25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

14. mál, frysting kjarnorkuvopna

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég kveð mér ekki hljóðs til að hefja efnislegar umr. um þær tillögur sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Ég vísa til ummæla hv. síðasta ræðumanns sem skýrði óvenjulega stutta ræðu sína með því að um þessi efni hefðu farið fram umr. á síðasta þingi.

Í því sambandi vil ég taka fram að á þessu þingi hefur, auk þeirrar þáltill. sem hér er á dagskrá og þeirrar brtt. á þskj. 97 sem gerð hefur verið grein fyrir, verið borin fram till. til þál. á þskj. 105 um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar sem hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson er 1. flm. að. Ég minni á að þessar tillögur eru með líkum hætti og tillögur sem lagðar voru fram á þingi í fyrra og voru til meðferðar í utanrmn. ásamt og með öðrum till. er fjölluðu um afvopnunarmál. Ég tel eðlilegt að utanrmn. fjalli um þessar till. nú og kanni til hlítar hvort ekki er unnt að komast að sameiginlegri niðurstöðu varðandi afgreiðslu þessara till. og afstöðu Íslendinga og Alþingis Íslendinga til afvopnunarmála. Ég stóð í þeirri meiningu á síðustu dögum síðasta þings að það vantaði aðeins herslumuninn á það að í ljós kæmi hvort slík samstaða næðist eða ekki og undir öllum kringumstæðum mundi þá koma fram, vonandi greinilega, í hverju skoðanamunur þm. væri fólginn.

Það liggur í augum uppi að hér er drepið á einhver mikilvægustu mál sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna glímir við og sem raunar öll heimsbyggðin þarf að snúa sér að með þeim hætti að til lausnar verði og friðvænlegar horfi í heiminum. Það blandast hins vegar engum hugur um að hér er um mjög flókin mál að ræða.

Ég hef drepið á það, í ræðu minni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í s.l. mánuði, að tugir tillagna um afvopnunarmál voru fluttar á allsherjarþinginu síðasta og þær gengu töluvert á misvíxl, en voru meira og minna samþykktar. Í þessum tillögum fólust í raun og veru orðin tóm. Það sem á skorti var að reynt væri að ná samkomulagi milli mismunandi skoðana og mismunandi leiða er leiddu til raunverulegrar afvopnunar. Ég minntist á það hér í fyrra í umr. um þessi mál og hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir vitnaði réttilega í þau ummæli mín, að hér veltur á mestu að stórveldin tvö, kjarnorkuveldin, Sovétríkin og Bandaríkin, kæmu sér saman í þessum efnum og a.m.k. samþykktu að ræða um þessi mál í þeim tilgangi að komast að niðurstöðu um hvernig með þau skyldi fara. Það hefur því miður ekki verið svo að unnt hafi verið að koma á viðræðum þessara ríkja eftir að Sovétríkin slitu viðræðunum um meðaldrægar eldflaugar í Evrópu og höfnuðu því að ákveða næsta fund varðandi svokallaðar „Start“ viðræður.

Ég er sammála því, sem hér kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, að það er auðvitað ekki fullnægjandi þótt menn yrðu sammála um að unnt væri að frysta kjarnorkuvopnabúnað. Það þarf að taka afstöðu til afvopnunar í heild sinni. Þess vegna eru mér það vonbrigði t.d. að í grg. þm. Kvennalistans er þannig orðum farið um núverandi aðgerðir Atlantshafsbandalagsins og Sovétmanna að það er eins og Atlantshafsbandalagið og Bandaríkin hafi hafið það kapphlaup með því að ákveða að setja skuli niður Pershing- og stýrieldflaugar í Evrópu, en síðan hafi Sovétmenn ákveðið að staðsetja SS-20 eldflaugar í löndum Varsjárbandalagsins. Þarna er alveg gleymt að geta þess að ástæðan til hinnar tvíþættu samþykktar Atlantshafsbandalagsins var sú að Sovétmenn settu niður eina SS-20 kjarnorkueldflaug á viku hverri um margra ára skeið án þess að Atlantshafsbandalagsríkin aðhefðust eitt eða neitt sem svar við þeim kjarnorkuvopnabúnaði Sovétmanna. Ég skal ekki rifja þá sögu frekar upp, en ég tel að menn verði að horfa á þessi mál öll í heild. M.a. hefði ekki verið úr vegi í grg. þáltill. Kvennalistans að geta þess að Atlantshafsbandalagið hefur boðið það fram til þess að stöðva kapphlaupið, ef svo má nefna, að settar séu niður kjarnorkueldflaugar í Evrópu, að stórveldin og Atlantshafsbandalagsríkin og Varsjárbandalagsríkin kæmu sér saman um að fjarlægja og nema brott allar kjarnorkueldflaugar í Evrópu. Það tilboð stendur enn þá. Mér finnst ástæða til þess að í till. sem afgreidd yrði hér á Alþingi yrði afstaða tekin til þess tilboðs Atlantshafsbandalagsríkjanna t.d., en umfram allt sé í till. sem Alþingi samþykkti um það fjallað hvernig eigi ekki eingöngu að stöðva eða frysta kjarnorkuvopnabúnað í heiminum heldur og hvernig eigi að feta sig eftir þeirri vandrötuðu leið að afvopnast og þá ekki eingöngu á sviði kjarnorkuvopnabúnaðar, heldur og svokallaðs hefðbundins vopnabúnaðar.

Sannleikurinn er sá, að jafnsammála og við getum öll verið hv. þm. Guðrúnu Agnarsdóttur um voða kjarnorkustríðs, þá er sá voði sem við blasir af völdum hefðbundins vopnabúnaðar einnig svo ægilegur að við getum ekki heldur hugsað okkur að til stríðsátaka kæmi sem takmörkuð væru við hefðbundinn vopnabúnað. Í síðustu heimsstyrjöld féllu 51 millj. manna með þeim hætti og frá stríðslokum hafa fallið 11 millj. manna í svokölluðum hefðbundnum stríðsátökum annars staðar í heimi en hér í Evrópu. Þarna er um slíkar ógnir að ræða, sem að litlu leyti standa að baki kjarnorkuátökum, að við verðum að hyggja að slíkum möguleika einnig þegar við fjöllum um afvopnunarmál.

Hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir nefndi það að ýmis þjóðþing og m.a. á Norðurlöndum hefðu fjallað um afvopnunarmál og samþykkt tillögur í þeim efnum. Það er alveg rétt. En flest hafa þessi þjóðþing annaðhvort gert það að undangenginni könnun og rannsókn á ýmsum leiðum til afvopnunar eða einmitt með þeim hætti að samþykkja að setja niður þingnefnd er beinlínis gerði tillögur um hvernig þjóðir eins og Norðurlandaþjóðir, smáþjóðir miðað við stórþjóðir eins og kjarnorkuveldin, gæfu lagt lóð sitt á vogarskálina til þess að stuðla að raunhæfri afvopnun í heiminum. Ég tel að það komi mjög vel til greina, ef utanrmn. tekst ekki að komast að samkomulagi í þessum efnum, að freista þess þó að Alþingi setji niður slíka nefnd, þótt hún ætli sér einhvern lengri tíma til verksins en þetta þing stendur, til þess að við getum með raunhæfum hætti áttað okkur á hvað árangursríkast yrði til þess að stuðla að afvopnun og friðvænlegri heimi en við nú búum í.