20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3722 í B-deild Alþingistíðinda. (3071)

235. mál, Háskóli Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í sambandi við þetta dagskrármál og kannske mest til þess að spyrjast fyrir og fá gleggri upplýsingar í sambandi við þá breytingu sem hér er lagt til að gerð verði.

Nú vita hv. þdm. að ég er einlægur aðdáandi Háskólans og allrar þeirrar starfsemi sem þar á sér stað innan veggja. Ég sé ekki betur, og það er það sem ég vildi reyndar spyrja um, en hér sé kannske verið að fara bakdyramegin að því að opna fyrir frekari stöðuveitingar eða stöðuhækkanir án þess að til þurfi að koma samþykki fjárveitingavaldsins. Nú er vitað að verið hafa uppi nokkrir tilburðir, kannske ekki nógu miklir, af hálfu fjárveitingavaldsins til að hindra fjölgun í kennarastétt innan Háskólans. Ég óttast það, án þess að ég vilji neitt um það fullyrða, þó að ég geri ráð fyrir að hv. nefnd hafi farið vel ofan í þau mál, að verið sé að opna bakdyramegin fyrir því að Háskólinn geti sjálfur ráðið hversu mikið hann eykur útgjöld vegna þessarar starfsemi án þess að fjárveitingavaldið komi þar nærri. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi frekar að draga úr á þeim tímum sem við nú lifum á, í þeim þrengingum, en að opna eigi bakdyraleiðir til þess að þessi stofnun geti frekar en aðrar gengið á skjön við ákvarðanir fjárveitingavaldsins.

Í öðru lagi hef ég nokkrar aths. í sambandi við það sem hv. frsm. vék að síðast, að Háskólanum skuli heimilt með samþykki háskólaráðs og menntmrh. að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum er séu hlutafélög. Hann benti á að fyrirtæki vestur á Ísafirði, Póllinn hf., sem mikið hefur unnið að ýmsum þróunarverkefnum í sambandi við rafeinda- og tölvubúnað, hefur verið í nokkurri samkeppni við stofnun innan Háskólans sem hefur verið fjármögnuð af ríkisfé. Mín spurning er því sú: Er ekki hér verið að halda frekar út á þá braut að auðvelda einhverjum stofnunum innan Háskólans með fjárframlögum úr ríkissjóði að etja kappi við aðila sem fyrir eru í þessum þróunarverkefnum? Sé svo, sem ég óttast að verði, er mín skoðun að það sé af hinu verra og ég er andvígur því. Ég er að því leytinu einkaframtaksmaður, sem mér virðist nú vera farið að minnka um í hugum ýmissa þeirra sem hafa haft það hugtak framarlega á vörum undangengin ár, að ég vil leyfa þeim sem þegar eru fyrir í þessum þróunarverkefnum, hafa lagt á sig bæði erfiði og lagt fjármagn til þeirra án þess að njóta stuðnings hins opinbera, að hafa forgang, en vera ekki að stofna til samkeppni, sem fjármögnuð er af ríkissjóði, til þess að etja kappi við þau mörgu ágætu fyrirtæki sem unnið hafa að þróunarverkefnum.

Um þetta vil ég ekki fullyrða, en ég vildi gjarnan fá um það, ef hægt er, óyggjandi upplýsingar frá hv. nm. hvort tryggt sé að hér sé ekki verið að fara bakdyramegin að fjárveitingavaldinu og Alþingi í sambandi við stöðuhækkanir, stöðubreytingar og hvort hér sé ekki verið að fara þá leið að Háskólinn eða einhverjar stofnanir hans etji kappi við aðila í þróunarverkefnum, sem unnið hafa að slíkum verkefnum þó nokkurn tíma, og Háskólinn geri það með stuðningi eða fjárframlögum úr ríkissjóði.