25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3786 í B-deild Alþingistíðinda. (3121)

331. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Frv. þetta um náttúruvernd, sem lagt er fram hér á Alþingi, er samið að tilhlutan Náttúruverndarþings. Á 2. Náttúruverndarþingi árið 1975 var Náttúruverndarráði falið að stuðla að því að endurskoðuð yrði gildandi löggjöf um náttúruvernd með hliðsjón af ýmsum breytingum sem taldar væru æskilegar. Það kom einkum í hlut Páls Líndals lögfræðings, sem átt hefur sæti í Náttúruverndarráði um langt árabil, að vinna að undirbúningi þessa frv. M. a. var fjallað um málið á Náttúruverndarþingum árin 1978 og 1981, einkum þó á fyrra þinginu. Í menntmrn. voru síðan gerðar lítils háttar breytingar og lagfæringar á frv. í samráði við formann Náttúruverndarráðs eftir ábendingum ráðsins og fleiri aðila, m. a. stjórnar Landverndar.

Meginbreytingar í þessu frv. frá núgildandi lögum nr. 47/1971, um náttúruvernd, eru byggðar á þeirri reynslu sem fengist hefur á annan áratug. Lögin hafa að mörgu leyti reynst vel þó að nokkur atriði hafi komið fram við framkvæmd þeirra sem betur mættu fara og þyrftu að vera ótvíræðari í meðferð mála. M. a. er gert ráð fyrir því að náttúruverndarnefndir verði efldar til móts við þau sjónarmið er fram hafa komið um að efla þær og auka tengsl þeirra við Náttúruverndarráð, en jafnframt dreifa valdi þess nokkuð við meðferð stað- og héraðsbundinna mála.

Önnur ný atriði varða m. a.:

1. Skýrari reglur en nú gilda um almannarétt.

2. Aukinn stuðning við útilíf og viðunandi umgengni í náttúrunni.

3. Aukið tillit til sjónarmiða náttúruverndar við skipulagsgerð og samræmdari og skýrari reglur um friðlýsingu og um réttindi manna og skyldur í sambandi við meðferð friðlýstra svæða.

4. Fyllri ákvæði um náttúruminjaskrá.

Ísland hefur á síðari árum tekið aukinn þátt í erlendu samstarfi um náttúruverndarmálefni. Frv. þetta tekur þó vitaskuld mið af íslenskum aðstæðum enda þótt mál þessi séu í mörgum tilvikum alþjóðleg. Vandamál á sviði náttúruverndar gerast sífellt áleitnari um allan heim með aukinni efnahagslegri velmegun, vaxandi þéttbýli og iðnvæðingu. Þau eru talsvert breytileg frá einu landi til annars. Atvinnuhagsmunir mannsins rekast tíðum á ýmsa þætti í umhverfi hans en þó ber almenningi ávallt að sýna fyllstu tillitssemi og gætni í umgengni sinni við náttúru landsins svo að henni sé ekki spillt að þarflausu.

Ég vil geta þess að á fundi sem haldinn var s. l. vor gerði ráðherranefnd Evrópuráðsins, þ. e. ráðherrar þeir sem fóru með náttúruverndarmál í Evrópulöndunum, ályktun um stefnu í þessum málum, sem má segja að falli betur að atvinnuhagsmunum landanna, þ. e. að gætt sé í senn séreinkenna landanna í atvinnulífi og gætni í umgengni við náttúru þeirra. Þetta var ekki síst með það í huga að þau lönd sem mest komu við sögu á þessum fundi voru t. d. Grikkland, þar sem fundurinn var haldinn, og fleiri lönd við Miðjarðarhafið. Fulltrúar þeirra og ráðherrar báru það sérstaklega fyrir brjósti að löndin höfðu í æ ríkari mæli hagsmuni sína af ferðamannaþjónustu og þess vegna var aukin áhersla lögð á það að ferðamannaþjónustan yrði ekki til þess að breyta öllum ströndum þessara landa í baðstrendur, þar sem þá yrði ekki séð fyrir nauðsynlegum höfnum til þess að koma ýmsum þungavarningi til landanna og til að veita fiskiskipum aðstöðu. Þetta var eiginlega aðalvandi þessara ríkja. Í þeim tilfellum var það ferðamannaþjónusta. Hjá okkur er það frekar það sem varðar sjávarfang, fiskveiðar og hvalveiðar jafnvel, svo að nokkuð sé nefnt.

En hin sameiginlega niðurstaða varð þessi, sem mér virtist vera ný stefna, að náttúruvernd og atvinnuhagsmunir yrðu að haldast í hendur. Þetta ættu ekki að vera stríðandi þættir í þjóðlífi einstakra landa heldur yrði að ganga svo frá málum að hvert og eitt land gæti tekið tillit til séreinkenna síns atvinnulífs og náttúruverndin hlyti að taka að nokkru mið af því.

Ég vil, virðulegi forseti, víkja örlítið að einstökum greinum þó að við séum hér að ræða málið við 1. umr. Ástæðan er sú að hér er um nokkurn frv.- bálk að ræða sem menn kannske gera sér ekki í fljótu bragði grein fyrir hvaða breytingar felist í.

Ég vil geta þess að 2. gr. er ný grein.

4. gr., sem fjallar um náttúruverndarnefndir, er miklu ítarlegri en áður og í henni nýmæli bæði um störf náttúruverndarnefnda og að Náttúruverndarráð geti kosið fulltrúa með málfrelsi og tillögurétti til að sitja í náttúruverndarnefnd.

6. gr., um störf Náttúruverndarráðs, er einnig nokkru ítarlegri en áður og með nýmæli. Það er ákvæðið um að ráðið geti tilnefnt sérstakan umboðsmann á sviði náttúruverndarmála innan tiltekins svæðis.

9. gr., sem svarar til 11. gr. í núgildandi lögum, rýmkar nokkuð rétt almennings til ferðar um landið, eða umgengnisrétt, og var unnin í samráði við fulltrúa bændasamtakanna.

13. gr. er ákvæði um sinubrennur og er það nýtt í náttúruverndarlögum.

18. gr., um nám jarðefna, er greinilegri en tilsvarandi grein núgildandi laga og felur Náttúruverndarráði ákveðnara hlutverk.

19. gr., um óþarfa akstur utan vega og merktra ökuleiða, er nokkuð breytt, styttri, einfaldari og auðveldari í framkvæmd en tilsvarandi grein núgildandi laga.

20. gr., um fyrirhugaða mannvirkjagerð, er fyllri og nákvæmari en tilsvarandi grein núgildandi laga sem er 29. gr. þeirra. Í stað þess að nú er talað um stór mannvirki er í frv. talað um mannvirki sem ætla megi að hafi veruleg umhverfisáhrif.

Um 21. gr. er það að segja að ákvæði í 2. málsgr. hennar um ábyrgð landeiganda er nýmæli.

Nýmæli er líka í 22. gr. um að sjónarmiða náttúruverndarlaga skuli gætt við skipulag.

23. gr., um sumarbústaði, er nokkuð breytt, einkum varðandi svæði sem enn eru óskipulögð, og færir Náttúruverndarráði aftur að nokkru það hlutverk sem það hafði skv. 21. gr. núverandi laga en breyttist við það að allt landið varð skipulagsskylt árið 1979.

24. gr. er að mestu nýmæli, í senn inngangur og yfirlit kaflans um friðlýsingu.

Í 2. málsgr. 25. gr. frv. er nýmæli, þ. e. að stofna megi þjóðgarð á landi sem ekki er ríkiseign.

28. gr., um fólkvanga, er styttri og greinilegri en tilsvarandi grein núgildandi laga. 4. málsgr. þessarar greinar er nýmæli.

29. gr., um náttúruminjaskrá, er fyllri en núgildandi grein og tekið fram að friðuð svæði skuli einnig færa á skrána.

Í 30. gr. eru felld í eina grein ákvæði fjögurra greina, þ. e. 30.–33. núgildandi laga, um framkvæmd friðlýsingar.

Nýmæli er í 31. gr. um svæði á náttúruminjaskrá. Loks felur 32. gr. í sér það nýmæli að auk dýra og plantna sé heimilt að friðlýsa steintegundir.

Ég tel ekki ástæðu til, hæstv. forseti, að gera á þessu stigi frekari grein fyrir þessu frv. né gera ítarlegri samanburð á því og eldri lögum, en frekari upplýsingar er að finna í rækilegum athugasemdum með frv. Ég vil leyfa mér að leggja það til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.