21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3732 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

21. mál, Ríkismat sjávarafurða

Frsm. meiri hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur haft til meðferðar till. til þál. um að leggja niður starfsemi Ríkismats sjávarafurða. Nefndin hefur fengið umsagnir frá allmörgum aðilum eða Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Ríkismati sjávarafurða, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, Samlagi skreiðarframleiðenda, Félagi Sambands fiskframleiðenda og Landssambandi ísl. útvegsmanna.

Hér á síðasta Alþingi eða fyrir fáeinum mánuðum voru samþykkt ný lög um Ríkismat sjávarafurða og tóku þau gildi þann 1. ágúst s. l. Þau hafa því aðeins verið í gildi í rúma sjö mánuði. Þótt um það megi deila hvernig slíku mati má fyrir koma verður að telja að enn hafi ekki fengist nægileg reynsla fyrir framkvæmd hinna nýsettu laga og því leggur meiri hl. n. til að till. verði afgreidd með svohljóðandi rökstuddri dagskrá:

„Þar sem síðasta löggjafarþing samþykkti lög um Ríkismat sjávarafurða sem tóku gildi 1. ágúst 1984 og Alþingi hefur með því svo nýlega lýst vilja sínum um það hvernig málum þessum skuli háttað sér Alþingi ekki ástæðu til sérstakrar ályktunar um mál þetta nú og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Rétt er að taka fram að í umsögnum hinna mörgu aðila sem ég gat um áðan koma fram mjög mismunandi skoðanir um hvernig rétt sé að haga Ríkismati sjávarafurða. Hins vegar eru allir þeirrar skoðunar að einhvers konar stofnun verði að vera fyrir hendi sem fari með mat af hálfu ríkisvaldsins á sjávarafurðum. Í þessu áliti meiri hl. atvmn. felst ekkert mat á því hvort breyta eigi núgildandi lögum um þetta efni. Það verður reynslan að skera úr um. Við vekjum athygli á því að till. fjallar um að leggja þessa starfsemi niður með öllu. En við leggjum ekkert mat á það í þessari till okkar um málsmeðferð hvort breyta eigi núgildandi lögum eða ekki.

Mér þykir einnig rétt að taka fram: Það segir í nál., sem fram hefur komið af hálfu minni hl. n., að ríkisstj. sé engan veginn reiðubúin til að breyta starfsháttum sínum, t. d. með því að draga úr miðstýringu og opinberum tilkostnaði og með því að hætta afskiptum af verðlagningu vöru í viðskiptum milli aðila. Ekkert slíkt felst í þeirri afstöðu sem fram kemur í okkar nál. Og ég vil vekja athygli á því að Bandalag jafnaðarmanna greiddi atkv. með og stóð að því frv. um Ríkismat sjávarafurða sem við samþykktum hér á vordögum.