21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (3103)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Langt þótti mér hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson seilast um hurð til lokunnar. Ætlar hann að segja þingheimi að þegar Olof Palme og þegar Anker Jörgensen o. fl. tala um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og þegar einræðisherrarnir í Kreml tala um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum séu þeir að tala um nákvæmlega það sama? Víðs fjarri, langur vegur frá. Þetta veit hv. þm. og því er það ekki honum sæmandi að bregða fyrir sig þeirri röksemdafærslu sem hann áðan beitti.

Þegar ég sagði að Sovétríkin fylgdu þeirri utanríkisstefnu gagnvart Íslandi að Ísland ætti að ganga úr NATO og varnarliðið ætti að fara héðan vitum við að það er rétt. Um þetta hafa verið samdar bækur og ritaðar margar ritgerðir af hálfu þeirra fjölmörgu fræðimanna sem fjalla um þetta í Sovétríkjunum. (ÓRG: Það er með sömu röksemd og þm. notaði áðan.) Nei, má ég ljúka mínu máli, hv. þm. Þetta er stefna Sovétríkjanna gagnvart Íslandi. Stefna Alþb. og fyrirrennara þess hefur langa lengi verið sú að Ísland ætti að ganga úr Atlantshafsbandalaginu og varnarliðið ætti að hverfa héðan. Það er alveg sama hvað hv. þm. segir. Þetta tvennt fer saman. Það er ekki þar með sagt að Alþb. skrifi upp á allan utanríkisstefnuvíxil Sovétríkjanna. Mér dettur ekki í hug að halda því fram og hefur aldrei dottið það í hug. Það eru bara þessi tvö atriði sem fara saman og því verður ekki móti mælt.

Ég fagna þeim yfirlýsingum sem hv. þm. gaf hér um að Alþb. ætti samleið með lýðræðisþjóðunum í Vestur-Evrópu. Hann taldi upp ýmsar þeirra, sumar í Atlantshafsbandalaginu, sumar ekki. Þess hefur mátt sjá ýmis merki, þrátt fyrir tal um hið gagnstæða hér á Alþingi, að utanríkisstefna Alþb. væri að breytast. Ég gæti vel trúað hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni til að sveigja hana inn á þessa braut.

En í þessum efnum skulum við ekki gleyma því, og nú lýk ég máli mínu, herra forseti, að allir flokkar eiga sér sögu. Alþb. á sér langa sögu undir ýmsum nöfnum og frá þeirri sögu kemst Alþb. aldrei, hvort sem þeim ágætu mönnum sem þar sitja nú við völd líkar betur eða verr.