20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3719 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

235. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Menntmn. Nd. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á lögum um Háskóla Íslands. Í aths. við frv. eins og það var lagt fram hér í hv. Nd. á sínum tíma kemur fram hverjar séu meginbreytingar frá háskólalögum í þessu frv. Það er í fyrsta lagi að verkfræði- og raunvísindadeild er skipt í tvær sjálfstæðar háskóladeildir, í öðru lagi að heimild í gildandi lögum til að flytja lektor úr lektorsstöðu í dósentsstöðu skv. nánari ákvæðum í reglugerð er víkkuð þannig að hún taki einnig til flutnings forstöðumanns háskólastofnunar í prófessorsembætti og í þriðja lagi er opnuð leið fyrir Háskólann til að eiga aðild að rekstrarfélögum eða stofnunum sem stunda rannsókna- og þróunarstarfsemi og þar með að stofna „þróunarmiðstöð“ við Háskóla Íslands, eins og stendur í þessum aths.

Aðrar breytingar eru minni háttar og til samræmis við þá framkvæmdarþróun sem orðið hefur í stjórnsýslu Háskólans.

Frv. tók breytingum í Ed., en menntmn. Nd. leitaði umsagnar allmargra aðila eða: Hafrannsóknastofnunar, Rannsóknastofu háskólans í meinafræði, Orkustofnunar, Félags háskólakennara, Rannsóknaráðs ríkisins, Iðntæknistofnunar Íslands, Háskóla Íslands, Líffræðistofnunar Háskóla Íslands og Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands. Þá fékk nefndin til viðtals við sig fulltrúa frá Háskóla Íslands, menntmrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnun.

Nefndin varð sammála um að leggja fram brtt. við frv. og eru brtt. við tvær greinar frv.

Brtt. við 2. gr.: Í fyrri mgr. er lagt til að opnuð sé heimild til að flytja dósent í prófessorsstöðu. Fyrir var í þessari lagagrein heimild til að flytja lektor í dósentsembætti.

Tillaga um þetta efni var samþykkt af háskólaráði í september 1982. Í umsögnum félags háskólakennara og Raunvísindastofnunar háskólans um frv. er vakin athygli á nauðsyn þess að opna dósentum og forstöðumönnum háskólastofnana leið til stöðuhækkunar og á þann hátt að veita starfsmönnum viðurkenningu á grundvelli hæfni. Kostnaðarauki yrði í flestum tilvikum lítill, stundum enginn.

Rétt er að taka fram að slíkur tilflutningur í dósents- og prófessorsstöður er bundinn við einstaklinga, þannig að þegar viðkomandi einstaklingur hverfur úr starfi verður staðan á ný bundin við það starfsheiti sem viðkomandi var fluttur úr.

Síðari mgr. 2. gr. er óbreytt frá því sem Ed. gekk frá henni að öðru leyti en því að í mgr. er vitnað til reglna sem gilda um flutning lektors í dósentsembætti. Þykir skýrara að hafa þá tilvitnun. Í reglugerð um Háskóla Íslands eru ákvæði um hvernig hæfni manna er metin þegar slík tilfærsla á sér stað og er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi, þ. e. sérstök dómnefnd meti hæfni manna.

Sú spurning kom upp í nefndinni til hvaða forstöðumanna greinin næði. Varð það niðurstaða nefndarinnar, að höfðu samráði við forráðamenn Háskóla Íslands, að í 2. gr. frv. til breytinga á lögum sé átt við þá forstöðumenn háskólastofnana sem skipaðir eru eða settir í forstöðumannsstarfið, svo sem háskólabókavörð, forstöðumann Orðabókar háskólans og forstöðumann Reiknistofnunar. Þessir forstöðumenn hafa um árabil notið prófessorslauna svo að ekki ætti að koma til útgjaldaauka þótt 2. gr. frv. hlyti samþykki á þennan hátt.

Forstöðumenn stofnana innan háskóladeildanna, svo sem innan líffræðistofnunar, verkfræðistofnunar, lagastofnunar, guðfræðistofnunar og rannsóknastofnana innan heimspekideildar, eru kjörnir úr hópi kennara til eins eða tveggja ára í senn og halda þeir stöðuheitum sínum. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir að þessir hreyfanlegu forstöðumenn falli undir ákvæði 2. gr. frv.

Þá er gerð brtt. við 5. gr. frv. Eru þar breytingar á báðum mgr. eins og Ed. gekk frá þeim. Ég vil fyrst taka fram að misritast hefur í vélritun eitt orð eins og nefndin gekk frá því í morgun. Ég bið hæstv. forseta að leiðrétta það, en í hinu prentaða þskj. verður það að sjálfsögðu leiðrétt og er búið að koma því á framfæri við skrifstofu Alþingis. Þar stendur í fyrri mgr.: „Í tengslum við skrifstofu Háskólans starfar þróunarmiðstöð“. (Forseti: Það á að standa þjónustumiðstöð.) Það á að standa þjónustumiðstöð, ekki þróunarmiðstöð. Í Ed. var sett sérstakt ákvæði um þróunarmiðstöð, en Háskólinn telur skýrara og eðlilegra að kalla þetta þjónustumiðstöð, enda er þetta miðstöð sem á að þjóna hinum ýmsu deildum og stofnunum Háskólans. Þessar brtt. eru gerðar að höfðu samráði við Háskóla Íslands, fjárlaga- og hagsýslustofnun og menntmrn. og skv. ábendingu í umsögnum. — Það er sem sagt lagt til að fyrri mgr. orðist svo:

„Í tengslum við skrifstofu Háskólans starfar þjónustumiðstöð sem annast gerð samninga milli aðila innan Háskólans og utan um einstök verkefni. Allir meiri háttar samningar eru háðir samþykki háskólaráðs.“

Gert er ráð fyrir að þessi miðstöð muni standa undir eigin rekstri og að tekjur hennar verði gjöld fyrir veitta þjónustu. Væntanlega yrði við gerð fjárlaga, skv. áliti fjárlaga- og hagsýslustofnunar, gert ráð fyrir þjónustumiðstöðinni sem sérstökum rekstrarlið Háskólans í A-hluta fjárlaga og móti rekstrarkostnaði yrðu færðar sértekjur sem væru jafnháar rekstarkostnaðinum því að ekki er gert ráð fyrir útgjöldum fyrir ríkissjóð vegna þessa.

Í síðari mgr. er sú meginbreyting gerð að tekin er út úr greininni heimild Háskóla Íslands til að taka þátt í öðrum félögum en þeim sem hafa takmarkaða ábyrgð. Gert er ráð fyrir að það áhættufé sem Háskólinn legði slíkum félögum til yrði fengið úr sjóðum Háskólans sjálfs, aðallega háskólasjóði, en sá sjóður hefur aðallega tekjur sínar af gjöldum manna sem eru utan þjóðkirkjunnar.

Ábyrgð Háskólans og ríkissjóð er takmörkuð þar sem teknar eru út úr frv. heimildir til að leggja fé í félög með ótakmarkaða ábyrgð. Brtt. hljóðar svo á þessari grein með leyfi hæstv. forseta:

„Háskólanum skal heimilt með samþykki háskólaráðs og menntmrh. að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stundi framleiðslu og sölu, sem lýtur að slíkri starfsemi, í því skyni að þróa hugmyndir og hagnýta niðurstöður rannsókna og þjónustuverkefna sem Háskólinn vinnur að hverju sinni.“

Eins og fram hefur komið er tilgangur þessa ákvæðis að styrkja tengsl atvinnulífsins og Háskóla Íslands og miðast að því að hagnýt þekking lokist ekki inni í Háskólanum, heldur geti hún fengið farvegi út í atvinnulífið.

Það komu fram í nefndinni nokkrar bendingar sem rétt er að koma hér á framfæri.

Í fyrsta lagi að setja þarf nánari reglur um starfssvið og starfshætti þeirra starfsmanna Háskóla Íslands sem taka þátt í slíku samstarfi. Er væntanlega eðlilegast að háskólaráð setji slíkar reglur.

Í öðru lagi var það skoðun nefndarinnar að þróunarfélög, sem Háskólinn tæki þátt í, gætu verið jafnt á sviði hugvísinda og raunvísinda.

Í þriðja lagi var vakin sérstök athygli á því að hv. nefnd barst bréf frá fyrirtækinu Pólnum hf. á Ísafirði sem lagði áherslu á að settar yrðu reglur um starfsemi þróunarfélaganna og aðild Háskólans að félögum og fyrirtækjum til að koma í veg fyrir árekstra milli Háskólans og frjálsra fyrirtækja sem vinna að rannsóknum og vöruþróun á sviði hátækniiðnaðar. Póllinn bendir á að slíkir árekstrar hafi átt sér stað milli þess fyrirtækis og Raunvísindastofnunar háskólans við þróun rafeinda- og tölvubúnaðar fyrir fiskiðnaðinn. Þessum ábendingum vil ég koma á framfæri.

Nefndin varð sammála um brtt. á þskj. 598. Hv. 3. landsk. þm. Guðrún Agnarsdóttir, sem sat fundi nefndarinnar, var samþykk þessari afgreiðslu.