með samningum fjmrh. og hans manna og samninganefndar BHM og er komið til Kjaradóms og svo hins vegar langtímastefnumörkunar. Ég vil taka skýrt fram að hvorki ég né menntmrh. höfum haft afskipti af viðleitni launanefndar fjmrh. til að ná samningum. Við höfum að sjálfsögðu fengið allar upplýsingar og fylgst með og komið hefur fram víða að búið er að bjóða mikið. Það mál er alfarið í höndum fjmrh. sem hefur gert okkur grein fyrir því. Hins vegar er eðlilegt að ríkisstj. öll marki stefnuna til lengri tíma. Það var að vísu von okkar að það yrði til að hjálpa til við lausn hins fyrri þáttar, þess sem nú hvílir á okkur.

Í þeirri stefnuyfirlýsingu sem var lesin hér af hv. fyrirspyrjanda og allir eiga að þekkja er skýrt tekið fram að ríkisstj. lýsir því yfir að opinberir starfsmenn skuli hafa sambærileg kjör við það sem er á hinum almenna markaði. Ég kannast ekki við að nein ríkisstjórn hafi lýst því svo afdráttarlaust yfir eins og þar er gert. Lögð er áhersla á að ljúka þeim samanburði sem að er unnið og jafnframt að ríkisstj. sé reiðubúin til að koma á fót samráði við opinbera starfsmenn um samanburð á kaupi og kjörum innan og utan ríkisgeirans. Við getum sagt eitthvað svipað og er nú milli ASÍ og VSÍ og kallast kjararannsóknanefnd og menn hafa, held ég, borið traust til. Ég vil leyfa mér að halda því fram að þessi yfirlýsing sé ákaflega mikilvæg og stefnumarkandi.

Ég lýsti því yfir í umr. á fimmtudaginn að það væri eðlilegt að þessi samanburður yrði gerður á dagvinnugrundvelli. Ég hef ekki heyrt neinn andmæla því. Hins vegar eru deilur uppi um hvernig eigi að skilgreina dagvinnuna eða kannske á að orða það svo hvaða laun tilheyri hreinni dagvinnu því að í mörgum tilfellum, bæði innan og utan ríkisins, eru greidd laun og ætlast til þess að menn vinni annaðhvort ómælt eða þá að ekki er talað um ákveðinn vinnutíma. Ég efast ekki um að úr þessu er hægt að skera ef menn gefa sér tíma. En það kann að taka lengri tíma en nú er fyrir hendi til að leysa þá deilu sem við þurfum að leysa sem allra fyrst.

Það eru fleiri svona atriði. Takið t. d. mat á lífeyrissjóðum. Ef ég þekki rétt hafa opinberir starfsmenn metið lífeyrissjóð opinberra starfsmanna til u. þ. b. 3% launa sem ég held að launanefnd fjmrh. meti til u. þ. b. 10%. Mér er hins vegar kunnugt um að á vegum ASÍ var gerð athugun á þessu og þar er lífeyrissjóðurinn metinn á 12% launahækkun. Þetta undirstrikar m. a. hve nauðsynlegt er að þessi samanburður verði þannig að aðilar hins almenna vinnumarkaðar véfengi hann ekki. Hann verður að vera traustur.

Ég er ekki viss um að fólkið í frystihúsinu sé sammála því sem kom fram hjá hv. þm. áðan um launakröfur kennara. Ég er ekki viss um að láglaunafólkið sé því sammála. Þess vegna verður þessi samanburður að vera mjög traustur og má ekki leiða til annarrar kollsteypu í þjóðfélaginu og að enginn hafi neitt upp úr þessu.

Ég vara við því að bera saman tímakaup hér og tímakaup í öðrum löndum. Ég ætla ekki að ræða það. Efnahagsstrúktúr okkar er allt annar, ef ég má orða það svo, en ég ætla ekki að ræða það. Málið er þess vegna mjög viðkvæmt og á sér dýpri rætur en þá mjög svo slæmu deilu sem nú stendur yfir. Ef það er rétt að það yrði til að leysa þessa deilu að menn kæmu sér saman um að samanburður yrði að vera á dagvinnugrundvelli skal ég lýsa þeirri skoðun minni að ég tel það verða að vera á dagvinnugrundvelli. En ég tel að það muni taka dálítinn tíma og nokkra yfirlegu að koma sér saman um hvernig eigi að skilgreina dagvinnuna eða m. ö. o., eins og ég sagði áðan, hvaða laun tilheyra hreinni dagvinnu og sömuleiðis hvers virði ýmis hlunnindi eru.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég vil ljúka þessum orðum með því að segja að ef kennarar yrðu við þeirri áskorun og þeirri beiðni að hefja aftur kennslu er ég sannfærður um að farsæl lausn fengist á þessu máli.