25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3791 í B-deild Alþingistíðinda. (3124)

331. mál, náttúruvernd

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir þær ábendingar sem þeir hafa komið hér með í sambandi við þetta frv. og sérstaklega nokkur einstök atriði sem hv. 5. þm. Norðurl. e. benti hér á. Það er ósköp eðlilegt að hann vilji ekki láta friðlýsa þorskinn og má hv. þm. gerst um það vita hvaða afleiðingar það kynni að hafa, enda með dýrmæta reynslu af Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Það er náttúrlega ekki ætlunin að fara út í slíkt með frv. sem þessu.

Það var sérstaklega eitt atriði sem varð til þess að ég stóð hér upp. Eitt þeirra atriða, sem hv. þm. minntist á, var það að e. t. v. væri tímabært að sameina öll náttúruverndarákvæði og friðlýsingarákvæði í eitt frv. eða taka þau inn í þetta. Þetta sjónarmið hefur vissulega komið fram. Ég vil skýra það af hverju ég legg ekki til að svo sé gert. Það er ekki sérstaklega af náttúruverndarástæðum, heldur öllu fremur af bókmenntalegum ástæðum. Þannig er mál með vexti að það eru nokkur friðlýsingarákvæði og lög um umgengni á landi og skyld efni sem eru í ævagömlum lagaákvæðum í lagasafninu. Ég tel að löggjöf okkar yrði svo miklu fátæklegri og leiðinlegri ef þetta væri afnumið og sett inn í einhver nútímalög. Ég tel alveg nauðsynlegt að halda svona merkum ákvæðum eins og t. d. nokkrum ákvæðum í landsleigubálki Jónsbókar sem enn eru í gildi. Ég tel sömuleiðis alveg afleitt ef við færum að fella út úr lagasafninu lög um friðun héra sem voru sett 1914. Þá höfðu menn hugsað sér að flytja héra inn til Íslands. Þeir vildu hafa vaðið fyrir neðan sig og settu lög um friðun þessarar merku tegundar hér á landi. Einhvern veginn er það nú svo að á öllum þeim þingum sem síðan hafa setið hefur engum dottið í hug að afnema þessi lög. Héðan af finnst mér eiginlega að þau ættu að vera háð einhverri sérstakri minjavernd rétt eins og náttúruminjar og ýmsar minjar í landinu.

Auðvitað er það rétt að svona ákvæði lengja lagasafnið en ekki að þeim mun að það sé ekki jákvætt að hafa þau þar. Mér finnst ekkert á móti því að lagasafnið sé svolítið skemmtilegt.