21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3759 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Sú þáltill., sem hér er til umr., fjallar í raun ekki aðeins um það afmarkaða atriði sem þar er greint frá heldur um veru okkar í Atlantshafsbandalaginu eða ekki veru. Við höfum tekið á okkur ákveðnar skuldbindingar með því að ganga í bandalag frjálsra vestrænna þjóða, sem reynst hefur friðarbandalag, virkilegt friðarbandalag sem tekist hefur að treysta friðinn, viðhalda friðnum í okkar heimsálfu til þessa. Grundvöllur fyrir þessum árangri er sá að viðbúnaður gegn hugsanlegri árás hefur verið góður og alltaf í fyllsta takt við tímann. Við höfum það alveg fyrir okkur hverjir eru gegn þessum vörnum, hverjir eru gegn varnarbandalagi vestrænna þjóða og nota til þess hvert tækifæri á fætur öðru, jafnvel smámál eins og radarstöðvar, smámál eins og herra Arkin kjarnorkusérfræðingur eða athugunarmaður nefndi það.

Ég er þeirrar skoðunar að fyrst við tökum þá ábyrgð á okkar hendur að vera aðilar að Atlantshafsbandalaginu þá eigum við að vera þar traustir aðilar, traustir bandamenn. Ég legg áherslu á það að hvað eina, sem Atlantshafsbandalagið fer fram á að gert verði hér í vörnum landsins, er borið undir íslensk stjórnvöld og annað er ekki framkvæmt en það sem þar er leyft.

Ég tel að það sé höfuðnauðsyn að við höfum sem allra bestar varnir. Rétt er að segja frá því að nú fyrir nokkru átti ég þess kost ásamt utanrmn. að skoða þau mannvirki sem eru á Keflavíkurflugvelli. Ég fór þangað ásamt þessari nefnd að stað sem nefndur er Rockville á Miðnesheiði. Hvar ég stóð við hliðina á flm. þessarar till., Steingrími Sigfússyni, í radarstöð einni í Rockville kom mér í hug: Hvernig í ósköpunum má það vera að sá viðbúnaður, sem þar er, er 30 ára gamall, úrelfur búnaður? Miklu frekar leitaði á mig sú hugsun að þessi búnaður væri ekki nógu góður til þess að sinna því sem þarf að sinna og tel ég að endurnýja þurfi þann búnað og færa til nýtískutækni.

Það mál sem hér liggur fyrir, þ. e. bygging radarstöðva, er í raun smámál, öryggismál, og lýtur að því að endurnýja og bæta það eftirlit sem við höfum þegar á að skipa. Ég tel hins vegar að það þurfi að vera ljóst að fiskiskip og veðurþjónusta geti haft gagn af þessum radarstöðvum, en það mun tryggt eftir því sem mér er tjáð. Ég ætla ekki að fara að endurtaka ýmislegt af því sem hér hefur komið fram. En ég verð að játa það að rökstuðningur fyrir andstöðu við þessar ratsjárstöðvar finnst mér oft á tíðum afar kúnstugur og ruglingslegur.