24.10.1984
Neðri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

56. mál, Landsvirkjun

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 42 frá 23. mars 1983, um Landsvirkjun. Flutningsmaður ásamt mér að þessu máli er hv. 7. landsk. þm. Kristín Halldórsdóttir. Efni þessa frv. kemur fram í 1. gr., en hún er svohljóðandi:

„Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein, sem verði 4. málsgr. og hljóði svo:

Verð á raforku samkvæmt orkusölusamningum til langs tíma við iðjuver þau, sem um er getið í 3. málsgr. þessarar greinar, má ekki vera lægra en sem nemur 65% af verði á raforku til almenningsrafveitna samkvæmt gjaldskrá Landsvirkjunar á hverjum tíma.“

Þetta var tilvitnun í 1. gr. frv. Ákvæði til bráðabirgða er svo orðað:

„Við endurskoðun gildandi samninga um orkusölu til langs tíma milli Landsvirkjunar og iðjufyrirtækja, sem nota meira en 100 millj. kwst. á ári, skal tekið mið af ákvæðum laga þessara.“

Frv. sama efnis var flutt á síðasta þingi, en þó hefur orðalagi verið hnikað til í ákvæðum til bráðabirgða með tilliti til samninga sem fram hafa farið, endurskoðun á samningum um orkusölu til stóriðju, svo og í skýringum við það ákvæði.

Í grg. með þessu frv. segir í upphafi, með leyfi forseta:

„Gífurlegur munur er nú hérlendis á raforkuverði til stóriðju annars vegar og almenningsveitna hins vegar og hefur hann farið hraðvaxandi á undanförnum árum. Þá áformar núv. ríkisstj. að gera nýja orkusölusamninga við erlenda aðila jafnframt því sem unnið er að endurskoðun eldri samninga.

Ljóst er að gildandi lagaákvæði hafa ekki tryggt eðlilega kostnaðarskiptingu af raforkuframleiðslu milli stórnotenda og almenningsveitna. Hefur það leitt til þess að almennir raforkunotendur, jafnt heimili og atvinnurekstur, bera óeðlilega mikinn hluta af framleiðslukostnaði raforkunnar í landskerfinu. Því er nauðsynlegt að löggjafinn marki um það almenna stefnu hver vera megi hámarksmunur á verði milli þessara viðskiptavina Landsvirkjunar.

Við stefnumörkun frv. um þetta efni er stuðst við sérfræðilegt mat innlendra aðila og einnig höfð hliðsjón af því sem tíðkast erlendis hjá raforkuframleiðendum sem að meginhluta vinna orku með vatnsafli.

Ákvæði frv., ef lögfest verða, fela það í sér að lágmarkssamræmi verði í verðlagningu á raforku til stóriðju annars vegar og til almenningsveitna hins vegar. Það hlutfall, sem hér er gert ráð fyrir að fest verði í lög sem lágmark, á að tryggja að ekki sé unnt að velta afleiðingum af óhagkvæmri raforkusölu til stóriðju yfir á almenningsveitur, þ.e. almenna notendur og atvinnurekstur sem ekki kaupir raforku samkvæmt sérsamningum.“

Miðað við núverandi tekjuþörf Landsvirkjunar og það markmið að raforkuverð til núverandi stóriðjufyrirtækja sé að lágmarki 17–18 mill (eða millidalir) yrði orkuverð til almenningsveitna samkv. ákvæðum frv. að hámarki 26–27 mill á kwst. Það þýddi að orkuverð til almenningsveitna gæti lækkað um nálægt 30% frá núverandi verði (37 mill) án þess að afkoma Landsvirkjunar versnaði.

Miðað við áætlað kostnaðarverð raforku frá nýjum virkjunum er ljóst að raforkuverð til nýrrar stóriðju þarf að vera a.m.k. 20 mill og verðlagning til almenningsveitna mundi þá ákvarðast með hliðsjón af því.

Þannig felst í ákvæðum frv. þessa mikilvæg neytendavernd og aðhald að stjórnvöldum varðandi verðlagningu á raforku til stóriðju nú og í framtíðinni.

Gert er ráð fyrir að fella lagaákvæðið samkvæmt 1. gr. þessa frv. inn í 13. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, sem ég vísa til, en þar er að finna varnagla sem ekki hafa nægt hingað til til að tryggja hagsmuni almenningsveitna og viðskiptavina Landsvirkjunar með viðhlítandi hætti.

Það álit innlendra sérfræðinga, sem hér hefur verið vitnað til, birtist í grg. sem unnin var af starfshópi á vegum iðnrn. og var skilað með skýrslu í júlí 1982 þar sem fjallað var um þessi efni, hvert væri eðlilegt lágmarkshlutfall á raforkuverði frá stórkaupendum annars vegar með tilliti til verðlagningar á raforku til almenningsveitna hins vegar. Meginniðurstaða þessa starfshóps, sem í áttu sæti Finnbogi Jónsson, þá deildarstjóri í iðnrn., en nú framkvæmdastjóri Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar, Gunnlaugur Jónsson, deildarstjóri Orkustofnunar, Jóhann Már Maríusson, yfirverkfræðingur hjá Landsvirkjun, en nú aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, og Kristján Jónsson rafmagnsveitustjóri ríkisins — meginniðurstaða þeirra var sú, með leyfi forseta, að „að öllu samanlögðu má reikna með því að stóriðjan (8000 stunda nýtingartími og 220 kv. afhendingarspenna) eigi að greiða orkuverð sem nemur a.m.k. 65% af heildsöluverði til almenningsveitna (5000 stunda nýtingartími og 132 kv. afhendingarspenna).“ Þetta er þeirra niðurstaða eftir að hafa fjallað um stöðu þessara mála hér innanlands og þróun hérlendis og það sem tíðkast erlendis. Í öllum þeim tilvikum þar sem vatnsafl er meginuppistaða í raforkuframleiðslu er þetta hlutfall a.m.k. sem þessu nemur og yfirleitt til verulegra muna hærra hvað snertir greiðslur stóriðjunnar. Í landi eins og Bandaríkjunum er raforkuverð það sem stórnotendur greiða í mörgum tilvikum mun hærra en raforkuverð sem almenningsveitur greiða viðkomandi orkuveitum. Það er staðreynd sem ég held að sé umhugsunarefni fyrir. hv. þdm. og ástæða til að taka tillit til við afgreiðslu þessa máls.

Í grg. með frv. er vísað til þess hvernig mál hafa staðið gagnvart stærsta orkukaupanda hérlendis, þ.e. ÍSAL, og ég leyfi mér að vitna til þess sem þar segir um það efni:

Í fyrsta lagi er þess getið í grg. að ef væri fylgt núverandi gjaldskrá Landsvirkjunar eins og hún lítur út í orkusölunni til ÍSALs, þá væri hlutfallið sem stórnotenda eins og ÍSAL væri ætlað að greiða 67%, en svo er nú ekki í reynd vegna sérsamninga. Það samkomulag um raforkuverð sem samningamenn íslensku ríkisstjórnarinnar gengu frá við Alusuisse í London 9. okt. 1984 felur í sér verð á bilinu 12.5 til 18.5 millidali á kwst. með tengingu við álverð. Miðað við núverandi álverð gefur þetta samkomulag aðeins lágmarksverðið 12.5 millidali sem svarar til þess að umrætt hlutfall verður aðeins um 33%. Ég vek athygli á þessu: ekki 65% heldur aðeins um 33% að óbreyttu verði til almenningsveitna. Almenningsveiturnar greiða þannig þrisvar sinnum hærra verð á orkueiningu en stóriðjan þegar miðað er við lágmarksverðið sem fæst samkvæmt hinum endurskoðaða raforkusamningi við Alusuisse. Í reynd greiðir svo innlendur iðnaður, fiskvinnsla og almennur iðnaður, 6–8-falt hærra raforkuverð en hin erlenda stóriðja nema þá að viðkomandi gjaldskrár verði lækkaðar í framhaldi af þeim samningum sem staðið hafa yfir að undanförnu.

Herra forseti. Ég vísa að öðru leyti til grg. sem fylgir þessu frv. Ég vek athygli á því, áður en ég lýk máli mínu, að í Bandaríkjum Norður-Ameríku var samningsbundið verð til stóriðju til álvera. í norðvesturfylkjum Bandaríkjanna hækkað í 27.7 millidali í fyrra. Það hafði verið mikill þrýstingur hjá kaupendum á það að fá þetta verð lækkað og þeir nutu um skeið í fyrra verðsins 11.2 millidalir fyrir afgangsorku. Núna alveg nýlega, frá 1. sept., knúðu álverin orkuveituna til að lækka um sex mánaða skeið raforkuverðið úr 27.7 millidölum í 22.3 millidali og á það aðeins að gilda um sex mánaða skeið, enda haldi álverin uppi fullri framleiðslu fullum orkukaupum frá viðkomandi veitu. Ég vek athygli á þessari staðreynd, sem þarna liggur fyrir, og við skulum bera hana saman við það raforkuverð sem hér stendur til að semja um að lágmarki við hið erlenda fyrirtæki Alusuesse, 12.5 millidali. Það er ólíku saman að jafna.

Herra forseti. Ég vísa að öðru leyti til grg. með þessu máli og legg til að því verði vísað til iðnn.