20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3723 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

235. mál, Háskóli Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að þingheimur tekur nú til umfjöllunar og ræðir málefni Háskóla Íslands. Eins og áður hefur komið fram hér í vetur er það fátíður viðburður á síðari árum að málefni æðstu menntastofnunar þjóðarinnar komi inn í þingsali og er það reyndar nokkurt undrunarefni þegar að því er hugað hversu miklu máli Háskólinn skiptir í menntalífi og öllu menningarlífi og jafnvel atvinnulífi þjóðarinnar.

Ég held að hugleiðingar hv. síðasta ræðumanns séu í sjálfu sér réttmætar. Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvaða áhrif það hefur á stöðu annarra aðila á sama sviði þegar Háskólinn með sínum sérfræðingum tekur þátt í stofnun fyrirtækja til að sinna þessum verkum. Ég hygg þó að eins og gerðar eru tillögur um að breyta þessu frv. hér og nú sé þó að verulegu leyti brugðist við þeim efasemdum sem menn höfðu uppi í umr. um þetta mál við 1. umr. hér í hv. Nd. Við tókum þá til máls hér, einhverjir hv. þm., og töldum óhjákvæmilegt að staldra við og skoða betur það frv. sem þá var á leiðinni hraðbyri í gegnum þingið og lögðumst gegn því að það fengi fljóta ferð í gegnum síðari deild og mæltum með því að það yrði sent aftur til umfjöllunar og skoðunar, m. a. í Háskóla Íslands. Ég held að það hafi sýnt sig að málið hafði stórlega gott af þeirri skoðun sem það fékk í hv. menntmn. Nd. og það hafi verið rétt að flýta sér rólega í þessum efnum.

Ég er fyrir mitt leyfi miklu sáttari við frv. að þeim breytingum gerðum sem menntmn. leggur til og tel að í sjálfu sér, þegar búið er að setja inn ákvæði um takmarkaða ábyrgð þeirra fyrirtækja sem Háskólinn gerist aðili að, sé að verulegu leyti séð fyrir þeim hættum sem hv. 3. þm. Vestf. var að víkja að.

Hann sagði að fjárveitingavaldið hefði verið bremsa á fjölgun stöðugilda innan Háskóla Íslands. Sjálfsagt er það alveg rétt hjá honum. Ég er honum að því leyti þó ekki sammála. Ég held að sú bremsa hafi verið allt of stíf og legið á Háskólanum af allt of miklum þunga og komið í veg fyrir að hann þróaðist og breyttist eins og nauðsynlegt er. Það þarf ekki annað en að skoða hversu margir í stöðugildum innan Háskólans eru nú lausráðnir starfskraftar og hversu óeðlilega mikil stundakennsla er þar til þess að sjá að slík menntastofnun fær naumast þrifist á eðlilegan hátt við þær aðstæður. Ég held þvert á móti að menn verði að gera sér grein fyrir því að Háskólinn verður og á að þróast og þarf að hafa heimildir og möguleika til að taka upp kennslu í nýjum greinum.

Það eru haldnar hér margar og fagrar ræður um hátækni og ýmiss konar framsókn á sviði æðri menntunar og þar sé lykilinn að finna að framtíðinni.

Ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, að alltaf verð ég svartsýnni á það, eftir því sem ég hlusta á fleiri svona ræður, að menn meini eitthvað með þessu eftir því sem á sama tíma er þrengt meira að menntun og skólahaldi í landinu. Ég held að svoleiðis tvískinnungur gangi einfaldlega ekki upp. Og talandi um rafeindaiðnað og lífefnaiðnað og framsókn í þessum hátæknigreinum, þá hljóta menn, ef þeir meina eitthvað með tali sínu, jafnframt að vera tilbúnir að efla menntastofnun eins og Háskóla Íslands í það minnsta á þessum sviðum.

Það væri ástæða til þess, herra forseti, að þm. fjölmenntu í fundarsal Nd. og tækju nú myndarlega þátt í umr. um málefni Háskóla Íslands. Ég veit að það þættu góðar fréttir og ég er viss um að fréttabréf Háskólans mundi lengjast um helming við þau gleðilegu tíðindi, en það hefur valdið mönnum nokkrum áhyggjum uppi þar hversu tómlátir þm. hafa verið um málefni Háskólans.

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta efni, en lýsi því hér yfir að ég tel þær brtt. sem menntmn. leggur til við frv. ganga í rétta átt og er sæmilega sáttur við þessi nýmæli eins og þau liggja þar fyrir. Ég vonast til þess að hv. Ed. fagni einnig þeirri ítarlegu og vandlegu umfjöllun sem Nd. tók að sér í sambandi við þetta mál.