21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3085)

367. mál, fjáraukalög 1980

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til fjáraukalaga, þskj. 587. Þessi fjáraukalög eru fyrir árið 1980. Lagt er til að heimiluð séu viðbótargjöld við 2. gr. fjárlaga fyrir árið 1980 að fjárhæð 53 millj. 45 þús. 22 kr. Ríkisreikningar fyrir árið 1980 hafa verið lagðir fram. Niðurstöður gjalda á A-hluta ríkissjóðs á árinu 1980 nema 378 millj. 985 þús. 371 kr. sem er 35 millj. 745 þús. 319 kr. hærri fjárhæð en fjárlög þess árs gerðu ráð fyrir. Tekjur A-hluta ríkissjóðs námu á árinu 1980 392 millj. 882 þús. 505 kr. sem er hækkun frá fjárl. fyrir 1980 um 46 millj. 705 þús. 201 kr.

Yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna hafa afhent fjmrn. tillögur sínar til fjárveitinga á fjáraukalögum fyrir árið 1980, en leggja til að aukafjárveitingar séu veittar fyrir öllum umframgjöldum sem ríkisreikningur 1980 sýnir.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál, en legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. fjvn.