20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3729 í B-deild Alþingistíðinda. (3077)

235. mál, Háskóli Íslands

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki reyna að koma í veg fyrir að þetta mál fái endanlega afgreiðslu í þessari umr., en mér finnst ekki sæmandi að jafneinlægur aðdáandi Háskóla Íslands og hv. 3. þm. Vestf. gangi í þeirri villu að halda að þessi heimild til handa Háskólanum um stöðuflutning þýði sjálfkrafa hærri ávísanir út úr launadeild fjmrn. Það er ekki svo. Og þó svo væri mundi það kannske ekki gera mikið til og yrði ekki öllum harmsefni. En að sjálfsögðu er þetta ekki það sama og samþykkt stöðugildi af hálfu fjárveitingavaldsins, að sjálfsögðu ekki, hv. þm. og fulltrúi í fjvn. Háskólinn þyrfti eftir sem áður að afla sér aukinna fjárveitinga til að standa straum af auknum útgjöldum sem þessu næmi. Hér er fyrst og fremst um að ræða, eins og áður hefur komið fram, ákveðna viðurkenningu og bætta starfsaðstöðu þessara manna. Það er minni kennsluskylda og bætt starfsaðstaða sem í þessari viðurkenningu felst.

Í sambandi við rannsóknir kemur mér það spánskt fyrir sjónir ef ákveðnir menn hér inni eru allt í einu orðnir svona hræddir við samkeppni. Hvað um það þó að það yrði einhver samkeppni um rannsóknir á Íslandi og menn færu í kapp um að betrumbæta framleiðsluaðferðir og ýmislegt í þeim dúr? Það er alveg nýtt ef menn eru farnir að harma það og óttast það óskaplega ef hugsanlega yrði einhver samkeppni um þetta. Verkefnið er svo mikið og sviðið er svo vítt að ég hef enga ástæðu til að ætla að menn þurfi að vera að troða skóinn hver ofan af öðrum í þessum efnum. Ég lít ekki svo á að þetta sé sett til höfuðs þeirri rannsóknastarfsemi sem unnin er annars staðar í þjóðfélaginu, nema síður sé. Þetta yrði þvert á móti, að mínu mati, til að efla hana, auk þess sem það eru nóg verkefni handa miklu fleiri mönnum í rannsóknum á Íslandi en hægt er að sinna miðað við fjárveitingar og mannafla á þessum vettvangi í dag.