21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3760 í B-deild Alþingistíðinda. (3098)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er e. t. v. ekki ástæða til að lengja þessa umr. en mig langar þó til þess að drepa fáeinum orðum á ýmislegt sem hér hefur fram komið. Hv. þm. Björn Dagbjartsson kom hér áðan og talaði um að það væri fráleitt að tala um umræddar ratsjárstöðvar sem hernaðarmannvirki. Ég vil benda hv. þm. á að lesa skýrslu öryggismálanefndar um Keflavíkurstöðina. Þar gæti hann t. d. flett upp á bls. 29 þar sem stendur, með leyfi forseta: „Um leið og hernaðarmannvirki eins og ratsjárstöðvar gegna eftirliti á friðartímum eru þau ekki síður sett upp með hliðsjón af því sem álifið er vera möguleg atburðarás á ófriðartímum.“ Síðan getur hv. þm. lesið sér sjálfur til um framhaldið.

Hv. þm. Eiður Guðnason kom hér upp og fór stórum orðum eins og hans er vandi um málflutning minn og annarra. Hann talaði m. a. um að ekki væri mark takandi á bænarskrá Vestfirðinga vegna þess að þetta væri bænarskrá nokkurra Vestfirðinga og þar af leiðandi væri hún ekki marktæk. Mér þykir það ansi mikið þegar hv. þm. heldur því fram úr stól á Alþingi — (EG: Vill þm. ekki hafa rétt eftir þegar hún er að vitna í orð mín?) Hvað sagði hv. þm.? (EG: Ég sagði aldrei að það væri ekki mark takandi á henni, ég sagði að þetta væri bænarskrá nokkurra Vestfirðinga.) Já, ég ætla að vona að bænarskrá nokkurra Vestfirðinga sé marktæk. (EG: Það búa 10 þúsund manns á Vestfjörðum.) Já, ég ætla að vona að þessir 100 manns séu marktækir að mati hv. þm. Jafnframt vil ég benda honum á að þessir 100 munu hafa skrifað sig á bænarskrána sem fulltrúar hinna ýmsu byggðarlaga á Vestfjörðum. (EG: Hvar stendur það?) Ekki í bænarskránni reyndar. En það hefur komið fram í umræðum um þessa bænarskrá og um þetta mál. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því að samtöl eru ekki æskileg í umr. um mál eins og þetta.)

Hv. sami þm. kom hér og taldi að kjarni málsins snerist um það hvort hér skuli haldið uppi vörnum. Eins og ég sagði í upphafi máls míns eru sennilega allir þm. á hv. Alþingi sammála um að hér skuli haldið uppi vörnum. Það sem okkur greinir á um er hvernig skuli haldið uppi vörnum hér á landi. Það tók ég mjög skýrt fram í mínu máli. Og hver er sú leið sem er best til þess að við verjum það frelsi sem okkur er dýrmætt? Ég taldi bestu leiðina vera þá að hrinda af okkur og öðrum þjóðum heims þeirri ógnun sem vígbúnaðurinn er. Og hvernig gerum við það? Við gerum það ekki með því að taka þátt í aukinni hernaðaruppbyggingu heldur gerum við það með því að leggja áherslu á nauðsyn afvopnunar og sýna það með verkum okkar, bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi, að við viljum stuðla að afvopnun.

Síðan þvældi hv. þm. hér inn í þessa umr. lítt skyldu máli og las upp úr blaðagrein í Morgunblaðinu um femínisma og lét þess getið að hann skildi það alls ekki hvernig femínismi gæti verið lífsskoðun, hvernig reynsla kvenna og viðhorf, sem mótuð eru af sértækri reynslu kvenna — því sum reynsla kvenna er sértæk en ekki önnur — gætu verið viðhorf, eftir því sem mér heyrðist.

Það er út af fyrir sig ekkert undarlegt og kemur mér ekki á óvart að þessi hv. þm. skuli ekki skilja þetta og sennilega er hann ekki mjög vel lesinn í mannkynssögu því töluvert er þar rætt um femínisma þó minna sé en efni standa til. Hins vegar kemur það mér meira á óvart að hv. þm. Guðrún Helgadóttir skuli ekki skilja hvað hér er á ferðinni því sá hv. þm. er vanur að sýna meiri skilning en hv. þm. Eiður Guðnason.

Ég ætla ekki að vera langorð um þau ummæli sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir mun hafa viðhaft í útvarpinu fyrir nokkru síðan og hv. þm. Eiður Guðnason vitnaði til um þær konur sem kjósa Kvennalistann. Meginregla Kvennalistakvenna er sú að tala ekki illa um aðrar konur. Það er gamalt ráð karla til að fá konum sundrað, þannig að þær geti ekki staðið saman um hagsmunamál sín, að fá þær til að tala illa hver um aðra. Það ætta ég ekki að gera. Ég vil aðeins segja það að þessi ummæli þm. segja í raun og veru meira um hennar skoðun á konum en um skoðun nokkurs annars.

Hvernig kemur femínismi inn í umræður um ratsjárstöðvar? Er von að þm. spyrji og er von að þingheimur spyrji þar sem það var hv. þm. Eiður Guðnason sem gerði það að umtalsefni. Ég vil benda hv. þm. á það að konur ganga með börn og fæða þau í þennan heim og annast um þau líka og að við ölum ekki börn í þennan heim til þess að þau verði sprengjufóður. Það er okkar kvenlega reynsla sem segir okkur að nú verði að láta staðar numið. Það vitfirrta vígbúnaðarkapphlaup, sem geisað hefur á norðurhveli jarðar og víðar reyndar í heiminum öllum undanfarin ár, verður að stansa og við setjumst niður og segjum: Hvernig fáum við stansað það? Hvað getur lítil þjóð eins og Ísland gert? Hvernig getur hún lagt sitt af mörkum bæði heima fyrir og á alþjóðavettvangi til þess að koma í veg fyrir það að börnin okkar verði að fallbyssufóðri og að við séum ekki að ala þau í þennan heim til þess? Og við svörum: Við verðum að stöðva þessa hernaðaruppbyggingu og þetta vitfirrta vígbúnaðarkapphlaup sem yfir okkur gapir. Þess vegna viljum við ekki aukningu vígbúnaðar, hvorki hér á landi né annars staðar. Það er okkar kvenlega reynsla sem vísar okkur veginn og okkar femínismi sem liggur þar til grundvallar.