21.03.1985
Sameinað þing: 62. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3774 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

206. mál, nýjar hernaðarratsjárstöðvar á Íslandi

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Hv. þm. Eiður Guðnason er búinn að halda aðra glimrandi ræðu um konur við þessa umr. um hernaðarrafsjárstöðvar og ég vil láta í ljós gleði mína yfir þessum ræðuhöldum þm. Þau tryggja það að kvennarannsóknir framtíðarinnar munu hafa úr miklu að moða og eins að hv. þm. muni sennilega hljóta veglegan sess á kvennasögusafni.

Það sem ég vildi hér aðeins víkja fáeinum orðum að og snertir þessa umr. var út af margnefndri bænarskrá Vestfirðinga. Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. þm. Magnúsi Reyni Guðmundssyni bæjarritara á Ísafirði, að þetta er ekki fulltrúaskrá. Mér skriplaði þar á skötu á tungunni þegar ég notaði það orð. Það sem ég vildi sagt hafa var að undirskriftasöfnun hefur ekki farið fram á Vestfjörðum, þ. e. það hefur ekki verið borinn listi í hvert hús til að safna undirskriftum, þannig að þeir hundrað einstaklingar sem þarna skrifa nafn sitt á gera það fyrst og fremst sem þeir sjálfir og aðeins sem úrtak Vestfirðinga.