20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3707 í B-deild Alþingistíðinda. (3042)

98. mál, sóknargjöld

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að tala um gagnrýni á einn eða annan. Ég var að benda á þá staðreynd að formaður menntmn. vitnaði sérstaklega til eins aðila, sagðist hafa stuðst við aðila í innheimtu sem kunnugir eru þessum málum, eins og ég skrifaði orðrétt eftir honum, og gat svo um að það væri formaður Dómarafélagsins.

Nú vill svo til að í þessum skilningi eru innheimtumenn ríkissjóðs um land allt starfsmenn ríkissjóðs hvað þetta snertir. Ég tel þess vegna að það hefði verið eðlilegra að vitna í þá sérfræðinga sem rn. hefur til þess að setja innheimtumönnum starfsreglur hvað þessi mál snertir.

Hitt er annað mál að ég hringdi í ráðuneytisstjórann meðan á þessari umr. stóð og spurði hvort það væri ekki rétt með farið að Árni Kolbeinsson hefði ekki komið á fund nefndarinnar á þessu þingi. Hann staðfesti að svo væri, að Árni Kolbeinsson hefði ekki komið á fund nefndarinnar. Það getur vel verið að það sé rangt hjá honum. (Gripið fram í.) Þá skulum við bara fá það rétta. Hitt er annað mál að Árni Kolbeinsson hafði komið á fund nefndarinnar í fyrra þegar þetta frv. var fyrst lagt fram og þá lagt þau gögn fram sem ég er búinn að kynna hér í dag. Við skulum fá fram hvort réttara er. En vegna upplýsinga, sem ég fékk frá formanni nefndarinnar, taldi ég rétt að hringja í ráðuneytisstjórann og spyrja hvort ég færi hér með rétt mál og hann staðfesti að svo væri. En það getur verið rangt fyrir því. Við skulum bara athuga það nánar.

Það hefur komið hér fram að menn furða sig á því að athugasemdir skuli koma svona seint fram frá fjmrn. að þessu sinni þó þær hafi legið fyrir í fyrra þegar frv. var lagt fram. Nú vil ég taka það fram að fjmrn. fylgist náttúrlega fyrst og fremst með málum sem vísað er til þeirra nefnda sem heyra beint til starfi fjmrn. Það er að sjálfsögðu minna fylgst með þeim frv. sem fara í menntmn. en þeim sem fara í fjh.- og viðskn. En þegar fjmrn. fékk í hendur þau gögn sem hér eru til umr., þá gerði það aftur þessar athugasemdir og því ætlaði ég að kynna það við 2. umr. En eins og menn muna, og ég gerði líka athugasemd við, þá urðu mistök í fundarboðun og það lá ekki fyrir að fundur yrði í Ed. í fyrradag og ég óskaði eftir því að fá að gera þær athugasemdir í dag. Ég geri þær hér með og óska eftir því að menn taki þær og skoði milli umræðna.