21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3756 í B-deild Alþingistíðinda. (3095)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Á Íslandi hefur umræðan um varnarmál einkennst af tvenns konar málflutningi: annars vegar gegn veru Íslands í NATO, sem Alþb.-menn hafa haldið á loft, en hins vegar með veru Íslands í NATO þar sem sjálfstæðismenn og Morgunblaðið hafa látið mest til sín taka. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland eigi að vera í NATO með þeim þjóðum sem við höfum mest samskipti við, bæði á sviði menningar og efnahagsmála, að ógleymdri legu landsins. Það kann einhver að hugsa með sjálfum sér: Hvað er hún eiginlega að fara? Hún er með veru Íslands í NATO, en samt á móti ratsjárstöðvum sem NATO telur nauðsynlegt að byggja hér. Hv. 5. landsk. þm. kom að þessu áðan, en ég mun svara honum seinna.

Það er að mínu mati aðalatriðið hvort Íslendingar telji þessar ratsjárstöðvar nauðsynlegar vegna varna landsins eða hvort þær séu einn þáttur í hernaðarkapphlaupi stórveldanna. Hæstv. utanrrh. hefur lagt aðaláhersluna á að mikilvægi þessara ratsjárstöðva sé það hversu öryggi sjófarenda mundi aukast með tilkomu þeirra auk þess sem nú kemur í ljós að flugumferð yfir landinu er ekki eins örugg og fyrr var haldið. Er því talið brýnt að koma upp þessum rafsjám. Ef þetta eru fyrst og fremst rökin fyrir nýjum ratsjárstöðvum eigum við Íslendingar að koma þeim upp án afskipta NATO. Það er í hæsta máta óvirðing við hv. Alþingi að upplýsingar um hernaðarlegt gildi þessara ratsjárstöðva heyrast ekki fyrr en sótt hefur verið um fjármagn í Bandaríkjunum til að byggja þessar stöðvar, en eins og kunnugt er fáum við af og til fréttir af fundum bandarískra þingnefnda í blöðum eða útvarpi þar sem mikilvægi þessara stöðva er skilgreint. Þetta tel ég óviðunandi. Við Íslendingar eigum að hafa okkar hernaðarráðgjafa til að geta vegið og metið sjálf nauðsyn þeirra framkvæmda sem áformaðar eru á vegum NATO. Við eigum að leggja sjálfstætt mat á hvað Íslandi er fyrir bestu varðandi varnir landsins. Við eigum ekki eingöngu að láta segja okkur hvað er nauðsyn og hvað ekki varðandi varnir landsins.

Það hefur ekkert það komið fram í rökum stjórnvalda varðandi þetta mál að ég sjái minnstu ástæðu til þess að auka við hernaðaruppbyggingu hér á landi. Ég tel að stjórnvöld komist ekki hjá því að taka tillit til þess fólks sem mótmælir þessum stöðvum. Þetta er ekki pólitísk andstaða, heldur andstaða við uppbyggingu hernaðarmannvirkja sem almenningur sér ekki ástæðu til að reisa. Ég hef vissulega sem meðflutningsmaður á þessari till. lýst mig andstæðing hernaðarratsjárstöðva. Ég skal fúslega viðurkenna hér og nú að ef fram kæmu haldbærar sannanir fyrir því að hér væri um mikilvægan öryggisútbúnað að ræða fyrir Ísland og við værum í hættu tæki ég mína afstöðu til endurskoðunar.

Hæstv. utanrrh. sagði áðan að Íslendingar vildu lifa frjálsir og í friði í þessu landi. Þetta er hverju orði sannara. En við má bæta að Íslendingar vilja taka sjálfstæðar ákvarðanir. Við viljum hafa eitthvað um það að segja hvernig vörnum landsins er háttað. Við viljum ekki taka við ákvörðunum erlendis frá án þess að geta lagt á þær sjálfstætt mat. Það gerum við ekki fyrr en Ísland hefur sérfræðingum á að skipa innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta er að vísu gert í einhverjum mæli, en þarf að auka til þess að tryggja að við getum fylgst nægjanlega vel með og tekið sjálfstæðar ákvarðanir, byggðar á þekkingu Íslendinga. Þá mundu hv. þm. væntanlega tala um annað en Rússagrýlu. Hv. 5. landsk. þm. mundi þá tala um annað en Rússagrýlu og hvort allir þm. Bandalagsins séu sammála í þessum efnum og snúa sér kannske að því hvort nauðsynlegt sé að byggja upp þessar stöðvar hér á landi og í hvaða tilgangi.

Hæstv. ráðh. nefndi enn fremur að þessar ratsjárstöðvar hefðu mikið gildi varðandi tilkynningarskyldu skipa: Ég spyr hæstv. ráðh.: Á hvaða hátt koma þær ratsjárstöðvar sem nú eru í landinu og reknar á vegum hersins að gagni við tilkynningarskyldu skipa? Ég tel það skýlausa kröfu til hæstv. stjórnvalda að tekið sé mark á skoðunum heimamanna, bæði á Vestfjörðum og Norðurlandi eystra, varðandi uppbyggingu hernaðarmannvirkja og málið sé rætt opinskátt, en ekki breitt yfir með þeim rökum að ratsjárstöðvar þessar séu nauðsyn varðandi skipaumferð eða flugumferð. Það er aðalatriðið að við vitum þá um hvað er að ræða og hvers vegna þarf að reisa þessi mannvirki hér og nú.