25.03.1985
Efri deild: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3793 í B-deild Alþingistíðinda. (3126)

331. mál, náttúruvernd

Árni Johnsen:

Virðulegi forseti. Það frv., sem hér er fjallað um, er mikil ástæða til að skoða vandlega. Ég vil taka undir þau orð sem hér hafa fallið varðandi það að starf Náttúruverndarráðs hefur á undanförnum árum verið alleinsýnt í mörgum þáttum. Gripið hefur verið inn í mál á mjög furðulegan hátt sem kannske er ekki sérstök ástæða til að rekja hér en mætti þó t. d. nefna tilraun að hafnargerð við Dyrhólaey þar sem Náttúruverndarráð greip inn í framkvæmd sem búið var að samþykkja. Rökin voru í rauninni þau að ein æðarkolla hafði verpt of nálægt veginum sem átti að leggja að þessum litlu hafnarframkvæmdatilraunum.

En það er margt sem að mínu mati hefur verið einsýnt í starfi Náttúruverndarráðs og ástæða er til að fjalla um í sambandi við þennan nýja lagabálk og verður vonandi vel skoðað í n. hjá hv. deild. Því má hins vegar skjóta hér inn í og kemur svo sem ekki hv. þdm. á óvart að hv. þm. Eiður Guðnason blæs sig upp út af litlu tilefni. Hann minnti hér á friðun héra. Það ætti kannske ekki að vera hv. þm. ókunnugt að þótt ekki hafi verið fluttir hingað inn hérar eins og til var ætlast þá höfum við flutt inn mikið af héraskap, t. d. sænskum héraskap. Það ætti hv. þm. að vera fullvel kunnugt um.