20.03.1985
Neðri deild: 49. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3730 í B-deild Alþingistíðinda. (3079)

235. mál, Háskóli Íslands

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það skal vera örstutt.

Ég kann illa við að þm. séu að gera mér upp skoðanir þó að ég taki því með jákvæðu hugarfari að hv. þm. Guðrún Helgadóttir sé kominn nálægt mér í hugsanagangi, hugsi hlýtt til mín á öllum sviðum, að ég hygg, eftir þessu tali.

Varðandi andlegt álag. Það er hægt að hugsa sér margs konar andlegt álag. Ég veit ekki hvaða andlega álag þessi hv. þm. var að meina. Hún verður að skýra það frekar. Það er til margs konar andlegt álag, hv. þm.

Varðandi það sem hv. þm. Steingrímur Sigfússon sagði, þá er ekkert í þessu frv. eða þessum tillögum sem kemur í veg fyrir að Háskólinn geti farið sínu fram, sýnist mér. Ég hygg að það séu dæmi þess t. d. að Háskólinn hafi tekið bankalán til reksturs síns. Hver segir að ekki sé hægt að taka lán í einhverjum ríkisbankanna eða öðrum banka til að hækka laun um 3–4 launaflokka? Ég sé ekki að það sé neitt sem kemur í veg fyrir það, eftir þessum tillögum sem hér er um að ræða, þannig að enn stend ég á þeirri meiningu að hér séu menn að opna heimildir bakdyramegin til þess að ganga á snið við fjárveitingavaldið.