25.10.1984
Sameinað þing: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í B-deild Alþingistíðinda. (312)

3. mál, umsvif erlendra sendiráða

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Hjörleifi Guttormssyni, flutti hann nær samhljóða till. á síðasta þingi og í tilefni þess tillöguflutnings ræddum við um þessi mál hér í lok marsmánaðar s.l. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson las upp úr þingtíðindum frá þeim tíma orð sem hann hafði þá fyrir sinni till. Ég ætla nú að hlífa þm. við því að hafa sama háttinn á og endurlesa þau orð sem ég hafði um till. þá en hlýt þó, þó ekki væri nema kurteisi vegna, að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm.

Ég vil þá fyrst taka fram að við erum sammála um það, tillögumaður og ég, að fylgjast beri mjög grannt með stærð, umfangi og verkefnum sem erlend sendiráð hafa með höndum hér á landi. Við sjálfstæðismenn höfum oft vakið máls á nauðsyn þessa og það er eins og að nokkru leyti af hálfu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar að gefnu tilefni þess mannfjölda sem sovéska sendiráðið hefur hér í Reykjavík. En það stingur óneitanlega sérstaklega í augu hve stórt og umfangsmikið það sendiráð er.

Ég er sömuleiðis sammála hv. þm. um að heimildir eru til staðar skv. alþjóðasamningum og alþjóðalögum og íslenskum lagaákvæðum til að setja sérstakar reglur eða gera sérstakar ráðstafanir til að takmarka umsvif eða mannfjölda erlendra sendiráða hér á landi. Ég hef einmitt, eins og fram kom í tilvitnun hv. þm. í ræðu mína í marsmánuði s.l., haft það til athugunar hvort ástæða væri til að setja slíkar reglur eða ekki. Í þeim tilgangi hef ég safnað gögnum um hvaða háttur er á þessu hafður hjá öðrum vestrænum þjóðum og ýmsum vinaþjóðum okkar Íslendinga, þeim er okkur eru skyldastar að menningu og lífsviðhorfum. Þær upplýsingar eru margar hverjar gefnar reyndar sem trúnaðarmál, en ég tel mér þó heimilt að tíunda þær í utanrmn. þegar um þessi mál verður fjallað þar. Hér get ég sagt það sem almenna niðurstöðu þessarar rannsóknar að það er fremur undantekning en regla að önnur ríki setji um þetta almennar reglur. Þær undantekningar sem um er að ræða eru yfir höfuð fólgnar í því að móttökuríki hafa sett einhliða ákveðna takmörkun gagnvart ákveðnu sendiríki og óneitanlega í flestum tilvikum, ef ekki nær öllum, gagnvart Sovétríkjunum.

Ég hef ekki gert upp hug minn um það hvort rétt sé að við Íslendingar setjum almennar reglur í þessum efnum, sem kveði á um fjölda starfsmanna eða umfang erlendra sendiráða hér á landi. Ég hygg að þá mundum við vera ein í flokki slíkra þjóða sem það gerðum. Ég efast um að það væri út af fyrir sig heppilegt en vil þó gjarnan hafa tækifæri til að bera mínar bækur saman við aðra í utanrmn. Ég get hugsað mér að ég sem utanrrh. setji almennar reglur á grundvelli þess lagaákvæðis sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði til. en það veitir utanrrh. heimild til slíkrar reglugerðarsetningar og fylgir staðfestingu Vínarsamningsins. En ég hygg að slíkar almennar reglur yrðu fyrst og fremst að kveða nánar á um það með hvaða hætti erlend sendiráð gerðu grein fyrir þeim starfsmönnum er þeir óska eftir að séu hér að störfum í sendiráðum viðkomandi ríkja, þannig að við hefðum á hverjum tíma tækifæri til að grípa inn í þróun mála og skipta okkur af því meira en gert hefur verið.

Það er að vísu svo að erlend ríki tilkynna komu erlendra sendiráðsstarfsmanna og það getur á hverjum tíma gefið móttökuríki, í þessu tilviki okkur, tækifæri til þess að setja þær skorður sem við teljum eðlilegar og sjálfsagðar. En í þessum efnum er auðvitað um viðkvæmt milliríkjamál að ræða. Þótt svo sé er ég þeirrar skoðunar að við eigum að koma fram af fullri hreinskilni, festu og djörfung og ekki líða starfsemi sem ekki á sér rétt og skýringu í venjubundnum erindrekstri sendiríkis.

Ég hygg að það sé árátta hv. flm. Hjörleifs Guttormssonar í þessum efnum sem svo mörgum öðrum, þegar þeir Alþb.-menn eru í varnarstöðu fyrir ímynduðum hagsmunum Sovétríkjanna, að leggja Sovétríkin og Bandaríkin ávallt að jöfnu, einræðisríki Sovétríkjanna og lýðræðisríki Bandaríkjanna. Þetta kemur fram á mörgum sviðum þegar rætt er um mismunandi efni. Ég vil í því sambandi aðeins segja það að því er stærð þessara sendiráða í Reykjavík snertir að það er auðvitað ólíku saman að jafna, sendiráð Bandaríkjanna við sendiráð Sovétríkjanna. Bandaríkjamenn eru fjölmennastir ferðamanna hér á Íslandi. Við fáum heimsóknir þúsunda þeirra á ári hverju og þúsundir Íslendinga heimsækja Bandaríkin. Varðandi Sovétríkin eru væntanlega íslenskir ferðamenn til Sovétríkjanna aðeins í tugum taldir og sömuleiðis jafnvel enn færri ferðamenn frá Sovétríkjunum til Íslands. Þegar á það er líka litið að Bandaríkin eru stærstu kaupendur afurða okkar en Sovétríkin í fimmta eða sjötta sæti, sem þó skal ekki gert lítið úr því það eru okkur verðmæt viðskipti. Í þriðja lagi má svo bæta því við að bandaríska sendiráðið gegnir ýmsum störfum sem bundin eru samningsskyldum þeirra í varnarsamningi milli Íslands og Bandaríkjanna, samningsskyldum sem er okkur í hag engu síður en Bandaríkjamönnum að séu inntar af hendi. Þannig ber álit að sama brunni, að það eru eðlilegar skýringar á stærð bandaríska sendiráðsins gagnstætt við hið sovéska.

Ég vil, án þess að endurvekja þær umr. sem fram fóru í mars s.l., aðeins taka jákvætt undir þann tilgang þessa tillöguflutnings að hagsmuna Íslands sé gætt og vel sé fylgst með umfangi, stærð og verkefnum sem erlend sendiráð hafa hér á landi með höndum og lýsa því yfir að ég fagna frumkvæði flm. að þessu leyti og vænti þess að í utanrmn., sem flm. á sæti í, sé unnt að ræða þessi mál frá öllum hliðum svo að leiði til sameiginlegrar niðurstöðu.