21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3763 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég vil þakka þær umr. sem hér hafa orðið um þessa till., bæði þær jákvæðu undirtektir sem hún hefur fengið af hálfu sumra ræðumanna og eins þátttöku hinna sem lýst hafa öðrum skoðunum. Ég veit ekki hversu mikið það skýrir eðli máls eða bætir um að lengja mjög úr þessu þessa umr. Það mætti vissulega fjalla efnislega ítarlega um ýmis atriði en ég tel í sjálfu sér að það hafi ekki mikið upp á sig að ræða hér hluti eins og femínisma, eins og það nú orðaðist, og ýmislegt annað sem liggur misjafnlega vítt út á grundunum og tengist þessum umr. misjafnlega mikið að mér finnst. Ég tel þó óhjákvæmilegt að fara yfir það sem nokkrir ræðumenn hafa hér sagt vegna þess að þar stangast ýmislegt á við mínar skoðanir og jafnvel þær upplýsingar sem ég þykist hafa undir höndum.

Hæstv. utanrrh. reið á vaðið og rakti aðdraganda þessa máls allítarlega. Hann fór aftur fyrir Jörund hundadagakonung og komst að þeirri niðurstöðu að það hefðu verið uppi sjóræningjar á öllum öldum og væru það enn þá. Ekki síst nú væri margur vargur á ferð, tæknivæddur og því væri nú ástæða til að hafa varann á. Síðan fór hann út í sín venjulegu ræðuhöld um vofu kommúnismans og þá óskaplegu ógn sem af henni stafaði. Það er allt í lagi með það, auðvitað er sjálfsagt að utanrrh. lýsi fyrir okkur þessari martröð sinni sem hann venjulega býr við í þessum efnum. Það er ekki hægt annað en að votta honum fyllstu hluttekningu með það hversu þungt þetta liggur á hans huga. Ég geri það hér með. Ég tek undir það að nokkru leyti. Ég er í hópi þeirra sem hafa áhyggjur af því að lýðræðissneytt stórveldi eins og Sovétríkin sé hervætt og kjarnorkuvopnavætt og ógni heimsfriðinum. Vissulega gerir það það og sjálfsagt er ekki mikill munur á skoðunum okkar utanrrh. hvað það varðar. En sá kann að vera munur á að ég lít til þess að þeir eru ekki einir á ferð, Sovétmenn. Það eru fleiri sem eiga kjarnorkuvopn og fleiri eru stórveldi og ég held að Ísland hljóti, eins og aðrar þjóðir, stórar og smáar, og við Íslendingar, eins og aðrir íbúar þessa hnattar, að hafa allir sameiginlega áhyggjur af því hvern veg þetta er komið. Deilur um það hvor á þarna sök, alla eða hluta af henni, finnast mér í sjálfu sér ekki aðalatriðið. Hitt er staðreynd máls að við búum í heimi kjarnorkuvopna og við búum við vígbúnaðarkapphlaup og við hljótum, eins og Vestfirðingar segja í sinni bænarskrá, að leita leiða til að snúa farnaði veraldar af þeirri braut.

Ég er alveg ósammála þeirri heimsmynd sem hæstv. utanrrh. leggur til grundvallar sinni umfjöllun um þetta mál, þeirri kaldastríðsheimsmynd sem hann virðist ákaflega haldinn af, ef ég má nota það orðalag, herra forseti. Ég held að uppi séu nýir tímar einmitt í þessum málum vegna þess að almenningur víða um lönd er í vaxandi mæli að rísa upp, lýsa vantrú sinni á þær leiðir sem hingað til hafa verið reyndar til afvopnunar, ósköp einfaldlega vegna þess að hvað sem líður 30 ára friðarbandalagi og öðru slíku hefur þetta allt stefnt í ranga átt. Það er bæði almenningur og þjóðir að gera sér æ betur ljóst. Þess vegna er uppi krafa um frumkvæði almennings og hlutlausra ríkja annarra þjóða en stórveldanna til að reyna að brjótast út úr þessari herkví.

Mér finnst það einkennandi fyrir þá sem skoða heiminn enn þá út frá forsendum síðari heimsstyrjaldarinnar eða kalda stríðsins að þeir viðurkenna ekki þessa nýju stöðu í þessum málum. Þeir vilja skoða heiminn áfram út frá togstreitu hins góða og illa. Við erum góðu mennirnir, hinir eru vondir. Aðeins það sem við segjum og aðeins það sem við leggjum til er rétt. Friðar- og afvopnunartillögur frá öðrum eru varhugaverðar o. s. frv. Þessari heimsmynd, þessari túlkun, er ég ósammála.

Ég er einnig aldeilis ósammála því, sem komið hefur hér fram hjá mörgum ræðumönnum sem mælt hafa gegn þessari till., að afstaða manna til þessarar þál. hljóti að ráðast af því hvort menn styðja veru okkar í Atlantshafsbandalaginu eða ekki. Ég þarf ekki að benda hæstv. utanrrh. á það að fjöldi af hans eigin flokksmönnum er andvígur þessum hugmyndum. Þeir hafa skrifað undir þar að lútandi á opinberum vettvangi, þeir hafa talað við fjölmiðla, þeir hafa gefið út blöð.

Ég hygg að þó nokkur fjöldi a. m. k. kjósenda Alþfl. fyrrverandi alla vega séu einnig í þessum hópi og fólk úr öllum öðrum stjórnmálaflokkum og utan stjórnmálaflokka. Vísbendingar úr skoðanakönnunum, sem ég benti á, benda til þess að miklu fleiri en a. m. k. kjósendur Alþb. séu þessarar skoðunar. Þó að við legðum saman kjósendur þeirra flokka sem hér hafa komið upp og lýst stuðningi við þessa till. dygði það ekki til. Við yrðum að fara inn í hóp hinna sem hér hafa lýst yfir andstöðu sinni. Það er því alveg ljóst að þetta fólk, jafnt sjálfstæðismenn sem aðrir, er ekki sammála túlkun talsmanna þessara sjónarmiða hér á hinu háa Alþingi. Það lítur öðruvísi á þessa hluti. Það lítur á þessa hluti, ef ég má leyfa mér að reyna að skýra það hvað valdi þarna mestu um, það lítur á þessi mannvirki sem aukningu á hernaðarvígbúnaði. Það hefur margoft komið fram að það ræður mestu um. Fólki finnst nóg komið. Jafnvel það fólk, sem styður það að við skulum vera í Atlantshafsbandalaginu eða við skulum sætta okkur við óbreytt ástand, telur að ástæðulaust sé að heimila hér aukningu á vígbúnaði.

Það er fjöldamargt í þessu sem efnislega væri ástæða til að gera athugasemdir við. Hæstv. utanrrh. heldur því að sjálfsögðu fram að þessar radarstöðvar séu svo ómerkilegar að það mundi enginn eyða á þær sprengju. Það er gott og vel, ágætt ef svo er að menn kjósi að nota frekar hefðbundnar sprengjur en kjarnorkuvopn þegar þeir eyða slíkum mannvirkjum. Ég veit ekki hvaðan utanrrh. hefur tryggingu fyrir því. Kannske hafa sovétmenn, sem hann telúr yfirleitt líklegasta til að ráðast á okkur, gefið honum vilyrði fyrir því að þeir muni ekki beita kjarnorkuvopnum gegn svona mannvirkjum.

Fagna ég því að sjálfsögðu ef svo er. En ég veit að þeir, sem ráða ferðinni í hernaðarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, hafa af því áhyggjur að augu þeirra og eyru, radarstöðvarnar úti um víða veröld, séu gjarnan það fyrsta sem óvinurinn reynir að taka úr sambandi. Enda var það til siðs þegar menn flugust á með berum höndunum hér áður en vopnin komu til sögunnar að reyna fyrst að skadda augu andstæðingsins og því næst kannske eyru hans. Ég hygg að þetta eigi enn þá við í dag.

Radarstöðvar eru eðli sínu samkvæmt ákaflega auðsæranleg mannvirki. Þær eru það vegna þess að þær standa uppi á fjallstoppum og það er erfitt að koma vörnum við. Þess vegna halda ýmsir því fram að þær séu eðli sínu samkvæmt frekar árásartæki en varnar vegna þess hversu haldlitlar þær eru til varnar, m. ö. o. af því að þær eru svo auðsæranlegar þá er varnargildi þeirra takmarkað að þessu leyti. Með nútímatækni er að sjálfsögðu hægt að eyða slíkum rafsjárstöðvum jafnvel áður en þær sjálfar uppgötva hættuna, hvað þá aðrir aðilar, með langdrægum skeytum. Ratsjárstöðvar senda frá sér geisla. Þannig starfa þær, a. m. k. þessar hernaðarratsjárstöðvar. Þegar er til tækni til að láta flugskeyti elta þennan geisla og finna stöðvarnar eingöngu út frá þeim merkjum sem þær senda frá sér sjálfar.

Hitt er svo annað mál að utanrrh. fullvissaði okkur um það að þetta bryti ekki í bága við SALT-samkomulag og ekki við Helsinki-sáttmála. Hins vegar var það Morgunblaðið, sem er útbreiddur fjölmiðill hér á landi, sem birti um það frétt 4. janúar s. l. hvað George Shultz — ég verð að nefna manninn á ensku af því að hann er Englendingur, með leyfi hv. þm. Eiðs Guðnasonar, ég get varla stafað íslenska nafnið hans, hér — utanrrh. Bandaríkjanna hyggst leggja áherslu á í viðræðum sínum við Sovétmenn. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa orðrétt upp úr Morgunblaðinu þá er tilvitnun svohljóðandi:

Utanrrh. Bandaríkjanna hyggst leggja áherslu á hæpið réttmæti ýmissa radarmannvirkja í Sovétríkjunum sem Bandaríkjamenn halda fram að feli í sér brot á samningi risaveldanna frá 1972 um takmarkanir á kjarnorkuvígbúnaði. Á meðal þessara mannvirkja er risastór radar í smíðum í Krasnoyarsk“ — ég kann heldur ekki íslenskt nafn á þessu staðarheiti — „í miðhluta Síberíu.“

Eins og menn vita voru með þessum samningi settar skorður við því að varnir Bandaríkjanna og Sovétríkjanna gegn eldflaugavopnum yrðu þróaðar. Það var rökstutt með því að hugsanlegur árásaraðili yrði þannig hindraður í því að leggja út í kjarnorkuvopnaárás ef land hans sjálfs réði yfir litlum vörnum, gegn stórfelldri gagnárás. Þannig að Morgunblaðið, George Shultz og þeir hjá AP-fréttastofunni hafa því nú aðrar skoðanir en hæstv. utanrrh.

Það var mikið talað hér um flug sovéskra flugvéla yfir Ísland, það hefði farið vaxandi og væri mikil ógnun við okkur. Nú hef ég aldrei vitað til þess að sovéskar herflugvélar ryfu íslenska lofthelgi. Ég held að það sé misskilningur ef þm. hafa haldið að svo sé. Hins vegar fljúga þær hér upp að því svæði: sem telst til loftvarnasvæðis Íslands og er auðvitað allt annað en hin íslenska lofthelgi. Það er hins vegar alþjóðlegt svæði og enginn getur meinað þetta flug þó það falli innan þess svæðis sem stöðin í Keflavík telur sér skylt að halda uppi eftirliti á. Hér verða menn því að gera greinarmun á.

Það er viðurkennd staðreynd að báðir aðilar í þessum hráskinnaleik, bæði stórveldin, eru þreifandi á varnarbúnaði hvors annars sýknt og heilagt. Þau fljúga upp að varnarsvæði hvors annars, prófa viðbrögðin og sjá þá kveikja á kerfinu o. s. frv. Þeir skoða hvernig er brugðist við. Þetta hefur einn ágætur þm. Kvennalistans skýrt út af sinni sérfræðilegu þekkingu sem vöðvastrekkingaræfingar hjá stórveldunum, þeir séu að sperra vöðvana hvor framan í annan, sýna að þeir séu nú hérna á ferðinni og hinir sperra á móti og sýna að þeir hafi nú varnir o. s. frv. Þegar utanrrh. setur sig hér í stellingar og talar um þetta sem svona óskaplega ógnun finnst mér það því skjóta skökku við vegna þess að þetta á sér stað alls staðar þar sem landamæri stórveldanna eða áhrifasvæði þeirra liggja einhvers staðar nálægt hvort öðru. Þar eru menn í svona hráskinnaleik. Þetta ættu fróðir menn um utanríkismál að vita.

Ég fullyrði það, og bið menn að sanna annað fyrir mér ef þeir geta, að bandarískar flugvélar hegði sér ekkert öðruvísi þegar þær nálgast sovéskt landsvæði en sovéskar flugvélar gera hér. Ég bendi á það vegna þess að menn tala alltaf um þá hættu sem af því stafi að þessar flugvélar, bæði bandarískar og sovéskar herflugvélar, hvort sem það eru þotur eða eftirlitsflugvélar, eru búnar mjög öflugum ratsjárkerfum. Þær annast sjálfar sínar eigin flugleiðsögu og sitt eigið flugöryggi og geta þess vegna sjálfar haldið sig víðs fjarri öðrum flugvélum. Það er auðvitað skýringin á því að þetta hefur ekki valdið neinum slysum. Nú hristir náttúrlega hinn fróði þm. Alþfl. höfuðið, en í öllu falli hafa ekki stafað af þessu slys. Menn hafa af þessu áhyggjur út um allan heim, það er rétt, menn hafa áhyggjur af hernaðarflugi sem ekki sinnir tilkynningaskyldu út um allan heim.

Að vísu fljúga þessar flugvélar oft skv. þeirri flughefð sem er flugumferðarstjórnarskyld. En það kemur fyrir að þær klifra upp í þau svæði þar sem alþjóðleg flugumferðarstjórn á að ríkja og gefa þá ekki tilkynningar. Það gerist út um allan heim og þetta er áhyggjuefni í alþjóðlegu flugi, það er alveg rétt. En ég veit ekki hvort við Íslendingar erum verr settir en aðrir í þessum efnum.

Síðan er mikið talað hér um þessi borgaralegu afnot. Ég vék að því áðan og gæti svo sem ýmislegt um það sagt. Ég vil þó í það minnsta leiðrétta þann misskilning sem mér virðist gæta þegar menn fjalla um aðflug að flugvöllum. Talað er um að þessi og hin ratsjáin geti dugað í aðflugi alveg niður að flugvellinum. Hér er ekki um aðflugsratsjár að ræða fyrir viðkomandi flugvelli, það er nauðsynlegt að menn kunni að gera á þessu tvennu greinarmun. Þannig er það t. d. í Keflavík að stöðin í Rockville er ekki aðflugsratsjá fyrir Keflavíkurflugvöll. Til þess er byggð sérstök ratsjá sem þjónar því eina markmiði. Þessar stöðvar yrðu ekki aðflugsratsjár, hvorki fyrir Þórshafnarflugvöll né Ísafjarðarflugvöll. Sú aðstoð er því annars eðlis sem þær veita en bein aðflugsstjórnun.

Þegar talað er um skipaumferðina vita þeir sem geta dregið hring á kort að þetta er ákaflega lítill hluti af íslensku miðunum sem lendir innan þess svæðis sem þessar stöðvar þekja. Þá má spyrja: Hvers eiga hinir að gjalda? Ef þetta er allt í einu orðið svona mikið öryggistæki, hvers eiga allir þeir sem út undan verða, sem er yfirgnæfandi meiri hluti af íslenskum miðum, að gjalda að hafa ekki ratsjár? (Gripið fram í: Öryggistæki fyrir hvern?) Öryggistæki fyrir skipaumferð og trillur og annað slíkt, tilkynningarskyldu o. fl. (Gripið fram í: Það er eintómt rugl.) Ég tek undir það, ég held að það sé tómt rugl. Það er í raun og veru merkilegt hvað menn seilast langt til lokunnar í þessum efnum til að tína sér til rök til að réttlæta þetta. En reynslan á að sjálfsögðu eftir að sýna það ef þessi mannvirki rísa að hvað mikilli blessun þau verða. Segir mér svo hugur um að litlu muni það breyta í íslenskum sjávarútvegi.

Mér finnst það lágkúrulegt, herra forseti, ég verð að segja það eins og er, að nota aldagamlan ótta barna og kvenna um afdrif eiginmanna sinna og feðra á miðunum til þess að reyna að ryðja þessu máli brautargengi vegna þess að ég hygg að það sé byggt á svo litlum rökum. Það er svo margt, margt annað sem er miklu, miklu nærtækara að gera í þeim efnum ef menn vilja beita sér fyrir öryggi íslenskra sjófarenda, ef menn vilja auka öryggi í íslenskum flugsamgöngum en þetta. Það er auðvelt að nefna dæmi. Hingað til hefur það verið á forgangslista þeirra manna sem fjalla um flugumferð á Íslandi að bæta flugvelli, að bæta lýsingu, að setja upp slökkvibúnað, að malbika flugbrautir, að setja upp aðflugstæki o. s. frv. sem hefur verið nefnt númer 1, 2, 3, 4, 5 og 6 í þessum efnum. Sama má segja um öryggi sæfarenda. Ég hygg að það séu fyrirbyggjandi aðgerðir sem vil hljótum að leita að en ekki ratsjár sem hugsanlega gætu upplýst um það að bátur hefði farið á hliðina eða bátur hefði horfið af einhverju ákveðnu hafsvæði. Það er fullseint í rassinn gripið. Ég held að allir geti verið sammála um það að hinar fyrirbyggjandi aðgerðir komi þarna á undan.

Því er haldið fram, án þess að fyrir því séu færð nein efnisleg rök, að staða okkar hvað varðar þá þjónustu sem við innum af hendi á hinu íslenska flugumferðarstjórnarsvæði sé nú mjög veik og hætta sé á því að við missum þetta verkefni ef við fáum ekki þessar radarstöðvar. Þetta er þá í fyrsta lagi alveg nýr sannleikur, þessu hefur ekki verið hreyft fyrr en þá núna. Það sama á við um öll þessi borgaralegu afnot að þetta er allt nýuppfundið.

Í öðru lagi vek ég athygli á því að íslenska flugumferðarstjórnarsvæðið nær fyrir ofan vissa flughæð norður á pól og vestur fyrir Grænland. Þótt þessar stöðvar kæmu og bættust við þær sem fyrir eru þekja þær því ekki nema örlítið brot engu að síður, ekki nema örlítinn hluta af hinu íslenska flugumferðarstjórnarsvæði. Missum við það ekki engu að síður nema við getum byggt radarstöðvar við norðurpólinn og vestur um allt Grænland og norður um? Það er eðlilegt að spurt sé.

Ég ætla í sjálfu sér eingöngu að þakka hv. þm. Eiði Guðnasyni fyrir mjög málefnalega og vandaða umfjöllun um þetta mál. Ég get eiginlega ekki svarað hans ræðu öðruvísi, ég læt það bara duga. Það er ánægjulegt er menn leggja það á sig hér að kynna sér málin og fjalla um þau á málefnalegan og sanngjarnan hátt og því ber alltaf að fagna. Ég þakka hv. þm. fyrir hans markverða innlegg.

Það kann vel að vera að ég hafi þýtt ranglega hér eitt orð úr ensku. Þó bið ég hv. þm. að athuga að ég hygg að þýðingin sé hin rétta en enska orðið hafi misritast. Því þetta er hið rétta hugtak sem ég var að fjalla hér um, þ. e. „þolgæði“. Ef ég man rétt er þetta hugtak úr herfræðinni stundum kallað á enska tungu „overkill“. Það byggist á því að dreifa það miklum búnaði að jafnvel þó verulegur hluti hans sé eyðilagður sé keðjan sem slík eða kerfið sem slíkt enn þá starfhæft. Með því að fjölga stórlega ratsjárstöðvum þannig að þær skarist mikið hver við aðra og fjöldi þeirra sé aukinn telja herfræðingar sig auka þetta þolgæði kerfisins. Þeim mun fleiri geta þá dottið úr án þess að það verði algerlega óvirkt. Hafi þm. skilið þetta núna vona ég að þessi misskilningur sé úr sögunni. En þetta er hugtakið á íslensku, hvaða enska orð sem hefur nú átt þarna að standa.

Eiður Guðnason vitnaði hér mjög í William Arkin. Stundum vitnaði hann í hann sem merkan fræðimann sem mikið mark væri á takandi. Því til sönnunar að þessar radarstöðvar væru lítið mál í þessum efnum hafði hann að sjálfsögðu William Arkin. En þegar kom að öðrum hlutum var þetta hinn ómerkilegasti maður sem hvað eftir annað hafði orðið uppvís að vitleysum og misskilningi. Þetta er ákaflega gagnlegur maður, þessi William Arkin. Það er bæði hægt að nota hann til að sanna hlutina og rökstyðja að svona sé þetta og til þess að sýna fram á að hann sé bullari, ruglukollur og vitleysingur. Gagnlegir eru slíkir menn.

Ég held að William Arkin hafi alveg rétt fyrir sér þegar hann segir að þessar ratsjárstöðvar einar sér séu ekki óskaplega mikilvægt atriði. Það hef ég t. d. aldrei sagt. Ég hef alltaf lagt á það áherslu að það bæri að skoða þetta í samhengi við þá hluti sem hér eru að gerast, það bæri að líta á heildarmyndina. Ef hæstv. utanrrh. má heyra mál mitt hef ég átalið þann málflutning að reyna að einangra þessar stöðvar sem einstakt og sjálfstætt fyrirbrigði vegna þess að það eru þær ekki. Fyrir því má færa mörg rök og þar er t. d. starfsmaður öryggismálanefndar mér sammála. Ég lít á það sem lið í þessari heildarþróun sem hér er að eiga sér stað. Sem slíkar eru þær mjög alvarlegar. Þær eru það skref í þessu sem við sjáum núna að verið er að taka og það má segja að þær séu jafnalvarlegar og þessi áætlun er í sjálfu sér í heild sinni þess vegna.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson og reyndar fleiri viku að því að lítið væri að marka tal um meiri hluta eða minni hluta og andstöðuna í heimabyggðunum í þessu sambandi. Ég hef aldrei látið mér um munn fara að neitt slíkt hefði verið sannað. Það hefur engin könnun verið gerð á því marktæk að mínu viti og það hefur engin almenn undirskriftasöfnun átt sér stað. Ég bið menn að taka alveg sérstaklega eftir því, ef þeir eru að tala hér um 100 Vestfirðinga í 10 þúsund manna fjórðungi, að hér er ekki um almenna undirskriftasöfnun að ræða, auk þess sem til þessara 10 þúsund Vestfirðinga teljast börn, konur og gamalmenni. Þar eru allir taldir sem hugsanlega mundu í mörgum tilfellum ekki skrifa undir. (Gripið fram í.) Já, ég sagði það af gefnu tilefni vegna þess að það er fjallað alveg sérstaklega um þátt kvenna í þessu máli og hann tengist þessu öllu á alveg sérstakan hátt eins og fram hefur komið. Ég sé því ekki ástæðu til annars en að gera skýran greinarmun á því, það eru líka konur í Vestfirðingafjórðungi eins og reyndar í öðrum fjórðungum. Börnin eru meira að segja vonandi bæði karlkyns og kvenkyns í Vestfirðingafjórðungi.

Hitt vil ég fullyrða, m. a. vegna þess sem Björn Dagbjartsson sagði hér á ósmekklegan hátt, að meiri hluti þeirra, sem til var leitað í sveitarhreppum á Norðurlandi eystra, skrifaði undir. Ég hygg að það hafi verið milli 80 og 90% í Sauðaneshreppi en 60–70% í Svalbarðshreppi og meiri hluti í Þórshafnarhreppi. Það geta menn því haft til marks ef þeir á annað borð vilja hirða um að grafast fyrir um hið sanna í þessum efnum. Það er hins vegar einfaldur hlutur að ganga úr skugga um það með marktækum hætti hver er afstaða heimamanna ef ríkisstj. vill leggja það á sig og það ætti hún að sjálfsögðu að gera, þ. e. ef hún á annað borð ætlar að gera eitthvað með vilja heimamanna í þessum efnum.

Ég harma það að hv. þm. Björn Dagbjartsson skuli vera að draga inn í þessa umr. hér á Alþingi algjörlega órökstuddar fullyrðingar um ámælisverð vinnubrögð í sambandi við undirskriftasöfnun. Hann rökstuddi sitt mál í engu og færði engar sannanir fyrir því að hann færi þar með rétt mál eða sú tilvitnun, sem hann las upp, ætti við rök að styðjast. Mér finnst fyrst og fremst vera gert lítið úr því fólki, sem þarna hefur látið nafn sitt undir, að vera að gera því skóna að það hafi gert það vegna annarlegs þrýstings og það sé þá ekki í raun og veru fullsjálfrátt fyrir sínum undirskriftum. Það sé eitthvert undirmálsfólk sem ráði ekki sinni undirskrift, láti annarlegan þrýsting og annarleg sjónarmið hafa áhrif á sig. Ég geri sveitungum mínum og frændum þarna ekki upp slíkt. Ég held að þeir séu fullmagtugir að sinni undirskrift og geti staðið við hana hvar sem er og hvenær sem er og borið höfuðið hátt yfir henni.

Ég er sammála hæstv. utanrrh. um margt þó ég sé honum ósammála um sumt. Ég hef aldrei talið mig neitt verri Íslending en hæstv. utanrrh. þó ég hafi aðrar skoðanir en hann um utanríkismál, þó ég hafi aðrar skoðanir á því hvernig hægt er að tryggja öryggi íslensku þjóðarinnar. Nú er það greinilegt af orðum hæstv. utanrrh. hér að hann hefur miklar efasemdir um Íslendinga eins og mig sem hafa þessar skoðanir sem ég hef hér talað fyrir. Hann lætur að því liggja að það sé eiginlega mikið áhyggjuefni hvar þeir Íslendingar séu staddir sem þessa skoðun hafi.

Ég hlýt að taka það svo sem hæstv. utanrrh. efist um þjóðhollustu mína, hann dragi þjóðernistilfinningu mína í efa og hann sé jafnvel með áhyggjur yfir því að ég gangi hér fyrir annarlegum sjónarmiðum. Ef hæstv. utanrrh. telur mig og allt það fólk, sem hefur lagst gegn þessum hugmyndum, föðurlandssvikara vildi ég að hann kæmi hér upp og segði það. Ég vil miklu frekar heyra það beint en að heyra hálfkveðnar vísur sem jafnvel má skilja í þá veru. Það breytir hins vegar ekki því að ég tel sjálfan mig fullboðlegan Íslending. Ég hef aldrei stigið fæti austur fyrir járntjald, alla vega ekki til Sovétríkjanna, og ég hef alltaf leyft mér að hlæja að því góðlátlega þegar verið er að gera því skóna að ég sé að ganga erinda einhvers heimskommúnisma. Ég veit t. d. að mitt heimafólk hlær að því einnig og það þótti nokkuð kyndugt á fundi á Þórshöfn þegar utanrrh. kom með þessa ræðu sína og mátti eiginlega skilja að ég sem kannske aðalandstæðingurinn þarna væri eiginlega handbendi heimskommúnismans. Það fannst sveitungum mínum svolítið broslegt.

En ég er hins vegar alveg sammála utanrrh. um það að við eigum ekki að láta Sovétríkin beygja okkur né þrýsta okkur til að gera eitthvað sem við ekki viljum, við eigum að vera sjálfsfæð þjóð gagnvart þeim. Ég vil heldur ekki láta hvorki utanrrh. né Morgunblaðið þrýsta mér né beygja mig í hnjánum til að breyta mínum skoðunum. Ég segi það sem mér býr í huga um þessi efni og það verður að hafa það þó að mannorðsræningjarnir sem skrifa ákveðna dálka í Morgunblaðinu geri því skóna að ég geri það í annarlegum tilgangi. Morgunblaðið mun ekki beygja mig frá því að hafa mína skoðun í þessum málum og ég mun tala fyrir henni fullum hálsi og bera höfuðið hátt og þar með læt ég umræðu um það lokið.

Herra forseti. Ég geng út frá því sem gefnu nema annað komi þá fram hér að engar ákvarðanir verði teknar í þessu máli meðan það er til umfjöllunar hér á hv. Alþingi.