25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3792 í B-deild Alþingistíðinda. (3125)

331. mál, náttúruvernd

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Í tilefni af þessum ummælum hæstv. menntmrh. finn ég mig knúinn til að minna hæstv. ráðh. á að í fyrra var samþykkt á Alþingi þáltill. um lagahreinsun. Samkvæmt henni á að fella út úr lagasafninu úrelt, ónauðsynleg og raunar kannske úr gildi fallin ákvæði ýmis sem þar eru og lagabálka sem ekki eiga lengur við. Þetta var ályktun Alþingis sem ríkisstj. ber skylda til að framfylgja.

Mér komu ummæli hæstv. ráðh. núna nokkuð á óvart þegar því er haldið fram að af annaðhvort hreinni íhaldssemi eða einhvers konar tilfinningasemi eigi að viðhalda í lagasafninu lagabálkum eins og t. d. um friðun héra sem aldrei voru fluttir til landsins og eru ekki hér á landi. Ég hélt satt að segja að lagasafn ætti að vera með þeim hætti að það væri sæmilega aðgengilegt og það sem í því væri ætti að eiga sér stoð í veruleikanum. Þegar maður heyrir hæstv. ráðh. halda því fram — að því er virðist í fullri alvöru — að ekki eigi að sameina og samræma þau lagaákvæði sem lúta að náttúruvernd af þeim ástæðum sem hún hér rakti finnst mér íhaldssemin ganga fulllangt. Þá finnst mér íhaldssemin vera orðin á kostnað skynseminnar sem hún kannske er ærið oft að vísu.

En ég finn mig knúinn til að andmæla þessum sjónarmiðum vegna þess að ég held að mörg hagkvæmnisrök lúti að því að ákvæði, sem varða umhverfisvernd og náttúruvernd, séu mikið til á einum stað. Ég skal taka undir það að að hinum allra elstu ákvæðum er kannske einhver eftirsjá og e. t. v. mættu þau standa þannig að þarna væri að einhverju litlu leyti komið til móts við þessi sjónarmið. En ég held að það eigi að vera stefna stjórnvalda að svona ákvæði séu öllum almenningi sem aðgengilegust.

Ýmis atriði í sambandi við þetta náttúruverndarfrv. mætti gera að umtalsefni hér. En þar sem ég á sæti í þeirri nefnd sem væntanlega mun um þetta fjalla mun ég ekki gera það. Ég get tekið undir ýmislegt af því sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan. T. d. hefur mér á stundum fundist gæta of mikillar einsýnistefnu hjá þeim sem móta stefnuna á Náttúruverndarþingi. Sú stefna kom mætavel fram á síðasta Náttúruverndarþingi þar sem fjallað var um sel og hval og þar sem ákveðnum einstaklingum — þ. á m. hv. þm. Birni Dagbjartssyni — var boðið til þingsins en síðan meinað að tala þar. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef náttúruverndarmenn ætla að halda á sínum málum með þeim hætti og það skaðar þeir:a góða málstað.

Virðulegi forseti. Ég vildi sem sagt ekki láta þessum orðum hæstv. menntmrh. ómótmælt.