20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3713 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

364. mál, jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég vil gjarnan nota þetta tækifæri til að viðra hér hugmynd sem raunar kom upp á almennum fundi norður í landi þar sem hæstv. iðnrh. talaði um orkuveisluna svonefndu og greindi frá því að mikil umframorka væri nú í raforkukerfinu, kannske meiri en menn höfðu gert sér grein fyrir. Þá vaknaði sú hugmynd hvort ekki væri hugsanlegt að nýta þessa orku með því að láta hverflana rúlla og reyna að koma orkunni inn á alla þá spotta sem fyrir eru, þannig að umframorka væri möguleg á kerfinu, tengikerfinu. Ég varpaði þessari hugmynd fram við hæstv. iðnrh. og hann tók því vel að skoða það mál og veit ég að hann hefur gert það og er að gera það, og væri kannske ekki óeðlilegt að það yrði rannsakað nánar í sambandi við þessar umr. í n. sem verður víst væntanlega iðnn. Ég á ekki sæti í henni og þess vegna vil ég orða þetta hér. En auðvitað gerði ég mér grein fyrir því að orkukerfið er þannig skuldum hlaðið, ekki síst Rafmagnsveitur ríkisins, að það er kannske ekki hægt að lækka mikið það orkuverð eins og er, en það er hins vegar hægt að nota meiri orku; ráðh. bendir hér á kirkjur, félagsheimili o. s. frv. og svo og svo marga bæi. Því þá ekki smáiðnað líka? Þessa orku, sem ónotuð er núna, mætti selja mjög ódýrt eða þá að nota þær tekjur sem fyrir hana fengjust til þess að lækka orkuverð almennt til húshitunar. Ég held að þetta sé ekki smámál. Ég held að þetta geti verið stórmál.

Við munum ekki nota þessa umframorku þó að ráðist yrði í stóriðjuver eða stækkun álverksmiðjunnar t. d. næstu misserin í öllu falli og á því tímabili kostar nánast ekki neitt að láta hverflana rúlla í stað þess að vatnið renni óbeislað til sjávar. Ég hygg að það fari ekkert ver með hverflana að þeir séu í gangi en að þeir séu stöðvaðir, og vatnsaflið er sem sagt nægilegt til þess að framleiða meiri orku.

Ég ætla ekki að hafa um þetta langt mál, enda sýnist mér vera sjálfsagðir hlutir að athuga þetta, jafnvel þótt svo færi að orkuverðið þyrfti eitthvað að hækka á ný að þessu tímabili liðnu sem væntanlega verður frekar nokkur ár en nokkur misseri. Og úr því að við höfum farið þarna kannske eitthvað of geyst eigum við að reyna að gera það besta úr því og auðvitað að nota orkuna eins og frekast er unnt. Ég mælist til þess við n. að hún starfi með hæstv. ráðh, sem er að vinna að þessu máli, einmitt að þessari athugun, og sé þá ekki með neina skammsýni eða einhverja smáskammta, heldur beinlínis að bjóða mönnum þessa orku sem vildu t. d. nota hana í einhverjum nýiðnaði, einhverjum smáiðnaði jafnvel, það er líka til smáiðnaður sem útheimtir talsvert mikla orku, að við notum þessa orku til að byggja upp ný fyrirtæki og koma raforkuhitun á sem allra víðast og losna þannig við olíukyndinguna. Ég held að þarna sé að finna stórmál sem gæti líka leyst þessar deilur um orkujöfnun, sem eru að verða ævarandi hér í þinginu, og yrði liður í því að færa raforkuverð á Íslandi til a. m. k. samræmis við það sem er í nágrannalöndum þar sem um olíukyndingu er að ræða og þá liður í því auðvitað að við verðum með miklu, miklu ódýrari raforku en t. d. Danir og aðrir sem að vísu hafa gamalgróið orkukerfi, styttri vegalengdir, en nota engu að síður olíu og selja orkuna ódýrar.

Ég efast ekki um að hv. iðnn. muni vilja skoða þetta og veit að iðnrh. hefur það til skoðunar. Hér er alveg áreiðanlega um stórmál að ræða sem gæti haft gífurlega þýðingu fyrir landsbyggðina og þjóðina alla.