25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

14. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. orð hans, en mig langar að gera nokkrar aths.

Utanrrh. hæstv. minntist á grg. þessarar till. Kvennalistaþm. og taldi að þar væri ekki nægilega skýrt rakinn ferill stigmögnunar vígbúnaðarkapphlaupsins. Það væri nær ótæmandi verkefni að ætla sér að gera það, að rekja þennan feril allt frá byrjun. Maður gæti spurt sig hvers vegna Sovétríkin hefðu sett upp þessar SS-20 eldflaugar, eina á viku. Hverju voru þau að svara þá? Voru þau e.t.v. að svara því sem þau dæmdu og álitu vera mun hættulegri og meiri vopnastyrk hins stórveldisins, Bandaríkjanna, þar sem eru kjarnorkueldflaugar í kafbátum, sem eru hreyfanlegir, erfitt að miða út, mun skæðari en landgrafnar sprengjur Sovétríkjanna. Gæti það verið? Síðan gætum við farið aftur til Bandaríkjanna og veli fyrir okkur hvers vegna þau væru að setja eldflaugar í kafbáta. Við gætum haldið endalaust áfram. Ég tel það ástæðulaust.

Aftur á móti held ég að flestir mundu samþykkja að þessi tvíþætta ákvörðun Atlantshafsbandalagsins var afgerandi áfangaþróun, því að þetta vígbúnaðarkapphlaup á sér ákveðna þróun sem fer fram í áföngum, og þessi áfangi var svo afgerandi að fólkið í Evrópu stóð upp og það fór að ganga. Það gekk um göturnar og það mótmælti. Það sat ekki heima hjá sér í hægindastólum og hafði þar skoðanir. Það kom saman og því fannst þessi áfangi svo afgerandi að það stóð upp einmitt til að mótmæla honum, til þess að stigmögnunin héldi ekki áfram. Og þess vegna tel ég nauðsynlegt að undirstrika, án þess að firra hitt stórveldið allri sekt, það er ekki meiningin. Það er ekki meiningin að annar sé góður og hinn sé vondur. Það er ekki hvítt og svart. Það er meira og minna grátt og stórhættulegt hvort tveggja, að mínu mati.

Síðan minntist hæstv. utanrrh. á annars vegar hefðbundin vopn og hins vegar kjarnorkuvopn. Það hvarflar ekki að mér að réttlæta eða afsaka eða þykja eitthvað skárra ef fólk deyr fyrir hnefa, rakhníf eða sverði, það hvarflar ekki að mér, það er jafnslæmt. En eðlismunurinn er sá að kjarnorkuvopn drepa ekki bara þessar 51 millj. eða hvað þær voru margar milljónirnar sem hafa dáið síðan í síðustu heimsstyrjöld. Þau eyða e.t.v. öllu lífi á þessari jörð. Það er það sem verið er að tala um. Það er eðlismunur, alger eðlismunur. Ég vildi fús taka þátt í því með hæstv. utanrrh. að fjarlægja öll vopn af öllu tagi, en kjarnorkuvopn eru mesta ógnin sem við okkur blasir og það er þess vegna sem verið er að tala um hana og það er þess vegna sem verið er að flytja tillögur um hana, af því að fólk er lifandi skelfingar dauðans hrætt og það vill ekki að öllu lífi verði útrýmt á þessari jörð. Ég tel nauðsynlegt að allar þjóðir heimsins utan þessara stórvelda standi að því að mynda þrýsting á stórveldin. Eru þau alls ráðandi? Eru engir hagsmunir sem hægt er að þrýsta á til að hafa áhrif á stórveldin? Eru einhverjir hagsmunir sem eru stærri heldur en þessir hagsmunir að lifa af? Ég spyr. Og hverra eru þeir hagsmunir sem ekki má hreyfa til þess að þrýsta á þessi stórveldi? Og menn þrýsta ekki á stórveldi með því að sitja hjá. Menn þrýsta á stórveldi með því að mótmæla.