20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3730 í B-deild Alþingistíðinda. (3078)

235. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að eiga annað erindi hér í ræðustól en einungis að þakka hv. menntmn. fyrir mjög ítarlega umfjöllun um þetta mál, fyrir afgreiðslu á málinu og hv. þm. fyrir þeirra undirtektir. Ég sé ástæðu til þess að taka sérstaklega fram að ég hygg að hér séum við í raun og veru með langtum mikilvægara mál í höndum og áhrifaríkara fyrir ýmsar framfarir í þjóðlífi okkar en lengd þess og greinafjöldi gefur tilefni til að ætla.

Ég sé ástæðu til þess, þó að það komi kannske ekki beinlínis þessu máli við, að nefna eitt lítið atriði sem kom fram í máli hv. 10. landsk. þm. þar sem hún vék að öðrum hv. þm. og kvað hann lítt skilja þá sem við andlegu iðju fengjust. Mér finnst einhvern veginn að gefnu tilefni vera ástæða til að minna á að allir þm. sinna andlegri iðju. Það er eðli þingstarfa.

En burtséð frá því var aðalerindi mitt, herra forseti, að þakka hv. menntmn. fyrir umfjöllun og góðar tillögur í sambandi við þetta mál.